Markarfljót á meginupptök sín í Mýrdalsjökli en einnig úr Eyjafjallajökli og fönnum Hrafntinnuskers. Áin er u.þ.b. 100 km löng og vatnasviðið nálægt 1070 km². Hún er oftast vel fær jeppum á Miðveginum en þegar niður í byggð er komið, er hún orðin að stórfljóti. Markarfljótsgljúfur, næstum 200 m djúpt, er stórfenglegast ofan ármóta Syðri Emstruár. Áin flæmdist víða niðri á láglendinu og braut land áður en varnargarðar voru byggðir. Fyrsta brúin var byggð yfir hana nærri Litla-Dímon árið 1934. Hún var fjarlægð eftir að nýja brúin nokkru neðar var opnuð.
Önnur brú, hin næstelzta, er á Emstrum, suðvestan Hattfells, á leiðinni úr Flótshíðinni inn á Miðveg um Emstrur, og hin þriðja og nýjasta er allmiklu neðar en fyrsta brúin var, því að þjóðvegurinn var færður jafnframt brúarbyggingunni til að stytta hann.
Stóra- og Litla-Dímon eru á Markarfljótsaurum í nágrenni elztu brúarinnar. Nafnið Dímon er talið merkja tvífjall, ef það er dregið af latneska heitinu „di montes”. Báðar hæðirnar eru velgrónar og hin stóra (178m) er í mynni Markarfljótsdals. Þar eru mörk Austur-Landeyja, Fljótshlíðar og Vestur-Eyjafjalla. Rauðaskriða, sem getið er í Njálu, er í Stóru-Dímon. Litla-Dímon er rétt við brúna og veginn, sem liggur inn í Þórsmörk.
Við Markarfljót sátu Njálssynir fyrir Þráni Sigfússyni þegar hann var að koma frá Runólfi á Dal. Þráinn hafði komið Nálssonum í vandræði gagnvart Hákoni jarli í Noregi og neitaði að greiða þeim bætur þegar út var komið til Íslands. Nú skyldi hefnt. Í þeim bardaga vó Skarphéðinn Þráin Sigfússon. Í framhaldi af því bauð Njáll Höskuldi syni Þráins og Þorgerðar Glúmsdóttur fóstur hjá sér og gerði ætíð mjög vel við Höskuld, útvegaði honum meðal annars goðorð og gott kvonfang.