Ljósavatn er stöðuvatn, bær og kirkjustaður í Ljósavatnsskarði nærri mynni Bárðardals. Fram að aldamótunum 1900 var þar þing- og samkomustaður héraðsins og barnaskóli var starfræktur á árunum 1908-14.
Staðurinn er þekktastur fyrir búsetu hins heiðna goða Þorgeirs Þorkelssonar í kringum aldamótin 1000. Árið 1000 stóð Alþingi Íslendinga frammi fyrir ákvörðun um ríkistrú. Flestir voru heiðnir en margir voru kristnir, jafnvel aftur í ættir frá landnámi. Lið beggja trúhópa stóðu með alvæpni á þingi, tilbúnir til að berjast, þegar tókst að ná samkomulagi um að fela Þorgeiri úrskurðarvald í þessu máli. Hann lagðist undir feld og tilkynnti síðan, að allir skyldu skírast til kristinnar trúar. Þetta gekk eftir án blóðsúthellinga og margir voru skírðir á þinginu eða á leiðinni heim.
Þorfinnur máni, landnámsmaður og afi Þorgeirs, settis að á Öxará, sem er syðsti bær í Ljósavatnshreppi, austan samnefndrar ár. Stórar ættir eiga rætur að rekja til Ljósvetninga (Reykjahlíðar-, Skútustaðaættir o.fl.). Jón A. Stefánsson, fyrrum bóndi í Möðrudal, fæddist á Ljósavatni árið 1880.
Ljósavatnsskarð er djúpur og breiður dalur milli Kinnar og Bárðardals að austan og Fnjóskadals að vestan. Melaöldur þvera dalinn austanverðan, en annars staðar er mýrlent hlíðar kjarri vaxnar. Djúpá rennur úr Ljósavatni til Skjálfandafljóts. Fnjóská tekur við Þingmannalæk, sem rennur til vesturs úr skarðinu. Landslagsdrættir benda til þess, að Skjálfandafljót hafi um tíma runnið um skarðið til Fnjóskár.