Kerið í Grímsnesi er nyrztur gíghóla, sem nefnast Tjarnarhólar. Það er sporbaugslaga, 270 m langt og allt að 170 m breitt. Gígurinn er 55 m djúpur og niðri í honum er tjörn, sem er milli 7 og 14 m djúp eftir grunnvatnsstöðu svæðisins.
Gömul saga segir, að lækkun vatnsborðs í Kerinu haldist í hendur við lækkun vatnsborðs í tjörninni uppi á Búrfelli í Grímsnesi. Grímsneshraunið, sem smám saman er að hverfa undir sumarbústaði og gróður, rann fyrir 6500 árum frá Seyðishólum, annarri gígaröð austan Tjarnarhóla. Alls eru hraun á svæðinu 54 km² að flatarmáli og talið er að þar séu 12 gosstöðvar, sem tilheyra Langjökulsbeltinu.
Kerið hefur löngum verið talið sprengigígur en Sveinn Jakobsson, jarðfræðingur, telur það vera niðurfall eftir hrun gjallgígs. Tjarnarhólahraunið þekur 11 km². Skömmu fyrir aldamótin 2000 voru haldnir tónleikar að sumarlagi í Kerinu. Tónlistarfólkinu var komið fyrir á fleka á tjörninni og áhorfendur sátu í brekkunum inni í gígnum. Góður rómur var gerður að hljómburði þessarar náttúrulegu tónlistarhallar.
Gamla Biskupstugnabrautin lá um bílastæðisflötinn til 1970. Þar var þá líka vísir að útafkeyrslu eða bílastæði, enda hafa vegfarendur stoppað við Kerið frá því bílaumferð hófst á Suðurlandi. Gjaldtaka er við Kerið, fyrir þá sem vilja skoða það nánar.