Hrossaborg er annar tveggja þekktra, samkynja gjóskugíga á Norðausturlandi. Hinn er Hverfjall í Mývatnssveit. Báðir eru myndaðir í tengslum við þeytigos í vatni eða við miklar grunnvatnsbirgðir. Hrossaborg er eldri, u.þ.b. 10.000 ára, en Hverfjall 2500 ára.
Mývetningar beittu hrossum sínum gjarnan á þessu svæði og notuðu gíginn sem aðhald fyrir þau á meðan leitum var haldið áfram. Að þeim loknum var allt stóðið rekið niður í Mývatnssveit. Vegur liggur alla leið inn í gíginn, sem lítur út eins og stórt hringleikahús, þegar inn er komið. Leiðin inn í Herðubreiðarlindir liggur steinsnar austan Hrossaborgar.
Þeim, sem vilja kynna sér þessar slóðir betur, skal bent á sögurnar um Fjalla-Bensa og bækurnar um Ódáðahraun eftir Ólaf Jónsson. Ennfremur nánari umfjöllun á hálendissíðum þessa vefseturs.