Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Heimshöfin

ADRÍAHAF

Adríahafið skilur á milli Ítalíu og Austur-Evrópu. Það var nefnt eftir hinni blómstrandi hafnarborg Adria á rómverskum tíma. Þessi flói inn úr Miðjarðarhafinu er u.þ.b. 800 km langur og að meðaltali 160 km breiður. Mesta dýpi er 1250 m. Pó og Adige hverfa í botn Adríahafsins. Ítalíuströndin er lág og bein en austurströndin er fjöllótt og klettótt með fjölda víkna og eyja. Botn hafsins er þakinn blöndu af gulum leir og sandi, sem inniheldur skeljabrot, steingerfinga og kóralla. Mikil þörungaflóra veldur stundum óþægindum við baðstrendur.

Aðalvindáttirnar eru „bora”, kröftugur norðaustanvindur, sem flæðir niður fjöllin í grenndinni, og „sirocco”, hægari suðaustanvindur. Sjávarföllin eru margflókin og hafa verið rannsökuð ítarlega. Hitastig yfirborðslaga er u.þ.b. 25°C í ágúst. Lægsti hitinn, 10°C, mælist í janúar og febrúar. Í norðanverðu Adríahafi er hitastig árósanna lægra vegna uppruna vatnsins í jöklum og snjódældum. Aðalhafnir Ítalíumegin er u Bari, Brindisi, Feneyjar og fríhöfnin í Trieste. Á austurströndinni eru þær helztar: Rijeka, Split, Dubrovnik, Kotor, Durres og Vlore. Sjávarafli er aðallega humar, sardínur og túnfiskur.

ANDAMANHAF

Andamanhaf gegur til norðausturs inn úr Indlandshafi. Vestan þess eru Andaman- ogNicobar-eyjar, Myanmar (Burma) að norðan, Myanmar, Tæland og Malasía að austan og Malasía og Súmatra (Indónesía) að sunnan. Það tengist Suður-Kínahafi um Malakkasund og til þess renna árnar Irrawaddy, Sittang og Salween. Heildarflatarmálið er í kringum 798.000 km².

ARABÍUHAF

Arabíuhaf er hluti Indlandshafs milli Arabíuskagans í vestri og meginlands Indlands í austri. Norðan þess eru Íran og Pakistan og það blandast Indlandshafi í suðri. Meðal helztu flóa Arabíuhafs eru Adenflói, sem tengir það við Rauðahaf og Ómanflói, sem tengir það við Persaflóa. Mesta breidd þess er u.þ.b. 2400 km og mesta dýði er 5030 m. Karachi í Pakistan og Bombei í Indlandi eru aðalhafnarborgirnar við Arabíuhaf.

EYJAHAF

Glitrandi blátt Eyjahafið er á milli Grikklandsskaga og Tyrklands. Það var nefnt eftir þjóðsagnakonugninum í Aþenu, Egeusi. Þar eru vöggur tveggja frummenninga heims, Krít og Grikkland. Í þessum stóra flóa inn úr Miðjarðarhafinu er Gríski eyjaklasinn. Eyjahafið tengist Svartahafi um Dardanellasund, Marmarahafið og Bosporussund. Suðurmörk Eyjahafsins er eyjan Krít.

Strandlengja þess er óregluleg og vogskorin. Vogar og víkur gerðu sæfarendum fortíðar auðveldara að leita skjóls í vondum veðrum og ferðast lengra. Heildarflatarmál Eyjahafsins er u.þ.b. 214.000 km². Það er u.þ.b. 610 km langt og 300 km breitt. Mesta dýpi, nálægt Krít, er 3544 m, en meðaldýpi er 362 m. Sjávardýralíf er fábrotið vegna næringarskorts, en margar fisktegundir úr Svartahafi koma þangað til að hrygna í hlýrri sjó. Fátt er úr þessu hafi að fá nema þessa fáu fiska. Rannsóknir hafa leitt í ljós möguleika á olíubirgðum undir hafsbotninum auk verðmætra jarðefna, aðallega kalksteins.

EYSTRASALT

Eystrasalt er innhaf í Norður-Evrópu. Umhverfis það eru Svíþjóð, Finnland, Eistland, Lettland, Litháen, Rússland, Pólland og Þýzkaland. Heildarflatarmál þess er u.þ.b. 414.400 km². Lengst er það 1500 km og breiðast 685 km. Það tengist Norðursjó um sundin Eyrarsund, Stórabelti, Litlabelti, Kattegat og Skagerak.

Norðurhlutinn skiptist í tvo stóra flóa, Botníuflóa milli Finnlands og Svíþjóðar og Finnlandsflóa milli Finnlands og Eistlands. Rigaflói skerst inn í strandlengju Eistlands og Lettlands. Á ströndum Póllands og Þýzkalands eru firðir og víkur, s.s. Danzigflói og Stettinflói, sem tilheyra báðir Póllandi og Lübeck- og Kiel-flóar, sem tilheyra Þýzkalandi. Helztu eyjarnar eru Rugen (Þ), Bornholm og fleiri danskar Eyjar, Gotland og Aaland (S), Saaremaa (Osel;E) og Hiiumaa (Dago; E) og Álandseyjar (F).

Vatnasvið Eystrasalts nær yfir stóran hluta Norður-Evrópu og vegna þess, hve lítið innflæði er úr Atlantahafinu um þröng sundin, er það tiltölulega saltlítið. Saltmagnið er aðeins þriðjungur þess, sem mælist í Atlantshafi. Seltan minnkar til vesturs og norðurs. Saltlitlir yfirborðsstraumar liggja stöðugt til Norðursjávar en saltmiklir djúpstraumar liggja í andstæða átt. Flóðs og fjöru gætir aðeins í sunnanverðu Eystrasalti.

Óveður eru algeng á Eystrasalti og valda oft miklum skipsköðum. Hinn 28. sept. 1994 drukknuðu u.þ.b. 1000 manns, þegar ferjan Estonia sökk í óveðri fyrir ströndum Finnlands. Austanáttin er sérstaklega hættuleg vegna samvirkni strauma og vinds, sem veldur risaöldum. Umferð um norðurhluta hafsins liggur niðri á veturna og snemma vors vegna ísa.

Eystrasaltið er mikilvæg samgönguæð vegna viðskipta í norðanverðri álfunni. Aðalhafnarborgirnar eru Kaupmannahöfn (D), Kiel og Lübeck (Þ), Szczecin, Gdansk og Gdynia (P), Kaliningrad, Pétursborg og Kronstadt (R), Riga (L), Tallin (E), Helsinki og Turku (F) og Stokkhólmur, Karlskrona og Malmö (S). Norðursjávarskurðurinn tengir Eystrasalt við Norðursjó (Kiel- eða Skurður Wilhelm keisara). Hvítahafsskurðurinn tengir það við Hvítahafið og Volguskurðurinn við ána Volgu. Tenging við Kaspíahaf og Svartahaf liggur um Volga-Eystrasaltsskurðinn og Volga-Donskurðinn.

INDLANDSHAF

Indlandshafið er minnst stórhafanna þriggja. Vestan þess er Afríka, Asía að norðan, Ástralía og Eyjaálfa að austan og Suðurstkautslandið að sunnan. Mörkin milli þess og Atlantshafsins eru óskýr en oftast er 4020 km langur spotti af lengdarbaugnum 20°A milli syðsta hluta Afríku og Suðurskautslandsins notaður til viðmiðunar. Heildarflatarmál Indlandshafs er u.þ.b. 28,3 milljónir km². Það er norðurmjótt og skiptist í Arabíuhaf og Bengalflóa. Arabíuhafið greinist í Persaflóa og Rauðahaf. Meðaldýpi Indlandshafs er u.þ.b. 4210 m, lítið eitt meira en Atlantshafsins, og dýpsti hluti þess, 7725 m, er fyrir suðurströnd indónesísku eyjarinnar Java. Flestu dýpstu hlutar þess eru í norðausturhlutanum, þar sem u.þ.b. 130 þúsund km² eru rúmlega 5500 m djúpir.

Indlandshaf er þakið eyjum. Hinar stærstu eru Madagaskar og Shri Lanka. Meðal hinna smærri eru Maldive-eyjar og Máritíus. Meðal stórra fjóta, sem falla til Indlandshafs eru afrísku árnar Limpopo og Zambezi, asísku árnar Irrawaddy, Brahmaputra, Ganges, Indus og Shatt Al-Arab. Oftast eru vindar Indlandshafs hægir og þar ríkja löng logntímabil. Hitabeltisóveður ríða stundum yfir, einkum í grennd við Máritíus, og árstíðabundnir monsúnvindar ríkja á hafsvæðinu.

Hinn 27. desember 2004 hnikuðust flekamót fyrir vesturströnd Súmötru (Indónesía) og ollu gríðarlegum jarðskjálfta, 9,0 á Richter. Hann olli risaflóðbylgju (TSUNAMI), sem gekk á land í 13 ríkjum við Bengalflóa og Indlandshaf, allt til Sómalíu og Kenja í Afríku. Flóðið varð líklega á þriðja hundrað þúsund manns að aldurtila. Víða á ströndum þessara landa voru – og verða á ný – fjölsóttir ferðamannastaðir (Phuket, Sri Lanka, Malasía o.fl.). Þar fórst fjöldi fólks víða að úr heiminum, s.s. nokkur þúsund Ástrala, Norðurlandabúa, Þjóðverja, Frakka, Englendinga o.fl..

JÓNAHAF

Jónahaf er sá hluti Miðjarðarhafsins, sem liggur á milli Grikklands og Albaníu annars vegar og Ítalíu og Sikileyjar hins vegar. Það tengist Adríahafinu í norðri um Otrantosund. Það teygist inn í djúpan Taranto-flóann við suðurströnd Ítalíu milli Kalabríu og Apúlíu og gríska ströndin er skorin mörgum löngum fjörðum, s.s. Korintuflóa.

KASPÍAHAF

Kaspíahafið er salt stöðuvatn í Suðvestur-Asíu, hið stærsta í heimi. Vestan þess er Azerbaijan og Rússland, Kazakhstan að norðaustan og austan, Turkmenistan að austan og Íran að sunnan. Lengd þess frá norðri til suðurs er 1210 km og breiddin er 210-436 km. Flatarmálið er 371 þúsund km². Strandlengjan er óregluleg með stórum flóum að austanverðu, m.a. Krasnovodsk og hinn grunni Kara-Bpgaz-Gol, þar sem er er mikil uppgufun og saltvinnsla. Meðaldýpi Kaspíahafsins er 170 m en dýpst er það syðst, 995 m. Yfirborðið er mishátt á milli ára en oftast í kringum 28 m neðan sjávarmáls. Á árunum 1960-80 lækkaði yfirborðið mjög, sumpart vegna þess að vatn úr ánum, sem renna til þess, var nýtt í auknum mæli til áveitna og annarra þarfa. Árið 1980 var byggð stífla þvert fyrir flóann Kara-Bogaz-Col til að draga úr vatnstapi. Þá myndaðist stöðuvatn, sem búizt var við að entist í nokkur ár. Þess í stað þornaði flóinn algerlega upp árið 1983. Samtímis þessu fór yfirborð Kaspíahafs að hækka á ný og byggð var áveita til að veita vatni aftur inn í flóann. Vatnsborðið heldur áfram að rísa og byggðir með ströndum fram verða fyrir æ fleiri flóðum vor og haust. Borgirnar Makhachakala og Derbent, sem liggja lægst, eru í mestri flóðahættu.

Sunnan og suðvestan Kaspíahafs er Elburs og Kákasusfjöllin. Meðal stærstu fljóta, sem falla til þess eru Volga (stórt óshólmasvæði), Ural og Emba. Þær streyma allar í það norðanvert. Úr austri falla m.a. Gorgan og Atrek, úr vestri Kura. Ekkert vatn rennur úr Kaspíahafi á yfirborði jarðar en það er tengt Eystrasalti, Hvítahafi og Svartahafi með skipaskurðum og ánni Volgu. Þessir vatnavegir halda leiðinni milli olíulindanna í Baku á Apsheronskaga og Norður-Evrópu opinni. Á síðasta áratug 20. aldar hófu nokkur olíufélög samstarf um olíuleit í Kaspíahafi. Fiskveiðar í því eru verulegar og verðmætustu fisktegundirnar eru styrja, lax, karfi, og síld. Síbreytilegt vatnsborð, mengun og ofveiði hefur haft alvarleg áhrif á fiskistofna. Talið er, að fjöldi veiddra styrja hafi minnkað úr 200 milljónum árið 1990 í 60 milljónir um miðjan áratuginn. Meðal annara dýra, sem lifa í Kaspíahafi eru skjaldbökur, hnísur og selir.

Kaspíahaf er oft hættulegt sjófarendum vegna suðaustanfárviðra og á veturna er norðurhlutinn lokaður vegna ísa. Aðalhafnarborgirnar við Kaspíahaf eru Krasnovodsk, Turkmenistan, Baku, Azerfaijan og Makhachkala, Rússland.

KYRRAHAF I

Kyrrahafið nær yfir rúmlega 181 miljónir ferkílómetra milli Ameríku, Asíu og Ástralíu og milli beggja heimskautanna. Norðan miðbaugs er Norður-Kyrrahaf og sunnan hans Suður-Kyrrahaf.

Búseta og landafundir. Talið er, að eyjar Kyrrahafsins hafi byggzt frá meginlandi Asíu og eyjaklösum Suðaustur-Asíu. Líklega komu fyrstu landnemarnir frá Melanesíu. Þeir flykktust til Austur-Míkrónesíu og austur til Pólínesíu. Landnám Pólínesíu tókst með löngum sjóferðum í stórum bátum og var mikið siglingafræðilegt afrek. Þessar ferðir virðast hafa hafizt fyrir 3000-4000 árum og staðið yfir þar til fyrir 1000 árum, þegar maóríar, sem eru af pólínesískum stofni, settust að á Nýja-Sjálandi. Lengstu sjóferðir pólínesa lágu til Hawaii, fyrst frá Marquesas-eyjum to síðar frá Tahítí.

Afleiðingar búsetunnar. Kyrrahafið getur tekið við gífurlegu magni úrgangs, eytt honum eða þynnt hann út en sífelld uhverfisslys hafa leitt til verulegrar mengunar. Hennar gætir víða á veiðislóðum og í grennd við stórar verksmiðjur og borgir. Helztu mengunarvaldarnir á grunnsævi eru óhreinsað skolp, spilliefni frá iðnaði (þungmálmar), tilbúinn áburður og skordýraeitur, sem berst til sjávar með ánum og yfirborðsvatni. Sums staðar hefur fiskur og önnur sjávardýr mengast svo mjög, að ekki er hægt að nýta fiskimið lengur. Úthafið hefur ekki orðið fyrir neinni sambærilegri mengun.

Evrópumenn. Kyrrahafseyjarnar voru byggðar löngu áður en Evrópumenn fundu þær á 16. öld. Landafundaskeiði Evrópumanna má skipta milli Spánverja og Portúgala, Englendinga og Frakka og Hollendinga. Tímabil Spánverja og Portúgala hófst eftir 1520 með Ferdinand Magellan og að honum látnum héldu áhafnir skipa hans áfram. Síðari landafundir ná til Salómonseyja, Marquesas-eyja og e.t.v. Nýju-Gíneu, þegar Spánverjinn Álvaro de Mendana de Neira var á ferðinni. Portúgalinn pedro Fernándes de Quirós fann Vanatu og Spánverjinn Luis Váez de Torres fann Torres-sundið. Á tímum Hollendinga á 17. öld, fundu Jakob Le Maire og Willem Corneliszoon Scouten byggðar eyjar í norðurhluta Tuamotus (Tongaeyjaklasinn) og Alofi og Furuna-eyjar. Kunnastur meðal hollenzkra landkönnuða var Abel Janszoon Tasman, sem fann Nýja-Sjáland, eyjar í Tongaklasanum, norðurhluta Fiji-eyja og eyjar í Bismarckklasanum.

Könnun og landafundir í Kyrrahafi náðu hámarki með komu Breta og Frakka á 18. öld. Fjórir Englendingar, John Byron, Samuel Wallis, Philip Carteret og James Cook, og Frakkinn louis Antoine de Bougainville voru þar fremstir í flokki. Byron kannaði Norður-Marianas-eyjar og fann eyjar í Tuamotu-klasanum, Cook- og Tokelau-eyjaklasana. Wallis fann eyjar í Tahítíklasanum og Carteret kom auga á Pitcairn-eyju og kannaði stór svæði í Suður-Kyrrahafi. Bougainville sigldi til Tahíti, Samóa, Vanatu, Nýju-Gíneu og Salómónseyja.

James Cook, skipstjóri, fór í þrjár mikilvægustu sjóferðirnar á þessu tímabili 1768-79. Fyrsta ferðin lá til Tahítí, þegar hann fann Raiatea, Vaitoare (Tahaa), Huahine og Bora-Bora og kortlagði strönd Nýja-Sjálands og austurströnd Ástralíu. Í annarri ferðinni sigldi hann suður fyrir 70°S, kortlagði Tonga- og Páskaeyju og fann Nýju-Kaledóníu. Í þriðju ferðinni kannaði hann m.a. Norður-Kyrrahafið og Beringsund. Hann var drepinn á Hawaii-eyjum 1779, sem hann fann fyrr í ferðinni. Að honum gengnum var fátt eftir til að uppgötva í Kyrrahafi og kort hans voru svo nákvæm, að nútímakort taka þeim lítið fram. Aðrar eyjar og landsvæði voru kortlögð á 19. öld.

Árin 1931-36 sigldi brezki náttúrufræðingurinn Charles Darwin á herskipinu Beagle og safnaði upplýsingum, sem hann nýtti síðar í ritverkum sínum. Vaxandi áhugi á lífríki og eðli hafsins ýtti undir haffræðileiðangra síðar á öldinni. Hinn kunnasti slíkra var farinn eftir 1870 í kjölfar brezka Challenger-leiðangursins og ferðar USS Tuscarora á Norður-Kyrrahafi og ferðar þýzka könnunarskipsins Gazelle.

Könnunarferðir á 20. öld. Meðal mikilvægustu könnunarleiðangra 20. aldar voru ferð bandaríska skipsins Carnegie (1928-29), danska skipsins Dana II (1928-30), sænska skipsins Albatross (1847-48) og danska skipsins Galathea (1950-52). Síðla á sjötta áratugnum kannaði sovézka skipið Vityaz hafdýpið í Vestur-Kyrrahafi með bergmálsmælingum og árið 1960 fór bandaríska köfunarkúlan niður á botn Mariana-álsins.

Könnunarleiðangrar eftir 1960 hafa verið mjög árangursríkir vegna fyrri þekkingar og betri tækja. Tækjabúnaður í gervitunglum hefur gert nákvæmar athuganir á yfirborði hafsins mögulegar og komið í staðinn fyrir langar sjóferðir. Könnun hafdjúpanna hefur orðið nákvæmari með nútímatækni og margs konar náttúruauðæfi á sjávarbotni hafa fundizt (magnesíumkúlur). Þekking manna á sjávarlífi í nánasta umhverfi jarðhita- og eldvirkra svæða og eldvirkninni sjálfri hefur stóraukizt.

Tilgangur könnunarferða og hafrannsókna á 20. öld snérist að mestu um leit að hráefnum, einkum vatnsefniskolefni á litlu dýpi. Nútímatækni hefur gert mönnum kleift að nýta ýmis efni á æ meira dýpi. Olíuborun á miklu dýpi hefur varpað nýju ljósi á eðli og gerð jarðskorpunnar og möttulinn neðan hennar.

KYRRAHAF II

Eyjar Kyrrahafsins. Eyjarnar í vesturhluta Kyrrahafs, m.a. Aleut-, Kúril- og Ryukyuseyjar, Tævan, Filipseyjar, Indónesía, Nýja-Gínea og Nýja Sjáland, eru skyldar nærliggjandi meginlöndum. Jarðfræðilega er þær að hluta úr seti en að meginstofni líkjast þær strandfjöllum þeirra. Mörkin milli slíkra eyja og fjölda annarra eyja í Kyrrahafinu er „andesítlínan”, sem er mjög eldvirk og teygist frá Aleut-eyjum í norðri suður til Yap- og Palau-boganna. Þaðan heldur hún áfram til austurs um Bismarck-, Salómons- og Santa Cruz-eyjar og aftur til suðurs um Samóa-, Tonga-, Chatham- og Macquarie-eyjar til Suðurskautsins. Innan þessa beltis eru eyjarnar úr blágrýti. Eyjarnar liggja mjög dreift um Kyrrahafið en þó aðallega milli hvarfbauganna og mikill fjöldi þeirra er í Vestur-Kyrrahafi. Nyrztu eyjakeðjurnar eru tengdar Hawaii-hryggnum. Hawaii-eyjaklasinn nær yfir u.þ.b. 2000 eyjar, þótt nafngiftin nái aðeins yfir smáhluta þeirra allraaustast.

Hinn mikli fjöldi smáeyja í Míkrónesíu er aðallega norðan miðbaugs og vestan 180° lengdarbaugsins. Flestar þeirra eru kóraleyjar og helztu eyjaklasarnir eru Mariana-, Marshall-, Karólínu-, Kiribati- (Gilbertseyjar) og Tuvalu-eyjar (Ellice-eyjar). Sunnan Míkrónesíu er Melanesía, sem nær að mestu yfir litlar kóraleyjar. Stærstu eyjar Kyrrahafsins eru nokkurs konar meginlandseyjar, s.s. Nýja-Gínea. Aðaleyjar Melanesíu eru Bismarkeyjar, Salómonseyjar, Vanuatu (Nýju-Hebrides-eyjar), Nýja-Kaledónía og Fiji-eyjar. Pólynesía nær m.a. yfir Hawaii, Fönixeyjar, Samóa, tonga, Cook-eyjar, Félagseyjar, Tuamotu og Marquesa-eyjar.

Jarðfræði. Niðurstöður margs konar rannsókna á jarðskjálftum, eldsumbrotum, aðdráttarafli og segulmælingum benda til jarðskorpuhreyfinga og flekareks. Eyjabogar Kyrrahafsins eru taldir eiga uppruna sinn að rekja til reks Evrasíu- og Ástralíuplatnanna yfir Kyrrahafsplötuna. Gífurleg fellingamyndun og misgengi meðfram eldvirka beltinu í Vestur-Kyrrahafi eru órækur vitnisburður mikilla jarðskorpuhreyfinga. Milli meginlands Asíu og eyjanna liggja djúpir álar í fellingamynduninni og bogadregnir eyjaklasarnir eru hæstu brúnir hennar. Þar er jarðskorpan opnust og veikust og því eru flest virk eldfjöll á eyjunum eða í grennd við þær á flekamótunum.

Kyrrahafsflekinn hrekst til vesturs, þar sem hann hverfur undir meginlandsfleka Norður- og Suður-Ameríku og myndar fellingafjöll meðfram jarðrinum (Klettafjöll, Andesfjöll) og gífuleg brotabelti með jarðskjálftum (San Andreas). Botn Norðaustur-Kyrrahafsins er sérstakur vegna austur-vestur brotabeltanna.

Flattypptu neðansjávareldfjöllin (guyots) og eyjar Kyrrahafsins eru meðal athyglisverðustu jarðmyndana í heiminum. Eyjarnar hafa að mestu myndast við upphleðslu kóralla. Þrjár aðalmyndanir kóralrifja, þ.e. jaðarrifja, risarifja og hringrifja, og flötu eldfjöllin á sjávarbotni norðan og sunnan hitabeltisins eru skýrð í kenningum Darwins um hægfara sig og að hluta til einnig með flekahreyfingum.

KYRRAHAF III

Sjávarhiti. Heimshöfin eru víðast lagskipt eftir hitastigi. Neðstu djúplögin eru mjög köld. Hitasveiflur eru miklar í yfirborðslögunum, all niður á 300 m dýpi. Meðfram ströndum Norður- og Mið-Ameríku, í tempraða beltinu, leikur kaldur straumur um grunnsævið, ólíkt því, sem gerist í Mið- og Vestur-Kyrrahafi. Sjávarhiti í Norður-Kyrrahafi er oftast hærri en í suðurhlutanum vegna þess að þar eru stærri landmassar og áhrifa Suðurskautsins í suðri. Mikill munur er á hita- og seltustigi efri og neðri sjávarlaganna. Í dýpri lögunum (80%) er tiltölulega stöðugt hita- og seltustig. Þar er meðalhitinn 3,5°C.

Selta yfirborðs Kyrrahafsins fer aðallega eftir vindum, úrkomu og uppgufun. Á lognsvæðum og þar sem vindar eru breytilegir við miðbaug er seltan minni en á staðvindabeltinu. Innan miðbaugsbeltisins er úrkoman talsverð og uppgufun er lítil vegna hægs vinds og tiltölulega skýjaðs himins. Meðalseltan á þessu belti er 3,4‰. Mesta seltan mælist í úthafinu suðaustanverðu, þar sem hún er 3,7‰ að meðaltali. Í staðvindabeltinu í Norður-Kyrrahafi er hámarkið 3,6‰. Við Suðurheimskautslandið er seltan minni en 3,4‰ og minnst er hún allranyrzt, minni en 3,2‰.

Mikil úrkoma á vestursvæðinu í tengslum við monsúnvindana dregur verulega úr seltunni. Árstíðabundnar sveiflur báðum megin hafsins vegna breytinga yfirborðsstrauma eru talsverðar.

Yfirborðsstraumar. Staðvindar Kyrrahafsins knýja yfirborðssjó til vesturs og mynda Norður- og Suður-Miöbaugsstraumana, sem liggja um 15°N og 15°S. Milli þessar miðbaugsstrauma er áberandi gagnstreymi, sem nær frá Filipseyjum til stranda Ekvadors. Meginhluti Norður-Miðbaugsstraumsins sveigir til norðurs í grennd við Filipseyjar og myndar hlýjan Kuroshio-strauminn (Japansstrauminn). Austan Japans sveigir hann til austurs og við 160°A fær hann nafið Austur-Kyrrahafsstraumurinn. Yfirborðssjórinn í Beringsundinu myndir andsólarsinnis hringrstreymi. Suðurarmur Kamchatka-straumsins verður að hinum kalda Oya-straumi, sem liggur austan Honshu og sameinast þar hlýjum Kuroshio-straumnum nærri 36°N. Hinn kaldi Kaliforníustraumur, sem liggur til norðausturs, myndar austurhluta Norður-Miðbaugskerfisins, sem liggur til baka í andstæða átt.

Meginhluti Suður-Miðbaugsstraumsins kvíslast í þrennt á vesturleið sinni. Tvær vestari kvíslarnar sveigja til suðurs við Strendur Ástralíu og mynda Austur-Ástralíustrauminn, sem verður að Tasmaníustraumnum og snýr við til norðausturs og hverfur vestan Nýja-Sjálands. Austurkvíslin liggur fyrst til suðurs, meðfram 180° lengdarbaugnum, áður en hann sveigir til austurs í kringum 50°S sem hinn hlýi Suður-Kyrrahafsstraumur. Þegar hann kemur á milli 80°V og 90°V sveigir hann til norðurs og síðan til vesturs sem Mentor-straumurinn og sameinast Suður-Miðbaugsstraumnum á ný. Hinn kaldi Pólstraumur, sem liggur umhverfis Suðurskautið, er á milli þess og Suður-Kyrrahafsstraumsins. Þegar hann kemur að ströndum Suður-Ameríku við 45°S, liggur ein kvísl hans til norðurs meðfram ströndinni og heitir þar Perú- eða Humbolt-straumur. Hin kvíslin liggur til suðurs í gegnum Drake-sund.

Öðru hverju, venjulega með 3-4 ára millibili, myndast afbrigðilegt ástand, El Nino, í strauma- og loftslagskerfi Suður-Kyrrahafsins. Þetta ástand skapast af óvenjulega heitum sjó við strendur hitabeltishluta Suður-Ameríku, sem veldur breytingum á loftslagsmunstrinu á þessum slóðum. Þessar breytingar hafa áhrif á fiskveiðar, landbúnað og úrkomumunstur meðfram ströndum Suður-Ameríku. Þegar þessi óregla er hvað mögnuðust, getur hún valdið afbrigðilegu veðurfari á hitabeltissvæðum og suðurhluta úthafsins og í norðausturhluta Suður-Ameríku, Asíu og Norður-Ameríku.

Neðansjávarstraumar. Könnun hita og seltu á mismunandi dýpi leiðir í ljós skýrt afmörkuð neðansjávarbelti. Svo virðist sem kaldi sjórinn hafi mest áhrif á upp- og niðurstreymið í strauminum umhverfis Suðurskautið. Þessi kaldi og þungi sjór sekkur og dreifist til norðurs og myndar botnlag meiri hluta Kyrrahafsins. Vísindamenn hallast að því, að þessi kaldi sjór streymi til norðurs með botni Vestur-Kyrrahafsins frá Suðurskautslandinu til Japans. Kvíslar frá þessum straumi liggja til austurs og síðan aftur í átt að báðum pólum jarðar.

Djúpsjávarhringrásin verður fyrir áhrifum frá sökkvandi sjó, þar sem straumakerfi í efri lögum mætast. Innan hitabeltissvæðisins sekkur hlýr sjór við slíkar aðstæður niður á 100 m dýpi og dreifist lárétt. Jaðartrópísk samrunasvæði eru milli 35° og 40°N og S. Sjórinn sekkur æ dýpra með aukinni fjarlægð frá miðbaug og dreifist lárétt. Samrunasvæðin í Suður-íshafinu eru þar sem vestanvindar eru ríkjandi. Svipaða sögu er að segja um samskonar svæði í Norður-Íshafinu í norðausturhluta Kyrrahafsins.

Það er óhjákvæmilegt, að kaldur sjór stígi upp til yfirborðslaganna vegna þessa niðurstreymis og uppstreymisins verður vart á öðrum samrunasvæðum straumakerfa, s.s. meðfram kaldstraumaströndum Norður- og Suður-Ameríku, þar sem auðvelt er að fylgjast með því.

Sjávarföll. Í Atlantshafi eru flóð og fjara víðast tvisvar á sólarhring en oft einu sinni eða blandað í Kyrrahafi. Þar sem sjávarfalla gætir aðeins einu sinni á sólarhring er hringurinn í kringum 24 klst. og 50 mínútur. Slíkra sjávarfalla gætir í Tonkinflóa og við Tæland í Suðaustur-Asíu, í Javahafi við Indónesíu og í Bismarck- og Salómonshöfum norðan og austan Nýju-Gíneu. Blönduð sjávarföll (bæði einu sinni og tvisvar á dag) einkennast af óreglu milli flóðs og fjöru og gætir víðast annars staðar í Kyrrahafinu.

Sums staðar í Suður-Kyrrahafi hefur sólin áhrif á sjávarföllin, sem gætir á sama tíma á hverjum degi í nokkra daga í röð. Við Tahítí gerist þetta reglulega með flóði um hádegi og miðnætti og fjöru kl. 06:00 og 18:00.

Almennt er munur flóðs og fjöru í Kyrrahafi lítill. Við Tahítí er hann í kringum 33 sentimetrar, Honululu 66 sm, Yokohama er hann sjaldan meiri en 165 sm og við Hornhöfða er munurinn oft13,2 m.

KYRRAHAF IV

Loftslag. Vinndar og þrýsingssvæði Kyrrahafsins falla að mestu inn í meginmunstur veðurfarsins, sem snúningur jarðar (Coriolis-kraftur) og möndulhallinn (ecliptic) mynda. Í grófum dráttum er skiptast þessi veðurkerfi í þrennt á hvoru hveli jarðar og eru spegilmynd hvort af öðru. Hið gífurlega stóra hafsvæði Kyrrahafsins hefur áhrif á vind og þrýsing og loftslagsskilyrði í suður og vesturhlutunum eru einstök vegna stöðugleika stað- og vestanvindanna. Í Norður-Kyrrahafi er meiri óregla og munur á skilyrðunum á sömu breiddarbeltunum. Harðir vetur á austurströnd Rússlands eru ólíkir tiltölulega mildum vetrum í Brezku Kólumbíu á vesturströnd Kanada.

Staðvindar Kyrrahafsins ná til hringrásarkerfis miðbaugssvæðisins. Upphaf þeirra er í jaðartrópíska háþrýstibeltinu, sem er ríkjandi yfir Norðaustur- og Suðaustur-Kyrrahafinu milli 30° og 40°N og S. Halli jarðmöndulsins, sem er u.þ.b. 23½° milli snúnings jarðar um sjálfa sig og snúningsins um sólina, takmarkar tilfærslu staðvindabeltisins við 5° breiddar hvorum megin miðbaugs. Ausanvindarnir með miðbaug milli jaðartrópísku svæðanna eru kröftugastir í Austur-Kyrrahafi. Milli norður- og suður staðvindabeltanna er lognbelti með breytilegri golu.

Staðvindarnir flytja tiltölulega svalt loft í átt að miðbaug, sérstaklega yfir Austur-Kyrrahafi. Vindarnir komast í snertingu við sjóinn og verða sífellt rakari og hlýrri neðst og hitamunur með hæð eykst. Meðalvindhraðinn er tæplega 7 m/sek. Veðurlagið í staðvindabeltinu er yfirleitt gott, lítt skýjað (mest stök bólstraský) í 600 m (2000 feta) hæð. Úrkoman er lítil og aðallega létt skúraveður.

Í staðvindabeltinu fyrir vesturströnd Ameríku streymir kaldur djúpsjór upp á yfirborðið og kælir loftið niður fyrir daggarmark og myndar þykka og lága skýjabreiðu, þannig að þoka er nokkuð algeng á þessu svæði.

Hitabeltisstormar. Þrátt fyrir tiltölulega stöðugt veðurfar í staðvindabeltunum, framleiða þau ofsaveður og fellibylji. Enn þá skortir á skilning manna á fóðri þessara fyrirbæra, sem virðist nóg á milli 5° og 25°N yfir Vestur-Kyrrahafi síðsumars og snemma á haustin, þegar yfirborðshiti sjávar þar er a.m.k. 27°C. Svæðið austan Filipseyja og Suður- og Austur-Kínahaf eru þekkt fyrir þessi veðurfyrirbæri, sem hindra skipaferðir og valda stórflóðum með ströndum fram með tilheyrandi mann- og eignatjóni.

Vestanvindabeltin eru mótstaður kaldra austanvinda frá heimskautasvæðunum og hlýrra vestanvinda. Afleiðingin er mishraðskreið lágþrýstingssvæði. Heimsskautaskil (frontar) eru öflugust á veturna, þegar hita- og rakamunur loftmassanna, sem mætast, er mestur. Á suðurhveli eru vestanvindarnir sterkir og stöðugir og vindhviður lágþrýstisvæðanna geta verið mjög öflugar.

Monsúnsvæðin. Vestur-Kyrrahafssvæðið er háð árstíðabundnu veðurfari, sem á sér ekki sinn líkan annars staðar í heiminum. Þetta afbrigðilega regntímaveður skapast m.a. vegna mikillar sumarhitunar og vetrarkælingar landmassa Asíu. Hitun loftmassanna yfir Asíu á sumrin veldur myndun lágþrýstisvæða, sem staðvindarnir streyma inn í báðum megin miðbaugs. Lognsvæði miðbaugs eru því ekki til yfir Vestur-Kyrrahafi á sumrin á norðurhveli vegna hins mikla loftstreymis frá miðbaug til hinna risavöxnu lágþrýstisvæða yfir Asíu. Mikil kæling meginlandsmassans á veturna myndar risavaxin háþrýstisvæði yfir Asíu, sem styrkja staðvindana á norðurhveli.

Afleiðing árstíðabundinna loftþrýsingsbreytinga og hringrásar vindanna markar andstæður milli áhrifa meginlandanna og úthafanna, þurrka og kulda, og raka og hita. Þessara áhrifa gætir allt frá Japan í norðri að miðbaug í Vestur-Kyrrahafi.

KYRRAHAF V

Lífrænar auðlindir. Flóra og fána Kyrrahafsins er mjög margbreytileg og flókin. Blöndun heimshafanna er mun meiri á suðurhveli en á norðurhveli, þannig að gróður og dýr berast hraðar á milli að sunnanverðu. Lítil hætta er á því, að hluti lífríkis tempruðu- og hitabelta heimshafanna berist á milli, því að fá eða engin dýr eða gróður á þeim slóðum þrífast í kaldari sjó, sem þau yrðu þá að ferðast um. Undan klettóttum norðurströndum Norður-Ameríku og suðurströndum Suður-Ameríku vex mikið af stórgerðum þarategundum úr brúnum þörungum (Laminaria). Sumar þessara plantna verða á fjórða tug metra langar. Í skjóli þeirra þrífst fjölbreytt dýralíf, bæði hryggleysingjar og fiskar. Þar sem er uppstreymi kaldsjávar eða láréttir straumar, berst mikið af næringarefnum upp að yfirborði á þessum slóðum. Þar þrífst fjöldi fisktegunda, sem nærist á svifi, s.s. ýmsar tegundir síldar. Einnig má nefna japanskar sardínur og ansjósu fyrir ströndum Perú, sem veiðast í gífurlegu magni líkt og loðnan í Norður-Atlantshafi.

Í Norður-Kyrrahafi skapa straumahringrás og afrennsli frá landi afbragsskilyrði fyrir botnlægar tegundir lífvera, sem mikið er af á þessum slóðum. Lýri og lýsingur í Norður-Kyrrahafi eru áberandi tegundir sem og fimm tegundir lax (Oncorhynchus). Aðeins ein tegund finnst í Atlantshafi (Salmon salar).

Í hlýjum sjónum í hitabeltinu, milli straumakerfanna sunnan og norðan miðbaugs er geysifjölbreytt lífríki, einkum í Vestur-Kyrrahafi (Indlandshafi), þar sem hlýtt monsúnloftslag og margvíslegar landmyndanir hafa valdið sérstöku þróunarferli. Þar er einnig að finna fjölbreytilegustu kóralrif heims, sem laða til sín sexfaldan fjölda fisktegunda miðað við Karíbahafið. Skeljategundirnar í Indlandshafi eru ekki undanskildar tegundaauðginni, m.a. risaskeljar (Tridacna gigas), sem eru einstakt fyrirbæri. Þarna eru líka sex tegundir af túnfiski (ein finnst ekki annars staðar) og rúmlega helmingur túnfisksafla heimsins fæst úr Indlandshafi.

Hvalir eru áberandi og sérstakur hluti lífríkis Kyrrahafsins. Margar hvalategundir eru bundnar árstíðabundnu ferli. Sumar synda langar leiðir til að komast í kaldari sjó á sumrin til að afla sér fæðu en ala afkvæmi sín í hlýjum sjó á veturna.

Fiskveiðar. Vegna fljöbreytni lífríkisins í mörgum hlutum Kyrrahafsins og hins mikla mannfjölda, sem býr í löndunum í kringum það og á eyjum þess, er meira dregið úr sjó en í öðrum heimshöfum, u.þ.b. 60% heimsaflans. Japanar og Rússar eru mestu fiskveiðiþjóðirnar í heimi miðað við afla en Kína, BNA, Perú, Síle, Suður-Kórea og Indónesía eru líka stórfiskveiðiþjóðir. Fiskiðnaðurinn í öllum þessum löndum er umsvifamikill og byggist a.m.k. að hluta eða að mestu á fiskveiðum í Kyrrahafi. Meðal veigamestu fisktegundanna, sem aflinn byggist á, eru sardínur, síld, ansjóvía, lýri (Kyrrahafsufsi), lýsingur og rækjur. Stofnar þessara tegunda eru víða ofnýttir.

Laxveiðar í sjó eru mikilvæg atvinnugrein í BNA, Japan, Rússlandi og Kanada en túnfiskveiðar eru mikilvægar fyrir ýmsar eyþjóðir. Bandaríkjamenn, Japanar, Suður-Kóreumenn og Tævanar eru tæknivæddastir. Margir túnfiskstofnar eru innan 200 mílna lögsögu ýmissa eyja í Kyrrahafinu, þannig að íbúar þeirra selja erlendum fiskiskipum kvóta og annast vinnslu aflans.

Íbúafjölgun og þróun efnahagsmála og iðnaðar í mörgum strandríkjum við Kyrrahaf hefur valdið ofveiði og eyðileggingar fiskimiða vegna mengunar. Ræktun ýmissa tegunda, s.s. perluskelja, lax, hafbríma, (mullet) o.fl. hefur tekizt vel og bætir upp minnkandi afla þessara tegunda í sjó.

Á hitabeltissvæðum Kyrrahafsins hafa verðmætir kórallar löngum verið dregnir upp af miklu dýpi. Bleikar tegundir koma aðallega frá vesturhluta Hawaii-eyjaklasans og svartir frá vestlægari eyjum, háum eldfjöllum á sjávarbotni og hafsvæðum kringum Malasíu og Indónesíu.

Jarðefni eru unnin úr sjó, af sjávarbotni (möl, sandur) eða á landgrunninu (málmar, málmleysingjar, olía, gas). Miklar birgðir verðmætra málma eru á og í hafsbotninum víða í Kyrrahafi. Mikið er víða unnið af ferskvatni úr sjó (Japan).

Málmar unnir úr sjó og árseti. Salt (sodium chloride) er mikilvægasta efnið, sem er unnið úr sjó. Þar er Mexíkó fremst í flokki Kyrrahafsþjóða og vinnslan byggist aðallega á uppgufunaraðferðinni. Bróm er einnig unnið úr sjó og notað í matvæli, litunarefni, lyf og ljósmyndaiðnaði. BNA og Japan standa fremst á því sviði. Magnesium er unnið úr sjó með rafgreiningu og er mikið notað til blöndunar við aðra málma (flugvélahreyflar), þó einkum ál. Sandi og möl er dælt upp af grunnsævi (Japan, Alaska, Hawaii o.fl.). Víða liggja þykk setlög af fosfati undan ströndum Perú, Austur-Ástralíu, Kaliforníu og á Chatham-hryggnum austan Nýja-Sjálands. Minni setlög finnast einnig í lónum nokkurra Kyrrahafseyja.

Djúpsjávarmálmar. Í setlögum á djúpsævi eru víða málmsúlföt í formi hnyðlinga og setlaga, sem eru efnahagslega áhugaverð. Á áttunda og níunda áratugi 20. aldar stóðu vonir til að vinnsla hnyðlinga, sem innihalda manganese, járn, kopar, nickel, titanium og kóbalt, gæti hafizt til hagsbóta fyrir þróunarlöndin. Þróun útbúnaðar til að sækja þessi efni af sjávarbotni var mjög dýr og fljótlega var þessari hugmynd skotið á frest. Súlfatæðar á sjávarbotni með járni, kopar, kóbalti og sínki auk minnan magns annarra málma finnast í umhverfi neðansjávarhvera (Galapagos á Juan de Fuca- og Gorda-hryggjunum.

Kolefni í sjávarbotninum. Olíu- og gasbirgðir í sjávarbotninum eru verðmætustu efnin fyrir efnahag heimsins eins og hann er nú. Álitið er, að talsverðar birgðir séu undir grunnsævum Suður- og Austur-Kínahafs. Löndin, sem liggja að Kyrrahafi og úthöfum þess, leggja mjög mismunandi áherzlu á nýtingu náttúruauðlinda af ofangreindu tagi. Helztu svæðin, sem hafa verið og verða könnuð með tilliti til olíu og gas, eru undan ströndum Víetnams, Hai-naneyjar (Kína), á landgrunninu norðvestan Palawaneyjar í Filipseyjaklasanum, undan Natunaeyju og á nokkrum stöðum undan ströndum Súmötru (Indónesía). Í Norðvestur-Kyrrahafi eru aðalsvæðin norðvestan Kyushu-eyjar (Japan), suðurhluti Gulahafs og í Po Hai-flóa (Chihli-flóa) auk svæða undan Sakhalin-eyju og Kamchatka-skaga. Borað hefur verið eftir olíu og gasi í Beringsundi og á svæðum undan suðurströnd Kaliforníu. Í Suður-Kyrrahafi er Gippslandlægðin undan suðurströnd Ástralíu talin vænleg. Einnig er Cook-sundið við Nýja-Sjáland og botn Tasmanhafs og undan Suðureyju. Undan ströndum Fijieyja er talið að olía og gas leynist líka.

NORÐURSJÓR

Norðursjór er hluti af Atlantshafinu milli austurstrandar Bretlandseyja og meginlands Evrópu. Dóversund og Ermasund myndar suðurtengslin við Atlantshafið. Breiðastur er Norðursjór 645 km og lengstur 965 km. Flatarmál hans er í kringum 575.000 km2. Fjöldi vatnsfalla, stórra og smárra, falla til hans (Elba, Veses, Ems, Rín, Mas og Schelde frá meginlandinu og Thames og Humber frá Bretlandseyjum). Norðursjór er dýpstur fyrir ströndum Noregs. Dogger Bank, miðsuðurhlutinn, er grynnstur. Sjávarföll í Norðursjó eru mjög óregluleg vegna þess að hásævið kemur úr tveimur áttum, að norðan og sunnan.

Regns og þoku gætir allt árið og norðvestanfárviðri geisa oft og gera siglingar hættulegar, einkum með ströndum Jótlands. Fiskveiðar á Norðursjó eru lífsviðurværi fjölda fólks í löndunum, sem liggja að honum. Allt frá síðari hluta áttunda áratugar tuttugustu aldar hefur olíu verið dælt upp um borholur á sjávarbotni. Skip sigla um skipaskurð milli Norðursjávar og Eystrasalts í stað þess að fara krókinn norður fyrir Jótland.

MIÐJARÐARHAF

Miðjarðarhaf er innhaf, sem tilheyrir Evrópu, Asíu og Afríku. Það gengist Atlantshafi um Gíbraltarsund í vestri. Rómverjar þekktu það undir nafninu Mare Nostrum (Hafið okkar) og það er næstum alveg landlukt. Það er gríðarlega mikilvæg samgönguleið fyrir fyrrum Sovétlýðveldin við Svartahaf, sem hafa aðgang að því um Bosporus, Marmarahafið og Dardanellsundið. Það er líka mikilvægt fyrir Evrópu og Ameríku, sem eiga aðgang að olíunni í Lýbíu og Alsír og á Persaflóasvæðinu um það og Súesskurðinn auk olíuleiðslnanna.

Flatarmál Miðjarðarhafsins er í kringum 2,5 milljónir ferkílómetra. Lengd þess frá vestri til austurs er 3860 km og hámarksbreidd þess 1600 km. Það er að mestu grunnt, meðaldýpið er 1500 m en hámarksdýpi er 5150m fyrir suðurströnd Grikklands.

Það er leifar risastórs, forns hafsvæðis, sem var kallað Tethys. Það lokaðist næstum í geysilegum jarðskorpuhreyfingum óligósentímans fyrir 30 milljónum ára, þegar flekar Afríku og Evrasíu rákust saman. Flekarnir nuddast enn þá saman og valda eldgosum í Etnu, Vesúvíusi og Stromboli og tíðum jarðskjálftum, sem valda miklu tjóni á Ítalíu, í Grikklandi og Tyrklandi.

Neðansjávarhryggur milli Túnis og Sikileyjar skiptir því í austur- og vesturhluta. Annar hryggur frá Spáni til Marokkó liggur um Gíbraltarsund. Það er aðeins 300 m djúpt og dregur verulega úr áhrifum flóðs og fjöru eins og gerist í Atlantshafi. Uppgufun úr Miðjarðarhafinu er mikil og hún veldur því, að það er mun saltara en Atlantshafið.

Malta og Sikiley réðu siglingaleiðunum um Sikileyjarsund og Messínasund. Aðrar stórar eyjar eru Baleareyjar (Sp), Korsíka (F), Sardinía (I), Kýpur (G+T), jónísku eyjarnar Cyclades og Dodecanese og Eyjahafseyjarnar (G). Flóar og firðir Miðjarðarhafsins eru m.a. Tyrrheníahaf (vestan Ítalíu), Adríahaf (milli Ítalíu og Balkanskagans) og Eyja- og Jóníska hafið (undan ströndum Grikklands). Barcelona (Sp), Marseille (F), Genóa, Trieste (I), Alexandría (E) og Haifa (Is) eru mikilvægar hafnarborgir við Miðjarðarhafið. Helztu árnar, sem falla til þess eru Ebró (Sp), Rón (F), Pó (I) og Níl (E).

RAUÐAHAFIÐ

Bahr el-Ahmar (rómv. Sinus Arabicus, mare Erythraeum, Mare Rubrum) er 460 þús. km², 2.240 km langt og allt að 355 km breitt. Meðaldýpi er 490 m en mest 2.604 m. Rauðahafið er angi úr Indlandshafi á milli Arabíuskaga og Na-Afríku og myndar skilin á milli heimsálfanna. Sínaískagi klýfur það í tvennt og myndar tvo stóra flóa, Akabaflóa og Súezflóa, sem tengist Miðjarðarhafi um Súezskurð (frá 1869). Fauðahafið liggur í mikilli sigdæld frá tertíer. Framhald hennar til norðurs er Jórdandalurinn en til suðurs um sigdældir Austur-Afríku. Á öllu þessu svæði má finna merki um eldvirkni. Báðum megin sigdældarinnar rísa miklir fjallgarðar, sem teygja sig upp í 2000 m hæð. Með ströndum fram eru risavaxin kóralrif, sem skipaumferð stafar hætta af.

Nafnið Rauðahaf er sagt dregið af einhverju eftirfarandi atriða: Rauðleitum fjöllum umhverfis það, rauðum blæ þörungagróðurs í hafinu eða fornsögulegu nafni Norðaustur-Afríku, „Land hinna rauðu”.

Í fornöld var norðurhluti Rauðahafs veigamikil miðstöð verzlunar og viðskipta við Asíu. Á miðöldum vegna viðskipta milli Asíu og Feneyja, Písa, Genúa o.fl. borga í Evrópu. Við opnun Súezskurðarins árið 1869 óx vegur Rauðahafsins á ný. Þrátt fyrir miklar samgöngur á Rauðahafi, var erfitt um vik með búsetu á ströndum þess vegna vatnsskorts. Aðalbaðstaðir eru Hurghada og Ain el-Suchna, þar sem eru brennisteinshverir.

NB!
Vegna fjölda hákarla og annarra hættulegra ránfiska ætti enginn að synda út fyrir kóralrifin!

Saltmagn Rauðahafsins er mikið vegna lítils aðstreymis fersks vatns (4,2% í Súezflóa og 3,65% við Perimeyju). Saltmagn eykst verulega með dýpi. Árið 1964 uppgötvaði þýzkt rannsóknarskip, Meteor, þá statt á 21°30’N og 6°A, saltinnihald allt að 33% á yfir 2000 m dýpi við 60°C. Svæðið mældist 5-10 km langt og 100 m þykkt. Straumar liggja norður með Arabíuskaga og suður með ströndum Afríku, mest fyrir áhrif monsúnvinda. lagskiptir gagnstraumar bera saltríkan djúpsjó til Indlandshafs. meðalmunur flóðs og fjöru er 0,6 m en mestur 2,10 m.

Rauðahafið er hlýjast allra hafa. Yfirborðshitinn nær 35°C en er að meðaltali 21,5°C. Liturinn er dökk- og grænblár. Stundum valda þörungar og jarðefni öðrum blæ. Loftslagið við Rauðahaf er heitt og þurrt. úrkoma er fátíð og óregluleg en uppgufun veldur háu rakastigi. Lofthiti á sumrin fer yfir 40°C í skugga en norðlægir vindar draga úr honum á veturna. Við suðurhluta Rauðahafs blása monsúnvindar úr suðri á sumrin en norðri á veturna og svala verulega.

SVARTAHAF

Svartahaf er innhaf milli suðausturhluta Evrópu og Litlu-Asíu. Það tengis Miðjarðarhafi (Eyjahafi) um Bosporussund, Marmarahaf og Dardanellsund. Rúmenía, Búlgaría og evrópski hluti Tyrklands eru vestan þess. Úkraína, Rússland og Georgía eru norðan þess og austan og allur suðurhluti þess liggur að Tyrklandi.

Svartahafið er í kringum 1200 km langt frá austri til vesturs og mest 610 km breitt. Heildarflatarmál þess er u.þ.b. 436.400 km² (Azov-haf ekki talið með). Krímskagi teygist út í Svartahaf norðanvert og myndar hið grunna Azov-haf að austanverðu og Karkinitskiy-flóa að vestanverðu. Azov-hafið er næstum aðskilið Svartahafi. Mestur hluti afrennslis Mið- og Austur-Evrópu rennur til Svartahafs um árnar Dnepr, Dnestr, Suður-Bug og Dóná. Einnig rennur talsvert vatn til þess um árnar Don (í Azov-haf) og fjölda smærri vatnsfalla. Frá norðanverðri Litlu-Asíu renna árnar Coruh, Yesil Irmak, Kizil Irmak og Sakarya. Botn Svartahafs liggur u.þ.b. 1830 m neðan yfirborðsins og mesta dýpi er 2135m. Oft er stormasamt á Svartahafi, einkum á veturna. Norðanvindar eru ríkjandi á þessu hafsvæði.

Svartahafið er auðugt af styrju og öðrum fisktegundum. Það er mikilvæg samgönguleið fyrir öll löndin í kringum það fyrir alls konar flutninga. Helztu hafnirnar eru Odessa, Kherson og Sevastopól í Úkraínu, P’ot’I og Bat’umi í Georgíu, Novorossiysk í Rússlandi, Constanta í Rúmeníu, Burgas og Varna í Búlgaríu og Samsun, Sinop og Trabzon í Tyrklandi.

Siglingar á Svartahafi hófust snemma. Forn-Grikkjum og Rómverjum var tíðförult um það í erindum verzlunar og hernaðar og síðar Býzantínumenn. Í þrjár aldir eftir 1453, þegar Ottómanar náðu Konstantínópel, höfuðborg og síðasta vígi Býzantínumanna, var Svartahaf næstum lokað erlendum viðskiptum. Rússaveldi fór að ógna yfirráðum Tyrkja við Svartahaf á 18. öld. Samkvæmt samningunum, sem voru gerðir í París eftir Krímstríðið, opnaðist Svartahaf fyrir verzlun allra þjóða og var gert að hlutlausu svæði. Árið 1870 hafnaði Alexander II, Rússakeisari, hlutleysisákvæði samningsins og kom upp flota herskipa við Svartahafið. Rástefna Evrópuríkja, sem var haldin, samþykkti þessar aðgerðir en staðfesti jafnframt rétt Tyrkjasoldáns til að loka Dardanell- og Bosporussundunum fyrir herskipum. Eftir ósigur Tyrkja í rússnesk-tyrkneska stríðinu 1877-78 fengu Rússar aukinn viðskiptaréttindi á Svartahafi. Í fyrri heimsstyrjöldinni barðist rússneski flotinn við Tyrki

KARÍBASVÆÐIÐ

Móttaka ferðamanna, sem hefur orðið æ mikilvægari á eyjum Karíbahafsins, einkum hinum minni, hefur breytt lífi og siðum íbúanna vegna aukins mikilvægis ferðaþjónustunnar fyrir efnahag þeirra. Helzta aðdráttarafl þeirra eru andstæður sjávar og lands, hitabeltisnáttúran og litskrúðugt og fjölbreytt mannlíf.

Gestirnir, sem sjá grózkumikinn hitabeltisgróður, pálmum prýddar sandstrendur, tæran og hlýjan sjóinn og stór kóralrif, verða fyrir rómantískum hughrifum. Menning eyjaskeggja, sem vaxin er upp úr aldalangri nýlendukúgun, á líka sinn þátt í þeirri tilfinningu. Hafa verður í huga, að Vestur-Indíur eru alls ekki eins. Stjórnmálaástand er mjög mismunandi og stundum flókið og einnig viðskiptahættir, þannig að félagslegar aðstæður og menning íbúanna er breytileg milli ríkja og eyja.

Bermúdaeyjar tilheyra ekki eyjunum í Karíbahafi. Þær hétu áður Somerseyjar og liggja í Vestur-Atlantshafi (u.þ.b. 150 litlar eyjar). Spánverjinn Bermúdez fann þær og Bretar settust þar að snemma á 17. öld. Þær urðu brezk nýlenda árið 1684 með stjórnarsetri í Hamilton.

Karíbaeyjarnar eru náttúruleg mörk á milli Ameríska Miðjarðarhafsins eins og Karíbahaf er oft nefnt og Atlantshafsins. Þær eru umluktar hlýjum sjó allt árið. Hitastig yfirborðssjávarins er 24°- 29° eftir árstíðum. Hafstraumar frá miðbaug liggja inn í Karíbahafið sunnanvert. Yfir vetrarmánuðina, þegar þurrast er, nær straumhraðinn 2-3 km hraða. Þessi yfirborðsstraumur liggur um sundið milli Yukatanskagans og Kúbu og austur úr Karíbahafi út í Atlantshafið á nýjan leik (3,7 km). Á tímum seglskipanna nýttu sæfarendur sér þessa strauma, þannig að skip, sem komu frá Evrópu, sigldu inn í Karíbahaf á milli Vindeyja syðri og út úr því á Flórídasundi. Nútímasæfarar verða að taka full tillit til þessara strauma, þar sem mikið er um sportsiglingar. Einnig verður að hafa fulla gát á sjóræningjum, sem gera talsverðan usla á þessum slóðum. Munur á flóði og fjöru er mjög lítill, 0,2 – 0,4 m.

Landgrunn er talsvert, s.s. í grennd við Bahamaeyjar (20m), Kúbu og Trinidad. Þar var þurrlendi áður en sjávarstöðubreytingar urðu í kjölfar ísaldarloka. Annars staðar er um mikil hafdýpi að ræða, 4000 – 5000 m, eins og Caymanálinn, sem nær frá Hondurasflóa að Windwardssundi milli Kúbu og Hispaniola (7250m). Mesta dýpi er utan Antileyja í Puerto Ricoálnum, 9540m. Jarðskorpan er þynnst, þar sem dýpi er mest, og þar verða oft jarðskjálftar.

Golfstraumurinn veldur mestu dreifingu kóraldýra í Atlantahafinu eins og bezt kemur í ljós á Bermúdaeyjum. Mengun sjávar af völdum hótela, iðnaðar og borpalla veldur í auknum mæli dauða þessara dýra og dregur verulega úr uppbyggingu kóralrifja, sem minnka smám saman og draga þannig úr vernd eyjanna gegn brimi og lífríki sjávar raskast og verður fátæklegra.

Stórar og smáar kalksandstrendur er að finna á flestum Karíbaeyjum. Grunnsævið undan þeim hitnar verulega meira en yfirborðið utar. Þar sem kalkklettar standa í sjó fram veðrast landið og afurðirnar berast inn á grunnsævið, þannig að strendurnar stækka að meðaltali.

KARÍBASVÆÐIÐ

ANGUILLA
ANTIGUA og BARBUDA
ARUBA
BAHAMAEYJAR
BARBADOS
BERMÚDAEYJAR
BONAIRE
CARTAGENA
CANCÚN
CAYMANEYJAR
COZUMEL
CURAÇAO
DOMINICA
DÓMINÍSKA LÝÐVELDIÐ
GRENADA
GUADELOUPE
HAITI
ISLA MUJERES
ISLA CONTOY
JAMAICA
JÓMFRÚAREYJAR
KÚBA
MARTINIQUE
MONTSERRAT
NAVASSAEYJA
PETEREYJA
PUERTO RICO
ROATÁN
SABA
SAN ANDRÉS-
Y PROVIDENCIA
SAN BLAS
SINT EUSTATIUS
SAINT KITTS og NEVIS
ST. LUCIA
ST. MARTIN
ST. VINCENT
& GRENADINEEYJAR
TRINIDAD & TOBAGO
TURKS- & CAICOSEYJAR

 

Myndasafn

Í grennd

Allt Ísland í stafrófsröð
Flestar síður sem fjalla um Ísland úr Ferðavísi is.nat.is Ábæjarkirkja Skagafirði Aðalból. Jökuldal Aðaldalur Aðalmannsvatn Aðalvík á H…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )