Þessi fagra gönguleið hálendiskyrrðar liggur í skjóli jökla og hárra fjalla með gróðurflesjum.
Grænar línur sýna gönguleiðir
Fyrstu áfanginn, 6-7 km, liggur á milli Hólaskjóls og Álftavatna. Gengið er upp með Syðri-Ófæru hjá svonefndum Silfurfossi eða Litla-Gullfossi. Þaðan liggur leiðin um gljúfur að gangnamannaskálanum við Álftavötn, sem Útivist lét endurbyggja. Þaðan er hægt að njóta hins fagra umhverfis í kvöldgöngu.
Annar áfanginn, 20 km, liggur first meðfram Syðri-Ófæru hjá stórri steinbrú við Þorsteinsgil og þar blasir dalverpið Álftavatnskrókur við. Þaðan er haldið að mynni Ófærudals, þar sem fossar steypast niður í Krókinn. Eldgjá liggur þvert á gönguleiðina við dalsendann og þar er sveigt til vesturs meðfram hömrum girtum Svartahnjúksfjöllum norðanverðum í Hólmsárbotna og að Strútslaug. Laugaháls og Torfajökull gnæfa þar yfir í norðvesturátt, Svartahnjúksfjöll í austri og Strútur í suðri. Eftir bað í Strútslaug er haldið áfram yfir Skófluklif eða um Krókagil og síðan skamman spöl að Strútsskála.
Þriðji áfanginn, 18 km, liggur vestur yfir Veðurháls. Mýrdalsjökull er á vinstri hönd og leiðin liggur um Mælifellssand hjá Hrútagili og Skiptingaöldu. Þá kemur Slysaalda og Kaldaklofskvísl, sem verður að vaða í lænum. Áfram er haldið gamla götu milli Einstigsfjalls og Sléttafells að Hvanngilshnausum og að skálanum í Hvanngili.
Þarna skiptast leiðir. Annaðhvort er hægt að ganga til Þórsmerkur, suðurhluta hins svonefnda Laugavegar, eða norður til Landmannalauga um norðurhluta þessarar leiðar.
Sannir göngumenn skilja aðeins sporin sín eftir og taka aðeins með sér minningarnar!