Allt frá upphafi vega er hvala getið í heimildum og hvalrekar í hávegum hafðir. Hvalategundir voru líklega fleiri hér við land fyrrum en nú, því að sléttbak og norðhval var fækkað mjög eða útrýmt úr Norður-Atlantshafi með veiðum. Fyrstir til að stunda hvalveiðar voru líkast til baskar. Norðmenn tóku upp þessa iðju frá Íslandi á 19. öld og stunduðu hana fram á fyrstu áratugi hinnar 20., eða þar til afraksturinn varð of lítill. Síðan varð hlé á hvalveiðum við landið, þar til Íslendingar sjálfir hófu þær 1948. Þeim var hætt vegna ógnana hvalafriðunarsinna árið 1989. Íslendingar gengu úr Alþjóða hvalveiðiráðinu 1992 og gerðust aftur aðilar 2002. Stjórnvöld eru beitt stöðugum þrýstingi þeirra, sem krefjast áframhalds hvalveiða, og umræðan snýst nú um endurinngöngu í Alþjóðlega hvalveiðiráðið. Árið 2001 tóku stjórnvöld þá ákvörðun, að sækja aftur um aðild að ráðinu.
Hér má lesa nánar um hvali í greininni „LÍTIÐ EITT UM HVALI“ (eftir Árna Waag; Mbl. 7/7 1985. Birt með hans leyfi).
Fram að árinu 1979 voru hvalir yfirleitt ákaflega lítið í hugum flestra Íslendinga. Alla vega hafa hvalirnir verið sveipaðir leyndardómsfullum blæ frá alda öðli og átt mikinn þátt í ýmiss konar kynjasögum og bábiljum um þessi dýr, einkum hin stærri. Jón lærði segir í hinni frægu bók sinni „Um Íslands aðskiljanlegu náttúru“ frá illhvelum eða „vondum fiskum“, eins og hvalir voru kallaðir á fyrri tímum. Illhvelin áttu að vera „síþyrst í manndráp og skipsskaða“. Átti þetta við um tegundir, sem eru hinar mestu friðsemdarskepnur. Til þess að vega upp á móti „vondum fiskum“ gerðu menn steypireyðina og fleiri reyðarhvali að „góðum fiskum“ senda af skaparanum til að halda hinum í skefjum. Þeir voru látnir gera meira. Þeir ráku síldina og jafnvel þorskinn að landi og inn í firði, svo að mennirnir gætu náð í hann, þegar hann vildi ekki koma af eigin hvötum. Ekki er unnt að fullyrða um sannmæli þessa, en úti við strendur NV-Afríku hefur frá fornu fari tekizt samvinna á milli fiskimanna og höfrunga, þar sem þeir síðarnefndu reka fisktorfur að landi þeim fyrrnefndu til mikilla hagsbóta. Það hefur sem sé verið mikil hula yfir þessum hópi spendýra á liðnum tímum og gætir þessa jafnvel enn þá. Talið er fullvíst, að hvalir séu komnir af ferfættum landspendýrum.
Lesa alla greinin? Hér er hún með öllum sínum fróðleik.
Til fyllri upplýsinga skal bent á grein Árna Einarssonar, líffræðings, í 7. riti Landverndar um hvali hér við land. Þá skal bent á greinar Jóhanns Sigurjónssonar um rannsóknir hans, sem birzt hafa í tímaritinu Ægi og ritum Hafrannsóknarstofnunar.
Höfundurinn lézt 2001. Hann var forstöðumaður Náttúrufræðistofu Kópavogs og leiðsögumaður.
Hvalaskoðunarferðir eru stundaðar víðsvegar umhverfis landið.
Á Norðurlandi er Húsvík efst á blaði.
Eyjafjörður
Á Suðvesturlandi: Reykjavík,
Á Ströndum: Drangsnes
Snæfelsnesi: Ólafsvík