Grindhvalur (LONG FINNED PILOT WHALE) (Globicephala melas)
Karldýrin eru u.þ.b. 6-8 m löng og vega 4-5 tonn. Kvendýrin eru 4-6 m og 2-3 tonn. Ennið er bratt og og litur svartur nema ljósa beltið á kviðnum. Bægslin eru mjó og löng og tannapör í hvorum skolti eru 8-13. Lífslíkur eru líklega 30-60 ár.
Grindhvalir halda sig í Norður-Atlantshafi og Suðurhöfum. Norður-Atlantshafstegundin er undirtegund (G. m. melaena), sem eyðir vetrinum sunnan 55°N en flakkar norður á sumrin og er algeng við Grænland og Ísland og í Barentshafi. Þeir lifa bæði í úthafinu og á grunnsævi og eru mjög félagslyndir. Þeir synda oft 20 saman í fæðuleit og miklu fleiri í öðrum tilgangi.
Grindhvalir eru fjölkvænisdýr. Kvendýrin verða kynþroska 6 ára en karldýr 12 ára. Mökun fer fram í apríl-maí, meðgangan er 16 mánuðir og kálfurinn er á spena í 21-22 mánuði. Kálfurinn er u.þ.b. 2 m langur og 70-80 kg við fæðingu. Kýrnar bera þriðja hvert ár. Köfunartíminn er venjulega 4 mínútur og mesta köfunardýpi er álitið 350 m. Þeir sofa í svo þéttum hnapp, að bægslin snertast.
Aðalfæðan er smokkfiskur, en líka fiskur, þegar lítið er um smokkfisk. Hérlendis er grindhvalurinn algengastur við norðvestur- og vesturstrendurnar. Ekki er vitað um heildarfjölda grindhvala í heiminum er áætlað er að fjöldi þeirra við Ísland sé 100.000 – 200.000.