Steypireyður eða BLUE WHALE (Balaenoptera musculus)
Hér við land verður steypireyðurin u.þ.b. 22-25 m löng. Kvendýrin eru stærri en karldýrin. Fullorðnir tarfar vega 100-160 tonn og kýrnar 110-190 tonn. Lífslíkur þessarar tegundar eru u.þ.b. 100 ár. Steypireyðar eru dökk- eða blágráar og örlítið ljósdeplóttar á síðum. Skíðin eru dökk. Raufin er framar en bakugginn. Bægslin eru svört eða svört og hvít að ofan en hvít að neðan.
Steypireyðurin er fremur sjaldgæf eftir ofveiði Norðmanna og Íslendinga. Hún fer mikið einförum, þótt oft sjáist nokkur dýr saman. Hún er úthafshvalur, sem heldur sig frá 40°-50°N þar til hún leitar til ísbrúnarinnar í norðurátt í vetrarlok.
Steypireyðurin makar sig í maí til september, meðgöngutíminn er 10½ mánuður og hún ber annað hvert ár. Venjulega fæðist kálfurnn 6-7 m langur, 2½ tonn að þyngd og tvöfaldar lengd sína rúmlega áður en hann fer af spena eftir 7-8 mánuði. Þá vegur hann u.þ.b. 25 tonn.
Steypireyðurin étur býsn af ljósátu við Íslandsstrendur auk nokkurs magns af smokkfiski og kolkrabba. Hún eltir og étur líka uppsjávarfiska. Hún er fremur hægsynd, syndir hraðast u.þ.b. 14 km á klst. og kafar í allt að 15 mínútur, þegar hún fer niður á 50-100 m dýpi.
Fyrstu dýrin af þessari tegund koma oftast upp að austur- og vesturlandinu í apríl en aðalvöðurnar í lok maí og júníbyrjun. Gizkað er á, að Íslandsstofninn sé 1000 dýr. Áætlaður fjöldi í öllum heimshöfunum er 6.000-14.000 dýr. Steypireyðurin var alfriðuð í íslenzkri landhelgi árið 1960 og virðist fara hægt fjölgandi.
Steypireyðavaða hefur glatt hvalaskoðara úti af Breiðafirði.