Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Andarnefja

andarnefja

Andarnefja (NORTHERN BOTTLENOSE WHALE) (Hyperoodon ampullatus)

Stærð fullvaxinna karldýra í hafinu umhverfis landið er að meðaltali 8,4 m og 7½-8½ tonn og kvendýra  andarnefja 6-7 tonn. Lífslíkur eru 40-60 ár. Trýnið er mjótt og ennið hátt og hvelft. Í því er mjög feitt lýsi, líkt og í búrhvalnum, sem notað var m.a. í hægðatregðulyf og húðkrem. Tvær 2-4 sm langar tennur eru fremst í neðra skolti. Sporðurinn er ekki klofinn og liturinn er dökkgrár, en neðra borðið nokkru ljósara.

Andarnefjur halda sig á djúpu útsævi á milli sökkla meginlandanna. Á veturna eru þær á svæðinu milli New York og Miðjarðarhafs og allt suður að Cape Verde-eyjum. Þær flytja sig norður í Íshaf síðla vetrar og eru all umhverfis landið, þó mest milli þess og Jan Mayen. Stundum elta þær smokkfiskinn upp á grunnsævi. Hér við land eru karldýr fleiri en kvendýr, en við Jan Mayen er nokkuð jafnt á komið með kynjunum.

Karldýr verða kynþroska við 9-11 ára aldur og mökun fer oftast fram í apríl, þótt stundum teigist úr fram í júní. Meðgangan er eitt ár og kálfurinn fæðist 3 m langur. Getnaður verður líklega annað hvert ár meðal kúnna. Aðalfæðan er smokkfiskur (Conatus Fabricii og Ommatostrephes todarus). Andarnefjur eru almennt mjög félagslyndar, þótt fullorðnir tarfar fari einförum. Þeir kafa oft mjög djúpt, allt að 1000 m, og geta verið lengi í kafi. Skutluð andarnefja var u.þ.b. tvær klukkustundir í kafi, svo vitað sé. Að þessu leyti líkist andarnefjan búrhvalnum.

Andarnefjan er spök og forvitin og nálgast oft skip og báta. Þessi náttúra gerði hana auðveidda og það notfærðu Norðmenn sér við Ísland. Hún sýnir mikið trygglyndi og yfirgefur ekki særða félaga fyrr en þeir eru dauðir. Fjöldi einstaklinga þessarar tegundar í heiminum er óþekktur, en áætað er, að u.þ.b. 42.000 dýr haldi sig á hafssvæðinu umhverfis landið á sumrin.

Myndasafn

Í grennd

Hvalir
Allt frá upphafi vega er hvala getið í heimildum og hvalrekar í hávegum hafðir. Hvalategundir voru líklega fleiri hér við land fyrrum en nú, því að sl…
Villt spendýr
Ísland státar ekki af mörgum tegundum villtra dýra miðað við mörg önnur lönd og álfur. Landið er og hefur verið einangrað og einkum vettvangur fugla o…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )