Léttir (COMMON DOLPHIN) (Delphinus delphis)
Fullvaxin karldýr eru 1,8-2,6 m löng og vega 80-140 kg. Kvendýrin eru 1,7-2,3 m og vega 70-90 kg. Léttirinn er minnstur höfrungategundanna við landið. Trýnið er langt og mjótt, bakugginn aftursveigður og endar í oddi. Sporður og bægsli eru með minna móti. Í hvorum skolti eru 80-110 tennur. Léttirinn er svartur á baki, gulur eða fölgrænn á framsíðum, ljósgrár aftar og hvítur á kviði. Litaafbrigði léttis eru mörg og margvísleg eftir stofnum víða í heimshöfunum. Lífslíkur eru ókunnar. Léttirinn étur mikið af síld, ansjóvíum, loðnu o.fl. smáfiskategundum auk smokkfisks.
Léttinn er að finna í öllum heimshöfum og rannsóknir í Kyrrahafi gætu gefið til kynna eina milljón dýra þar, sem benda til nokkurra milljóna alls, en engar áreiðanlegar upplýsingar eru til um heildarstofnstærð. Það er heldur ekki vitað um fjölda þessara dýra við Íslandsstrendur. Þeir sjást stundum í risastórum vöðum, mörg þúsund dýr í einu. Þau elta gjarnan skip og stórhveli, s.s. steypireyði, langreyði, hnúfubak o.fl. Venjulegt köfunardýpi er talið vera um 40 m en vitað er um köfun allt niður á 280 m dýpi og þá var dýrið 8 mínútur í kafi.
Ekkert er vitað um farleiðir þessarar tegundar og margir vísindamenn eru ósammála um flokkun hinna mismunandi litaafbrigða. Lítið er vitað um mökun og burð. Í Norður-Kyrrahafi virðist kálfarnar fæðast á vorin, sumrin eða haustin eftir 10-11 mánaða meðgöngu og kálfarnir eru á spena í 14-19 mánuði. Kvendýrin verða kynþroska 6-7 ára og karldýrin 5-12 ára. Þessi tegund höfrunga er ekki vel fallin til tamningar í sædýrasöfnum vegna feimni, þótt hún sýni leikfýsi á hafi úti. Léttir er talinn halda sig meira á djúpsævi en með ströndum fram, þótt hann sjáist oft í nánd við land.