Raufarhöfn er kauptún á austanverðri Melrakkasléttu og hefur verið löggiltur verzlunarstaður frá 1836. Útgerð og fiskvinnsla eru uppistaða atvinnulífsins og á síldarárunum var Raufarhöfn einn helzti löndunar- og síldarvinnslustaður landsins og stærsta útflutningshöfnin fyrir síld. Melrakkaslétta er nyrzt allra staða á Íslandi, nær miðnætursól en nokkur annar staður á landinu. Mikið fuglalíf er á þessum slóðum yfir sumartímann og víða eru góðar aðstæður til fuglaskoðunar, sérstaklega með ströndinni norður af Raufarhöfn. Áætlað er að yfir 20 þúsund norrænir vaðfuglar noti Melrakkasléttu sem viðkomustað á leið til varpstöðva sinna.
Eyða má mörgum dögum á Raufarhöfn og í nágrenni til gönguferða, í veiði og skoðunarferða almennt.
Vegalengdin frá Reykjavík er um 630 km um Hvalfjarðargöng.