Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Heimskautsrefurinn

Tófa Hornströndum

Heimskautsrefurinn eða fjallarefurinn er einn af tuttugu tegundum refa í heiminum og býr nyrzt þeirra  allra. Fá dýr eiga sér eins margar nafngiftir og refurinn á Íslandi. Útbreiðslusvæði hans er nokkurn veginn á milli nyrztu hluta Grænlands og heimskautsbaugs. Hann færði sig norður eftir Evrópu með hopandi ísaldarjöklinum og varð hér eftir, þegar ísbrýr hans rofnuðu, og einnig er líklegt, að refir hafi borizt hingað með rekísnum frá Grænlandi á ísaárum. Þeir eru fylginautar Hvítabjarna langt út á hafísinn eins og Hansaleiðangurinn varð var við á árunum 1869-70, þegar refur fannst miðja vegu milli Íslands og Grænlands.

Melrakkinn hefur styttra skott, háls og eyru en aðrar refategundir og ekkert annað dýr hefur þykkari feld miðað við líkamsstærð. Hárin eru hol og einangra vel og talið er, að refurinn þoli allt að –70°C í logni áður en hann fer að skjálfa sér til hita. Lengd melrakkans er u.þ.b. 90 sm, þar af er skottið 30 sm. Hann er 3-4½ kg á vorin og allt að 6 kg fyrri hluta vetrar. Tófurnar (læður, bleyður, keilur o.s.frv.) eru 20% léttari en steggirnir (refir). Litarafbrigðin eru tvö: Mógráir á sumrin og hvítir á veturna; brúnleitir allt árið. Hvíti liturinn er víkjandi í arfgengi, þannig að tvö hvít dýr geta getið af sér hvítt afkvæmi en ekki eitt hvítt og annað mórautt, þótt mórauð dýr geti eignast hvít afbrigði. Þessi litaafbrigði finnast alls staðar, þar sem refirnir lifa á heimskautasvæðinu.

Fengitíminn er í marz og fyrri hluta apríl og meðgöngutíminn er 7½ vika. Yrðlingarnir eru blindir við fæðingu og augun opnast eftir rúman hálfan mánuð. Gotið, 5-6 yrðlingar að meðaltali, fer fram í greni, annaðhvort í urð eða gröfnu. Dýrin verða kynþroska á fyrsta ári og einkvæni er algengast. Læðurnar sjá um að afla fæðu en steggirnir verja óðulin að mestu einir.

Refir eru á ferðinni 12-14 tíma á sólarhring, þótt lítið fari fyrir þeim yfir hádaginn. Þeir sækja fæðu gjarnan í fjörum á útfallinu og eru mest á ferðinni í ljósaskiptunum. Fæðan fer eftir aðstæðum, ýmislegt sjórekið, hrognkelsi, kræklingur, fuglar, egg, hreindýrahræ, rjúpur, þangflugnapúpur, ber, hagamýs o.fl.

Refaveiðar hafa verið stundaðar á Íslandi frá upphafi landnáms og refaskinn notuð sem verzlunarvara. Allt frá upphafi var litið á refinn sem ógagnsemisdýr, sem þyrfti að halda í skefjum. Um tíma var bændum gert skylt að stunda grenjaleit á jörðum sínum og afréttum á eigin kostnað, þótt veiðimönnum væri greitt fyrir veiðina.

Meðal veiðiaðferða í upphafi voru reykbræling og grjótgildrur, dýrabogar komu síðar og byssur komu um aldamótin 1700 og voru orðnar aðalvopnið í lok 18. aldar. Um miðja 18. öld var farið að eitra fyrir refi með strykníni, sem var gjarnan sett í kjöt ásamt muldu gleri til að særa meltingarveg þeirra, svo að eitrið bærist sem fyrst í blóðið. Tallsvert er um, að hundar drepi refi, þótt þeir séu ekki sérstaklega þjálfaðir til þess. Eitrið olli skaða meðal annarra dýrategunda, þannig að notkun þess var hætt, m.a. vegna útrýmingarhættu íslenzka arnarstofnsins.

Fyrrum lentu bændur oft í heyleysi á veturna og treystu á vetrabeit. Sauðféð var því mun kraftminna vegna fæðuskorts og ærnar voru oft ófærar um að verja lömb sín eftir burð. Þvi urðu þau refum og hundum auðveld bráð. Skæðir dýrbítar gátu líka ráðið niðurlögum fullorðins fjár, einkum þess veikburða og oft komst féð hvorki lönd né strönd í stórhríðum á veturna og var auðveld bráð. Sauðfé fjölgaði geysilega á 20. öldinni og skaði af völdum refa síminnkaði á sama tíma. Refum fór þó ekki að fækka fyrr en eftir 1957. Vafalaust má rekja þessa þróun til sífellt betri meðferð fjárins, aflagningu fráfærna, minnkandi vetrarbeitar og bólusetningu gegn sjúkdómum. Ær voru í auknum mæli látnar bera heima við bæi og fylgzt vel með líðan þeirra.

Myndasafn

Í grennd

Melrakkaslétta
Skaginn milli Öxarfjarðar og þistilfjarðar er ónefndur en oftast er talað um að fara fyrir Sléttu, þegar   ekið  með ströndum fram á þessum norðaustas…
Súðavík
Súðavíkurhreppur er nokkurs konar smækkuð mynd Vestfjarða, þar sem hver fjörður og nes hefur sitt séryfirbragð og náttúrunnendur geta valið úr fjölmör…
Villt spendýr
Ísland státar ekki af mörgum tegundum villtra dýra miðað við mörg önnur lönd og álfur. Landið er og hefur verið einangrað og einkum vettvangur fugla o…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )