Öxney er önnur stærsta eyjan undan Skógarströnd og henni fylgja nálægt hundrað eyar, hólmar og sker.
Svo skammt er á milli Öxneyjar og Brokeyjar í mynni Hvammsfjarðar, að þar má kalla á milli. Brokeyjarmegin heitir Helganef og Gíslapallur Öxneyjarmegin, þar sem smalarnir stóðu og rifust heiftúðlega þar til þeir drápu hvorn annan, þegar þeir hittust loks. Allt að tveggja tíma róður var milli Öxneyjar og fjærstu úteyja og um hættuleg straumasund að fara væri ekki vel gætt að sjávarföllum. Eyjar er allhrjóstrug með háum og klettaborgum. Þar eru víða góðar lendingar í aðdjúpum víkum. Lendingarnar ollu því vafalaust, að eyjan kom snemma við sögu.
Eiríkur rauði hrökklaðist þangað frá Haukadal eftir að hafa verið einn vetur í Suðurey og reisti þar bæ og bjó þar, unz hann var gerður sekur á Þórsnesþingi. Þá bjó hann skip sitt í Eiríksvogi, sem er norðvestan á miðri eyjunni, og sigldi síðan í leit að Grænlandi. Þar var auðvelt að leyna heilu skipi fyrir þeim, sem fóru framhjá. Eiríksstaðir eða Eiríksbær er uppi af vognum, þar sem eyjan er einna hæst og þar eru talsverð merki um mannabústaði. Þar var að vísu ekki gott að leynast, en hentugt fyrir þá, sem þurftu að vera á varðbergi og hafa góða yfirsýn.
Laxdæla segir frá skilnaði Geirmundar gnýs, Austmanns, við Þurðiði, dóttur Ólafs pá og Þorgerðar Egilsdóttur í Hjarðarholti. Þar segir frá siglingu Geirmundar út Hvammsfjörð, er hann vildi brott og varð að hafa tveggja vikna dvöl í Öxney vegna ládeyðu. Á meðan á henni stóð lét Þuríður húskarla flytja sig að næturþeli með dóttur þeirra til skips fyrrum eiginmanns og skildi dóttur sína eftir í örmum hans sofandi. Hann vaknaði nógu snemma til þess að hrópa á eftir henni áhrínisorð, sem urðu Kjartani bróður henni að bana (Laxdæla 30. kafli).
Bærinn var sunnantil á eyjunni við Vesturvog eða Stofuvog og íbúðarhúsið, sem stendur á Stofuhól 1883, stendur enn þá. Suðaustan vogsins er Akranes, sem bendir til akuryrkju fyrrum, en akurnöfnin eru algeng í Breiðafjarðareyjum eins og víða annars staðar á landinu frá fyrri tímum. Sundið milli Akraness og Seljalands vestan Brokeyjar heitir Bænhússtraumur, þar sem straumar eru stundum mjög miklir. Í máldaga um skyldur presta í Öxney frá 1224 er getið um söngskyldur þeirra og í Sturlungu segir frá því, að Snorri, sonur Sturlu Þórðarsonar sagaritara, hafi komizt í bænhús í Öxney, þegar Vestfirðingar ætluðu að góma hann. Máldagi Narfeyrarkirkju frá 1397 segir frá þjónustu prests í Öxney. Þetta bænhús var líklega aflagt fyrir árið 1600.
Guðmundur Þorleifsson á Narfeyri átti Öxney árið 1702. Þá voru þar 8 manns í heimili með sjö nautgripi og 37 kindur. Bóndinn hafði tvo báta til heimilisþarfa og nýtti eggver og dúntekju, sem var hin bezta, þegar refir spilltu henni ekki. Bóndinn greiddi landleigu með dúninum en hélt eggjunum fyrir sig og sína. Mótekja var næg til eldiviðar og selveiði var talsverð. Árið 1762 eru fjórtán manns til heimilis á eyjunni á tveimur bæjum, 1801 voru 13 manns á tveimur bæjum og 14 á sömu bæjum árið 1845. Jónas Jóhannsson bjó þar frá 1913 til 1970, þegar Öxney fór í eyði, en hlunnindum hefur verið sinnt þar síðan að mestu.
Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar er talsvert fjallað um Bakkabræður úr Svarfaðardal og Öxneyinga og slíkar sögur ganga manna á milli enn þá og kenndar við ýmsa staði. Öxneyingasögurnar eru hafðar eftir ýmsum en þó helzt Agli Egilsen, syni Sveinbjarnar Egilssonar rectors. Jón Árnason var vinur fjölskyldu Egils og átti auðvelt um söfnum upplýsinga um eyjaskeggja. Egilshús í Stykkishólmi er kennt við hann, því hann gerðist verzlunarstjóri þar. Hann var spaugsamur eins og sytstkini hans, Benedikt Gröndal og Þuríður, kona sera Eiríks Kúld í Flatey. Sögurnar af Öxneyingum eru sérstakar vegna náttúrufars í eyjunum. Þetta fólk þekkti lítið til hesta og gekk frá reiðskjótum sínum uppi á landi eins og bátum í nausti.
Örnefnum eyjarinnar, sem eru u.þ.b. 120 talsins, tengist þjóðsaga um sækýr, sem fylltu fjós bónda kvöld eitt að vetrarlagi. Hann vildi ná þeim en missti þær allar út nema eina, sem hann gat gómað og bitið til blóðs. Hinar elti hann um þvera eyjuna, þar til þær steyptust niður Baulubrekku og hlupi í sjóinn. Kýrin gráa, sem varð eftir, reynist hinn bezti gripur og ættmóðir hins steingráa kyns, sem dreifðist víða um