Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Öxl

Axlarbjorn

Öxl er í Breiðuvíkurhreppi í grennd við Búðir undir Axlarhyrnu (433m).

Frá Öxl er gott útsýni austur- og   vesturum. Einn af fáum raðmorðingjum landsins, Axlar-Björn, bjó á Öxl. Hann drap í kringum 18 ferðamenn til fjár og kom líkunum fyrir í tjörn neðan túns. Hann var dæmdur til aflimunar og dauða árið 1596.

Landnámabók segir frá því, að Ásmundur Atlason hafi byggt Öxl í elli en hann bjó áður að Langaholti. Þóra, kona hans, lét gera veitingaskála um þvera þjóðbraut og bauð öllum, er þiggja vildu. Ásmundur var heygður með þræli sínum og kvartaði yfir félagsskapnum með árangri, því þrællin var fjarlægður úr haugnum.

AXLAR-BJÖRN

Svavar Hávarðsson, blaðamaður, birti þessa samantekt í Fréttablaðinu 26. marz 2006 og gaf leyfi til birtingar á nat.is.

Móðir hans drakk mannablóð
Undir lok 16. aldar var tekinn af lífi vegna glæpa sinna Björn Pétursson sem bjó á bænum Öxl á Snæfellsnesi eða Axlar-Björn eins og hann er betur þekktur. Björn var líflátinn fyrir fjölmörg morð sem hann framdi á nokkurra ára tímabili og er hann eini þekkti raðmorðingi Íslandssögunnar. Svavar Hávarðsson leit til baka og rifjaði upp sögu þessa djöfuls í mannsmynd sem lifað hefur með þjóðinni í rúm 400 ár.

Líf Björns var bundið ákvæðum frá upphafi. Hann var yngstur þriggja systkina og þegar Sigríður móðir hans bar hann undir belti þjáðist hún af óslökkvandi þorsta í mannablóð. Hún duldi þessa löngun sína lengi en gat svo ekki orða bundist og sagði hún því Pétri manni sínum hvers kyns var. Hjónaband þeirra var gott og lét Pétur flest eftir konu sinni. Það var einnig svo í þessu tilfelli og dró hann sér blóð úr fæti og gaf konu sinni. Drakk hún blóð bónda og minnkaði þá þorsti hennar nokkuð. Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar segir hvað fylgdi á eftir blóðdrykkju Sigríðar. „Þegar þessari ílöngun var stillt barst konu þessari í drauma ýmis óhæfa sem ekki er á orði hafandi og gat hún þess við vinnukonu sína að hún væri hrædd um að barn það sem hún gengi með mundi verða frábrugðið í ýmsu öðrum mönnum og gott ef það yrði ekki einhver óskapaskepna.“ Ekkert bar þó á því í fyrstu að Björn væri nokkuð öðruvísi en önnur börn í sveitinni. Fyrstu árin dafnaði hann vel og þótti efnispiltur.

Morðingi í mótun.
Faðir Björns hafði verið vinnumaður hjá Ormi Þorleifssyni ríka á Knerri og var þeim vel til vina. Þessi tengsl urðu til þess að Ormur tók Björn í fóstur Þegar hann var á fimmta ári. Hart var í ári og ætlaði Ormur upphaflega að taka Magnús bróður Björns til að létta undir með fjölskyldunni en móðir þeirra bað Orm um að taka Björn vegna þess hversu óstýrlátur hann þótti. Björn fékk gott atlæti hjá Ormi ríka og tók fljótum þroska. Sagt er frá því að Björn vingaðist fljótlega við Guðmund son Orms sem og fjósamann á líkum aldri en bera tók á skapgerðarbrestum og sem unglingur þótti hann dulur og harðlyndur í skapi. Einhverju sinni stalst Björn til að leggjast til svefns á messutíma á móti vilja og vitund fóstra síns. Dreymdi hann þá að til hans kæmi ókunnugur maður og hélt hann á diski með niðurskornu kjöti sem hann bauð Birni. Björn þáði kjötbitana og þótti hver öðrum meira lostæti. Við nítjánda bita velgdi honum við og hætti við svo búið. Draummaður sagði nú Birni að daginn eftir skuli hann fara upp á fjallið Axlarhyrnu þar sem hann muni finna hlut sem hann skuli eiga og nota vel. Sagði hann jafnframt að það sem biði hans þar fylgdi sú náttúra að hann yrði nafnkunnur maður. Af þessum vonda draumi vaknaði Björn fullur lífsgleði og fýsti mjög að leita þess sem honum var vísað til.

Axlar-Björn
Á Axlarhyrnu fann Björn öxina sem hann síðar nýtti til að murka lífið úr fórnarlömbum sínum. Þar sem hann var aðeins unglingur gat hann ekki staðist þá freistingu að stæra sig af fundinum. Finnur hann sjómenn nýkomna að landi og reiðir öxina á loft og spyr þá með kuldahlátri „hver af ykkur vill nú eiga náttstað undir þessari?“ Einn skipsverja, gamall maður, sagði þá við félaga sína án þess að virða Björn viðlits að taka öxina af piltinum því þetta væri óhappaverkfæri. Þeim varð þó ekkert úr því verki enda hvarf Björn heim að Knerri. Skömmu síðar hvarf fjósamaðurinn á Knerri, vinur Björns, og fannst ekki þá né síðar þó að Björn hafi síðar viðurkennt að hafa drepið hann og dysjað í flórnum á Knerri.

Nokkrum árum seinna dó Ormur og Guðmundur sonur hans bjó eftir hann á Knerri. Guðmundur varð enn ríkari og valdameiri en Ormur hafði nokkru sinni verið og byggði Birni fósturbróður sínum Axlarland. Þar bjó hann síðan með Steinunni eiginkonu sinni. Bærinn var í alfaraleið og bæjarstæðið fallegt mót suðri. En Björn naut þess ekki því svo þunglega hvíldi á honum morðlostinn og illskan að hann sá ekki sólina í heiðskíru veðri. „Nú eru sólarlitlir dagar, bræður,“ er haft eftir honum þegar hann á páskadag gaf sig á tal við hóp manna sem stóðu úti og nutu veðursins.

Hvað Björn myrti marga árin sem hann bjó með konu sinni á Öxl er nokkuð á reiki. Í þjóðsögum Jóns Árnasonar segir að hann hafi viðurkennt átján morð fyrir Jóni lögmanni á Arnarstapa stuttu eftir að hann var handtekinn en aðrar heimildir segja morðin hafa verið færri. Aðrar heimildir gefa það í skyn að þau hafi verið mun fleiri.

Rennur blóð
Í Setbergsannál segir að upp hafi komist um morðverk Björns árið 1596 en lengi hafi verið vitað að ekki var allt með felldu á Öxl. Enginn gerði nokkuð í málinu vegna þess að Björn var undir verndarvæng fósturbróður síns Guðmundar á Knerri og því gat hann ótrauður drepið menn, konur og börn löngu eftir að grunur féll á hann. Til hans kom fátæk kona ásamt þremur börnum sínum og bað um húsaskjól. Þegar þau voru búin að koma sér fyrir lokkaði Björn til sín hvert barnið af öðru og drap. Konan náði að fela sig og gat sagt frá því sem gerðist. Í framhaldi af þessu voðaverki var Björn handtekinn og færður til saka. Björn viðurkenndi samkvæmt þessari heimild níu morð og að hann hefði grafið líkin í heygarði og fjósi. Þá staðreynd að mun fleiri bein fundust í Axlarlandi útskýrði hann með því að hann hefði fundið fjölmörg lík sem hann nennti ekki að segja frá eða færa til kirkju og því grafið þau sjálfur. Björn fullyrti að kona hans hefði aðstoðað hann við morðin með því að bregða um fórnarlömbin snæri eða rotað þau með sleggju. Stundum hefði hún líka notað það úrræði að kyrkja þau með hálsklútnum sínum.

Við þessa frásögn bæta aðrir miðaldaannálar. Því er oft haldið fram að um ránsmorð hafi verið að ræða og líkunum hafi Björn sökkt í Íglutjörn sem er rétt hjá bænum. Annálum ber ekki saman hvernig Björn náðist að lokum. Grunsamlega góð hestaeign hans og klæðnaður er ein ástæðan sem gefin er. Aðrar skýringar annálanna eru sögur af fólki sem slapp frá Birni eins og sú sem Setbergsannáll segir frá. Í Sjávarborgarannál 1389-1729 segir af systkinum sem gistu á Öxl. Björn drap stúlkuna en piltinum tókst að fela sig í ræsi á meðan Björn leitaði hans í morðæði sínu. Hann komst svo undan og sagði til morðingja systur sinnar. Í þjóðsögum segir svo frá þessu atviki að gömul kona hafi setið í baðstofunni og svæfði barn. Hún reyndi að vara þau systkini við yfirvofandi hættu með því að raula fyrir munni sér gamla vísu.

Gisti enginn hjá Gunnbirni
sem klæðin hefur góð.
Ekur hann þeim í Ígultjörn.
Rennur blóð
eftir slóð
og dilla ég þér jóð.

Til dauða dæmdur
Björn og Steinunn voru dæmd til dauða á Laugabrekkuþingi árið 1596. Lífláti Steinunnar var frestað vegna þess að hún var vanfær. Síðar var hún hýdd fyrir glæpi sína en eignaðist áður soninn Svein kallaður skotti. Hann erfði frá föður sínum illskuna og var dæmdur fyrir fjölda glæpa og hengdur í Rauðuskörðum 1648.

Dauði Axlar-Björns á Laugabrekkuþingi var í samræmi við hvernig hann lifði. Fyrst voru útlimir hans molaðir með trésleggju og tók það langan tíma. Þegar það var afstaðið var Björn hálshögginn og þar á eftir brytjaður niður og einstakir hlutar úr líkama hans festir upp á stengur, þar á meðal höfuðið. Áður en það var gert voru þó kynfærin skorin af líkinu og þeim hent í kjöltu Steinunnar konu hans sem horfði á aftöku bónda síns.

Axlar-Bjarnarætt
Eins og fyrr sagði var Sveinn sonur Bjarnar hengdur fyrir glæpi sína. Sonur Sveins, Gísli hrókur kallaður, fékk sömu örlög. En blundar morðæði Björns í öllum afkomendum hans? Samkvæmt talningu úr gagnagrunni Íslendingabókar eru kunnir afkomendur hans um það bil 20.000 núlifandi Íslendingar. Þeir sem vilja komast að því hvort blóð Björns rennur þeim í æðum geta farið inn á Íslendingabók og skráð „Björn Pétursson“ í reitinn fyrir nafn efst á skjánum og „um 1545“ í reitinn fyrir fæðingardag. Hvort lengra er haldið verður hver og einn að eiga við sjálfan sig.

Sérstakar þakkir: Ebba Guðný Guðmundsdóttir.

Myndasafn

Í grennd

Arnarstapi, Snæfellnes
Arnarstapi er lítið útgerðarpláss undir Stapafelli á milli Breiðuvíkur og Hellna. Norðan í fellinu er sönghellir, þar sem Bárður Snæfellsás er sagður …
Búðir
Búðir á sunnan- og vestanverðu Snæfellsnesi er eftirsóttur ferðamannastaður. Einstök náttúrfegurð og  nálægð við Snæfellsjökul hafa mikið aðdráttarafl…
Hellnar
Hellnar eru lítið sjávarpláss vestan Arnarstapa. Þar var fyrrum einhver stærsta verstöð á Snæfellsnesi, nokkur grasbýli og 32 þurrabúðir. Íbúarnir þar…
Malarrif
Malarrif er bær í Breiðuvíkurhreppi undir Jökli, skammt vestan við Lóndranga. Þangað eru um tveir km frá þjóðbraut og eru Malarrif sem syðsti hluti Sn…
Sögustaðir Vesturlandi
Ýmsir staðir tengdir sögu landshlutans Borgarfjörður Akrafjall Akrakirkja Akranes Akraneskirkja …
Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull
Þjóðgarðurinn á Snæfellsjökull Rekja má aðdraganda að stofnun þjóðgarðs á utanverðu Snæfellsnesi rúmlega 30 ár aftur í tímann en   skriður komst fyrs…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )