Laugafell og Laugafellshnjúkur (892 og 987 m) eru norðaustan Hofsjökuls og sjást víða að. Hnjúkskvísl fellur á milli þeirra en Laugakvísl norðan við fellið. Í munni Eyfirðinga heitir svæðið norðan Geldingsár Laugafellsöræfi. Laugarnar, sem það er kennt við eru í ás norðvestan Laugafells. Þar eru þrjár aðallaugar, sem mynda volgan læk. Meðfram honum eru valllendisbrekkur með ýmsum gróðri, þótt svæðið liggi í rúmlega 700 m hæð yfir sjó. Laugarnar eru 40-50°C heitar. Fellshalaflá, syðsti hestahagi áður en lagt er á Sprengisandsleið, er suðaustan Laugafells. Við upphlaðna laug, sem laugalækurinn rennur í, er sæluhús Ferðafélags Akureyrar, reistur árið 1948 og endurnýjaður síðan. Þessi upphlaðna laug er í manngerðri þró frá fyrri tímum.
Þjóðsagan segir frá Þórunni á Grund, sem dvaldi þarna með fólki sínu á meðan svartidauði gekk yfir og þá hafi þróin verið klöppuð í móbergið. Gallinn við söguna er sá, að Þórunn fæddist u.þ.b. öld eftir að svartidauði geisaði.
Leifar fornra mannvirkja fundust á bakka Laugakvíslar. Munnmæli herma, að þessi Þórunn hafi haft þarna selstöðu og gamlir Eyfirðingar kölluðu þessar leifar Þórutóttarbrot. Þar sem jarðhitinn er mestur á svæðinu fundust smámannvistarleifar.
Auðvelt er að komast að Laugafelli frá Sprengisandsleið, upp úr Eyjafjarðardal og upp úr Vesturdal í Skagafirði, en erfiðari leið liggur frá Kjalvegi, norðan Geirsöldu meðfram norðanverðum Hofsjökli.
LAUGAFELLSSKÁLAR FFA
Laugafellsskálinn var byggður á árunum 1948-50. Hann stendur sunnan botns Eyjafjarðardals og u.þ.b. 15 km norðaustan Hofsjökuls. Skálinn er hitaður með hveravatni allt árið. Í honum eru öll nauðsynleg áhöld og eldunartæki. Skálavörður FFa er þar allt sumarið. Gistirými er fyrir 15 manns en 20 manns, ef svefnloft snyrtihúss er talið með. Hjá skálanum er tjaldstæði, sundlaug og upphitað snyrtihús. Frá Laugafelli liggja slóðir til Eyjafjarðar, Skagafjarðar, Bárðardals og suður Sprengisand.
Heimild: Vefur FFA og nat.is