Vatnahjallavegur er líka nefndur Eyfirðingavegur. Hann var alfaraleið til Suðurlands upp úr Eyjafirði. Þá var haldið upp skammt norðan við Úlfá, fremsta bæinn, sunnan Hafragils. Neðst í brekkunum er Hákarlatorfa og uppi á brúninni, á hinum eina og sanna Vatnahjalla, er varðan Sankti Pétur. Þarna uppi tekur við stórgrýttur og seinfær vegur meðfram Urðarvötnum. Þá tóku Eystri-Pollar við, Austari-Jökulsá og Vestari-Pollar á Hofsafrétti. Þaðan var stefnan tekin á Ásbjarnarvötn, meðfram Eyfirðingahólum, Strangakvísl vaðin, yfir Guðlaugstungur og Svörtutungur sunnanverðar. Vaðið á Blöndu var neðan norðurenda Kjalhrauns, norðan Blöndutjarnar. Þaðan var tekin bein stefna á Gránunes á Kjalveg.
Fyrrum, þegar jöklar voru minni, lá leiðin síðan af Kjalvegi um Hvítárnes, meðfram Hvítárvatni og upp Skálpanes yfir Bláfellsháls. Eftir að jöklar fóru að sækja fram varð þessi leið ófær og þá var farið á vaði yfir Hvítá skammt neða Hvítárvatns og yfir Bláfellsháls. Síðan var haldið áfram meðfram Jarlhettum og sunnan Hlöðufells, milli Kerlingar og Tindaskaga sunnan Skjaldbreiðar og austan með Miðfelli um Goðaskarð niður á Hofmannaflöt. Leiðin kvíslaðist annars víða, þegar komið var suður fyrir fjöll eftir því hvert menn áttu erindi á Suðurlandinu.
Eyfirðingar áttu oft erindi suður, m.a. til að sækja skreið og til Alþingis, og jafnvel að vetrarlagi. Árið 1939 stóð Ferðafélag Akureyrar fyrir vegabótum upp Vatnahjallann en þessi vegur kom að litlu gagni vegna þess, hve snjóa leysir seint í fjallinu. Þó mun hann hafa verið ekinn einstaka sinnum inn að Laugafelli. Þá tók við vegur um Hólafjall, sem er allt að 1000 m.y.s., u.þ.b. 200 m hærri en um Vatnahjalla. Hann lagðist af, þegar ruddur var vegur beint suður úr Eyjafjarðardal.