Jökuldalsheiði er víðast í nánd við 500 m yfir sjó og er u.þ.b. 60 km löng á milli Þríhyrningsfjallgarðar, Þjóðfells og Súlendna að vestan og hábrúna Jökuldals með ýmsum hnúkum að austan. Þar eru berar melöldur, fjöldi vatna, flóar og votlendi, vaxin broki, ljósastör og loð- og grávíði. Um og eftir miðja 19. öld var mikil byggð á Jökuldalsheiði, alls sextán bæir.
Þar bjó fólk, sem vildi vera sjálfbjarga en hafði ekki efni á að stofna til búskapar annars staðar. Öskjugosið 1875 lagði byggðina á heiðinni að mestu í eyði og margt fólk, sem flosnaði upp fluttist til Vesturheims. Halldór Laxness mun hafa fengið margar hugmyndir að skáldsögu sinni „Sjálfstætt fólk” af kynnum sínum við síðustu ábúendur þar. Gunnar Gunnarsson skrifaði skáldsöguna „Heiðarharmur”, sem lýsir lífi fólksins á Jökuldalsheiði vel.
Tunguheiði heitir nyrzti hluti heiðarinnar. Þar stóðu nokkur býli, Háreksstaðir hið stærsta. Þessi heiðarhluti er velgróinn og víða mjög mýrlendur og vötn eru þar mörg, einkum í Vatnaflóa. Helztu vötnin þar eru Hólmavatn, Stórhólmavatn, Langhólmavatn og Geldingavatn, öll góð veiðivötn. Tunguá fellur til Vopnafjarðar úr Grunnavatnsdal, austan Fellahlíðar.
Ármótasel.
Byggt úr landi Arnórsstaða 1853 í 500 metra hæð. Bæjarrústirnar liggja á milli Jökuldalsvegar og Þjóðvegar nr. 1 ofarlega í Gilsárkvosinni, skammt ofan við Víðidalsá. Bærinn var kallaður Ármót í daglegu tali. Frumbyggjar voru Jón Guðlaugsson, bónda í Mjóadal í Bárðadal og víðar og Sigríður Jónsdóttir, bónda á Ljótsstöðum í Fnjóskadal. Búið var á Ármótaseli til 1943 en þó var bærinn í stundum í eyði í nokkur ár. Bærinn á Ármótaseli var rifinn 1945. Hann hefur verið reisulegur á þeirra tíma mælikvarða og fjárhúsin tóku um 200 fjár.
Fagrakinn var byggð úr Möðrudalslandi, eftir því sem þá var talið. Gestreiðarstaðabærin reis úr óbyggð sama árið og Rangárlón. Grunnavatn var annað býlið, sem byggðist í Brúarlandi.
Háls í Eiríksstaðaheiði.
Háreksstaðir við Háreksstaðakvísl í Norður-heiðinni, innan kílómetra austan vegar. Má ætla, að fyrsta býlið hafi verið valið og sett á þann stað, sem álitlegast þótti til bjargræðis. Vera má og, að fyrsta býlið hafi verið þar sett af því, að kunnugt hafði verið um, að þar hafi verið búið fyrr á tímum. Hvað sem um þetta hefur verið, þá voru Háreksstaðir jafnan taldir eitt bezta býlið í Heiðinni og fjölsetnast, enda var graslendið þar hvað samfelldast og víðáttumest.
Heiðarsel byggðist samtímis Hálsi. Heiðarsel fór síðast heiðabæjanna í eyði 1946.
Hlíðarendi.
Hneflasel byggðist um miðja 19. öldina og var yfirgefið 1860. Hólmavatn, eina býlið í Norðausturheiðinni byggði upp árið 1861. Lindasel var síðasta nýbýlið í Jökuldalsheiðinni árið 1862.
Melur byggðist 1848. Nýbýlið Melur var með vissu af frumbyggjanum stofnað sem eignarbýli í almenningi, en presturinn á Hofi í Vopnafirði gerði kröfu til landsins fyrir hönd Hofskirkju.
Rangárlón eða Rangalón er eyðibýli við norðanvert Sænautavatn. Bærinn var byggður 1844 úr Möðrudalslandi, en fór í eyði 1924 og enn þá sjást bæjarrústirnar greinilega. Hann var í þjóðbraut. Uppblástur eyddi miklu landi á þessum slóðum og mikil áherzla er lögð á uppgræðslu.
Sænautasel var byggt á Jökuldalsheiði 1842. Árið 1861 voru 16 bæir í byggð á heiðinni. Þeir eyddust að mestu í Öskjugosi 1875. Sænautasel var endurbyggt 1992.
Veturhús hétu fyrst Barði í Hákonarstaðaheiðinni og voru í byggð 1847-1853.
Víðihólar byggðust 1847.