Hrútafjörður er um 36 km langur fjörður, sem liggur suður úr Húnaflóa. Næsti fjörður fyrir norðan hann er Bitrufjörður. Byggðin á vesturströndinni, Strandamegin, kallaðist Bæjarhreppur og var syðsta sveitarfélagið á Ströndum. Skráður íbúafjöldi í hreppnum var um það bil 100 manns, sem hafa atvinnu af landbúnaði, verslun og þjónustu. Dálítið þéttbýli er á Borðeyri. Eftir að sameining Húnaþings vestra og Bæjarhrepps var samþykkt þann 3. desember 2011 voru þessi tvö sveitarfélög sameinuð um áramótin 2011-2012. Sveitarfélagið Húnaþing vestra nær því upp á miðjan Stikuháls, sem aðskilur Hrútafjörð og Bitrufjörð á Ströndum.