Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Prestbakkakirkja, Strandir

Prestbakkakirkja er í Prestbakkaprestakalli í Húnavatnsprófastsdæmi, en Strandaprófastsdæmi var sameinað því 1970 og fluttist þá um leið úr Skálholtsbiskupsdæmi í Hólabiskupsdæmi.

Prestbakki við Hrútafjörð hefur verið kirkjustaður síðan um 1100, en varð prestssetur 1711. Áður var þar bær í einkaeign, og prestakallið nefnt Hrútafjarðar- og Bitruþing. Sóknarprestur og staðarhaldari er síra Ágúst Sigurðsson. Prestbakki er í Bæjarhreppi í Strandasýslu og hefur póstfangið 500 Brú og síminn er 451-1170. Þá má nefna, að prestakallið er í tveimur landsfjórðungum og kjördæmum, Vestfjörðum og Norðurlandi vestra, og eru mörkin í Hrútafjarðarbotni. Í prestakallinu eru auk heimakirkjunnar 2 annexíur: Óspakseyrarkirkja í Bitrufirði og Staðarkirkja í Hrútafirði.

Bæjarnafnið Bakki er svo algengt, að það ber oft forskeyti eða er bundið sveitarnafni. Bakki við Hrútafjörð varð nefndur Prestbakki, þegar þar hafði lengi verið kirkja. Hún átti ekki heimajörðina, en afbýlisland innan Bakkaár, sem nú er sjálfstætt býli, Ljótunnarstaðir. Því varð Prestbakki ekki prestsetursstaður á valdi Skálholtsbiskups, en bóndagarður og einkaeign, uns Guðmundur Þorleifsson (1658-1720), sem nefndur var hinn ríki, gaf Prestbakkakirkju sína eign í jörðinni til prestseturs 1711. Síðan hafa 20 prestar setið staðinn, lengst allra síra Yngvi Þ. Árnason (1948-1986).

Kirkjuhúsið, sem var Maríukirkja í fyrra sið, stóð á sama helgaða grunni innankirkjugarðsins til 1874. Síðasta guðshúsið á hinu forna stæði var sjö stafgólfa torfkirkja,byggð 1805. Þegar torfkirkjan var tekin ofan 1874, var byggð trékirkja utan og norðan garðsins. Hún var rifin 1957, er steinsteypt kirkjuhús var fullgert norðan trékirkjunnar.

Minningamark var afhjúpað á 40 ára vígsluafmæli Prestbakkakirkju 1997, bergstuðlar úr Hlaðhamri. Á er letrað: „Hér stóð altari Bakkakirkju frá 11. öld til 1874.“

Kirkjugarðurinn er stór miðað við grafreiti í álíka sóknum. Voru 15 byggðarból til 1756-1758, er fjórir innstu bæir í sókn og sveit voru lagðir til Staðarsóknar austan Hrútafjarðarár. Sóknin er því í þjóðbraut norður Strandir og að Djúpi og í hallærum leitaði fjöldi umrennandi fólks þangað. Varð margt dagþrota og átti hér kirkjuleg. Í reykjarharðindunum voru t.d. jarðaðir 49 á Prestbakka (1784-1785).

Hér sem annars staðar hefur verið jarðsett æ ofan í æ í fornar grafir. Enginn legstaður er nafnkenndur, fyrr en á 19. öld. Eru 13 legsteinar sérkenni garðsins, bergstuðlar úr Hlaðhamri, 3 bæjarleiðum innar í sókninni, sem Finnur Jónsson (1842-1924), bóndi og fræðimaður á Kjörseyri, gróf listfengu, skýru letri.

Garðurinn var sléttaður og hreinsaður af hvers konar steypuverki 1995-1996. Þá varfellt fallega í hlaðinn grjótvegg að vestan og norðan að sáluhliði. Við þær framkvæmdir fundust hornsteinar gömlu kirkjunnar frá 1805, og voru hvalbein í hleðslunni, sem ekki var ótítt í torfveggjum á fyrri tíð.

Steinkirkjan, sem nú stendur á Prestbakka, var byggð á árunum 1954-1957 eftir teikningu Guðjóns Samúelssonar húsameistara ríkisins. Síra Ásmundur Guðmundsson biskup vígði kirkjuna 26. maí 1957. Kór hennar er sérbyggður eins og forkirkjan, en yfir henni tvenn steypt loft undir turninum. 2 klukkur, gamlar og hljómgóðar eru á neðra loftinu, festar í nýjum ramböldum (1998). Ekki er stigi til loftsins og ná því klukkustrengirnir niður um það og er hringt í forkirkju.

Harmoníum, gamalt og gott, stendur norðanvert við kórdyr. Sunnanvert er djúpur predikunarstóll á háum fæti, laglegt smíði, jafngamall kirkjunni. Var stóllinn málaður 1996 í litum sem samsvara altaristöflunni og umgerð hennar að tillögu danskrar kirkjulistarkonu, Anne Marie Egemose. Myndin á altaristöflunni er af kvöldi páskadags í Emmaus. „Vertu hjá oss, því að kvölda tekur og degi hallar.“ Lúk. 24. 29.

Sæmundi Skarphéðinssyni smiður frá Kleifakoti málaði altaristöfluna á kórgafli 1925. Hún er eftirlíking altaristöflunnar í Hjarðarholtskirkju, en hún er dönsk, frá miðri 19. öld. Umgerð málverksins er vandað sveinsstykki Helga Einarssonar frá Hróðnýjarstöðum. Altarið tekur um þveran kórgaflinn, en var áður lítill skápur. Var því breytt 1995 og þá smíðaðar grátur, sem sóknarpresturinn hannaði einnig. Eru þær opnar í miðju og færanlegar. Þrjú op undir rómönskum boga eru í grátunum í stíl við kórgluggana. Altarisdúk með venezíönskum saumi gerði Guðbjörg Haraldsdóttir, en altarisklæði saumaði Sigríður Ingólfsdóttir, báðar húsfreyjur á Borðeyri.

Tveir gamlir einnar pípu stjakar, lágir á breiðum fæti, eru á altarinu, gerðir af koparblöndu. Tveir þriggja pípu silfurstjakar eru þar einnig, keyptir í Danmörku fyrir kirkjuvígsluna 1957. Kaleikur er gjöf síra Búa Jónssonar, er hér var prestur (1836-1848) og prófastur Strandamanna. Er hann áletraður 1838, danskur gripur, af þunnu silfri. Patínan er hins vegar þungur silfurdiskur, talin innlend smíði.

Kirkjan á tvo hökla og tvö góð rykkilín. Annar hökullinn er í aðskornum, rómönskum stíl. Saumuðu hann 1929 Steinunn Briem og Þórhildur Helgason af rauðu flaueli. Mjög góður kirkjugripur. Nýlegur hökull, enskur með stólu, er minningargjöf Ólafar Björnsdóttur og Vilhjálms Ólafssonar á Kollsá um ungan dreng, er þau misstu 1975.

Prestakallið var.stundum nefnt Hrútafjarðar- og Bitruþing fyrir 1711, er Prestbakki varð beneficium (prestsetur), en útkirkja var á Óspakseyri í Bitrufirði, allt til 1885, á ný frá 1951. Í Óspakseyrarsöfnuði eru 35 manns, kirkjan steinsteypt, lítið hús með turni, vígð 1940. Önnur annexía er á Stað í Hrútafirði, til sett 1850-1867 og að reglu frá 1885. Í Staðarsókn eru nú 113 íbúar, en 4 innstu bæirnir í Bæjarhreppi (með útbýlum), sem heyrðu Prestbakkasókn, eru í Staðarsókn síðan 1756, er konungsleyfi var veitt og 2 árum síðar konungsbréf. Á Stað er timburkirkja, byggð 1886. Alls eru sóknarbörnin 225.

Örðugt var að breyta sóknarmörkunum, er Prestbakkasókn heyrði Skálholtsstifti, en Staðarsókn Hólastifti. Hvor sóknin í sínu prófastsdæmi, sýslu og landsfjórðungi að fornu. Innsta byggð í Prestbakkasókn síðan 1756 er á Borðeyri. Þá voru nyrðri mörk Prestbakkasóknar færð 1885, er sóknarmörk urðu á Stikuhálsi og Skálholtsvík, Guðlaugsvík og Kolbeinsá fluttust úr Óspakseyrarsókn í Prestbakkasókn.

Þegar Hólabiskupsdæmi var lagt niður 1801, voru báðar Hrútafjarðarsóknir í einu biskupsdæmi, en að lögunum 1909 um vígslubiskupa heyrði hvor sóknin sínu forna biskupsdæmi, uns reglugerð var sett 1990, að Strandaprófastsdæmi forna, sem var sameinað Húnavatnsprófastsdæmi 1970, skyldi heyra Hólastifti

Upplýsingar af vef kirkjunnar.

Myndasafn

Í grennd

Hólmavík
Hólmavík er kauptún við Steingrímsfjörð en þar er verzlunar- og þjónustumiðstöð fyrir Hornstrandir og hefur verið frá síðari hluta 19. aldar. Elzta hú…
Óspakseyri, við Bitrufjörð
Óspakseyri er landnám Þorbjarnar bitru við Bitrufjörð. Nafnið er frá Óspaki, sem bjó þar á söguöld. Þar hefur staðið kirkja frá katólskri tíð og núver…
Sögustaðir Ströndum
Sögustaðir eru fjölmargir á Ströndum, en hér má sjá nokkra þeirra. Árneskirkja Bjarnarfjörður nyrðri Bjarnarfjörður syðri Djúpa…
Staðarkirkja í Staðardal í Steingrímsfirði
Forna nafn kirkjustaðarins og stórbýlisins var Breiðabólsstaður. Líklega hefur þar verið prestsetur frá upphafi kristni. Nafnið Staðarstaður er notað …
Staðarskáli N1 þjónustumiðstöð
Staðarskáli N1 þjónustumiðstöð við botn Hrútafjarðar annast þjónustu fyrir ferðamenn. Árið 2008 varð sú breyting á veglínu að gamli skálinn fór úr alf…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )