Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Óspakseyri, við Bitrufjörð

Óspakseyri

Óspakseyri er landnám Þorbjarnar bitru við Bitrufjörð. Nafnið er frá Óspaki, sem bjó þar á söguöld. Þar hefur staðið kirkja frá katólskri tíð og núverandi kirkja var reist árið 1939. Höfnin er löggilt en engin hús tengd henni. Ungmennafélag Bitrunga reisti þar samkomuhús 1927 og þingstaður hreppsins var þar lengi. Landið er vel fallið til sauðfjárbúskapar og reki, æðarvarp og silungsveiði talin til hlunninda. Fyrri hluta 20. aldar var þar verzlun af og til fram að stofnun Kaupfélags Bitrufjarðar 1942 og sláturhúss þess.

Metúsalem Jóhannsson keypti Óspakseyri 1912 af Marínó Hafstein, sýslumanni, sem bjó þar frá aldamótunum 1900. Fram að því höfðu aðeins verið afgreiddar þar pantaðar vörur á vegum Dalafélagsins. Sigurgeir Ásgeirsson keypti og rak verzlunina til 1936. Kaupfélag Hrútfirðinga byggði lítið verzlunarhús á Eyrinni 1929 og hóf rekstur. Það tók við rekstri Sigurgeirs, þegar hann hætti. Þá kom fram vilji til stofnunar eigin kaupfélags, sem varð að veruleika 1942. Þar er nú minnsta kaupfélaga landsins, sem er oftast opið einu sinni í viku.

Eyrin varð til við framhlaup úr Eyrarfjalli og árið 1943 hljóp fram stór skriða rétt fyrir jólin og tók hlöðu og fjárhús án fjárskaða, því að smalinn var ekki kominn lengra með féð en heim á hlað, þegar ósköpin dundu yfir. Upptök skriðunnar voru úr miðju hlíðum og hún var 150-200 m breið. Eitt húsanna, sem sópaðist brott, var notað til gærusöltunar og birgðirnar þar bárust út ár fjörð og flutu burt. Hey skemmdist, uppskipunarbátur brotnaði og ýmsar vörur glötuðust, þannig að tjón kaupfélagsins og bóndans var talsvert.

Bitrufjörður gengur vestur úr Húnaflóa, rétt norðan mynnis Hrútafjarðar. Hann er u.þ.b. 10 km langur og djúpur. Undirlendið er aðallega við botn hans.

Bæði fjörðurinn og byggðin við hann eru oftast nefnd Bitra. Nafngjafinn var Þorbjörn bitra, sem nam þarna land. Landnáma segir hann hafa verið „víking og illmenni.” Yzta nestáin við sunnanverðan fjörðinn er Guðlaugshöfði. Þar braut Guðlaugur nokkur skip sitt. Hann komst í land með konu og dóttur, en aðrir fórust. Þorbjörn bitra kom þar að og drap foreldrana og tók dótturina í fóstur.

Myndasafn

Í grennd

Hólmavík
Hólmavík er kauptún við Steingrímsfjörð en þar er verzlunar- og þjónustumiðstöð fyrir Hornstrandir og hefur verið frá síðari hluta 19. aldar. Elzta hú…
Illdeilur og morð á Vestfjörðum
Smáorrustur, illdeilur, morð og aftökur á miðöldum á Vestfjörðum. Haukadalur Illdeilur og morð á Vestfjörðum Selárdalsk…
Kirkjur á Vestfjörðum og Ströndum
Listi yfir flestar kirkjur landshlutans Álftamýrarkirkja Bíldudalskirkja Breiðavik Breiðavíkurkirkja Breiðuvíkurkirkja …
Sögustaðir Ströndum
Sögustaðir eru fjölmargir á Ströndum, en hér má sjá nokkra þeirra. Árneskirkja Bjarnarfjörður nyrðri Bjarnarfjörður syðri Djúpa…
Staðarskáli N1 þjónustumiðstöð
Staðarskáli N1 þjónustumiðstöð við botn Hrútafjarðar annast þjónustu fyrir ferðamenn. Árið 2008 varð sú breyting á veglínu að gamli skálinn fór úr alf…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )