Hornbjarg er hrikalegt standberg austast á Hornströndum, eitt mesta fuglabjarg landsins. Hæstur tinda þar er Kálfatindur (534m). Jörundur (423m) er norðar og líkist manni séður frá Hælavíkurbjargi. Hann er sagður bera nafn fyrsta landnámsmannsins á Horni. Hornbjarg hét Vestra-Horn, en það nafn færðist yfir á fjallið austan Hornafjarðar.
Í Flateyjarbók er sagt frá Þormóði Kolbrúnarskáldi og Þorgeiri Havarssyni, er þeir voru á ferð á Hornbjargi og Þorgeir hrapaði. Hann greip í hvönn á leiðinni og hélt sér þar unz Þormóður kippti honum upp. Við Hornvík var bæjarhverfi fyrr á öldum og Horn var mikil hlunnindajörð (reki, fugla- og eggjatekja).
Hornbjarg og Hælavíkurbjarg umlykja Hornvík. Hornbjarg að austan en Hælavíkurbjarg að vestan. Vestan Hælavíkurbjargs er Hælavík en austan Hornbjargs er Látravík og Hornbjargsviti.
Hælavíkurbjarg er þverhníptur hamraveggur sem rís í 258 metra hæð. Bjargið dregur nafn sitt af klettadrangi sem stendur upp úr sjónum framan við bjargið og heitir Hæll. Annar drangur við hlið hans heitir Göltur. Í Hælavíkurbjarg austanvert gengur dalhvilftin Hvannadalur. Neðan við hann ganga fallegir berggangar, Langikambur og Fjöl, með þrönga vík sem heitir Kirfi á milli. Skammt frá, undir bjarginu er þriðji berggangurinn, Súlnastapi, sem stendur í sjónum laus frá bjarginu.
Ein frægasta urð Hælavíkurbjargs er Heljarurð, en sagan segir, að hún hafi fallið á 18 Englendinga, sem stolizt höfðu í bjargið eftir nytjum. Var haft fyrir satt að hinn frægi galdramaður Hallur á Horni hafi verið ábyrgur fyrir skriðunni.
Nyrzta nef Hornbjargs heitir Horn og draga Hornstrandir nafn sitt af því. Horn er jafnframt nyrsti tangi Vestfjarða og miðja Hornstranda en þar skiptast þær í Austur- og Vesturstrandir. Bjargið er þverhnípt í sjó fram og þar eru nokkrir háir tindar. Nær sá hæsti þeirra í 534 metra hæð í Kálfatindum.
Annar frægur tindur er Jörundur, aðeins utar, sem rís í 423 metra hæð. Jörundur á að hafa verið landnámsmaður sem kleif tindinn og gaf honum nafn. Innst við sunnanvert bjargið standa reisulegir berggangar, Fjalir, sem eins og aðrir berggangar eru fornar aðfærsluæðar hraunstraums.
Hornbjarg er hrikalegt ásýndum en þó er minni hætta að síga það en Hælavíkurbjarg þar sem bjargbrúnir eru lausari í sér.
Í Flateyjarbók er sagt frá ferð fóstbræðranna Þormóðs Kolbrúnarskálds og Þorgeirs Hávarðssonar í Hornbjarg. Er þeir klifu bjargið varð Þorgeiri fótaskortur svo hann hrapaði, en náði handfestu á hvannnjóla. Stolt kappans varð til þess að hann þóttist ekki geta kallað á hjálp, en það varð honum til lífs að Þormóður sem hafði lagt sig uppi á bjargbrúninni vaknaði nokkru síðar og kippti honum upp áður en njólinn gaf sig. Sagt er að ekki hafi verið sérlega kært með þeim fóstbræðrum eftir þann atburð.
Að Látrabjargi undanskildu eru Hornbjarg og Hælavíkurbjarg mestu fuglabjörg landsins. Á vorin verpa þar fjölmargar tegundir bjarg- og sjófugla. Einnig eiga aðrar tegundir fugla sér varpstaði í grasbölum og urðum sem myndast hafa ofan og neðan við björgin. Þegar á heildina er litið er mestu svartfuglabyggð á landsins að finna í Hælavíkurbjargi en Hornbjarg er talið aðalbústaður langvíu, en auk þeirra má sjá stuttnefju, máva og ritu í milljónatali. Aðrar fuglategundir sem er vert að nefna er hvítmávur, álka, fýll, æðarfugl, svartbakur, hávella, toppönd, óðinshani, lundi og teista. Hornbjarg er þéttsetnast af fugli á Jörundi og í þræðingum Dyraskarða sem liggja milli hans og Kálfatinda.
Frá Hornbæjum er greinilegur stígur upp brekkurnar út á Ystadal þar sem hægt er að ganga meðfram bjargbrún yfir Miðfell og á Kálfatinda. Þaðan er stórfenglegt útsýni til Hælavíkurbjargs. Einnig er hægt að ganga upp á Hornbjarg frá Látravík. Í Innstadal má fylgja bjargbrúninni og í Harðviðrisgjá má auðveldlega komast alllangt niður í bjargið sjálft. Þar var áður sigið til fugla- og eggjatöku.
Bjargsig í Hornbjargi
Fyrrum sóttu menn frá Jökulfjörðum og austurfjörðum Hornstranda bjargsig í Hornbjargi. Ábúendur úr Víkunum og frá Aðalvík sóttu Hælavíkurbjarg. Aðföngin voru flutt á árabátum fyrir Kögur og Straumnes.
Farið var niður á mismunandi stöðum í Hornbjarg eftir því, hvort sækja átti eftir egg eða fugl. Við eggjatöku varð að sneiða hjá helstu ófærunni í bjarginu, Kolbeinsskúta, og síga sunnan við hann hjá svokölluðum Moldhillum milli Harðviðrisgjár og Eilífstinda. Þar er bjargið þverhnípt og ekki hægt að kallast á. Samskipti urðu því að fara fram á merkjamáli. Hjólamaðurinn, fremst á brúninni, var milliliður milli brúnamanna, sem voru innar, og sigmannanna 6–8.
Gamalt brúnahjól er fremst á bjargbrúninni og minnir á bjargsig liðinna alda. Sigvaðurinn, sem var notaður við eggjatöku, lá um hjólið. Sigið var niður á Neðri-Gjárhillu. Fyrsti maðurinn hafði það hlutverk að hreinsa lausagrjót. Þegar hann hafði tekið hilluna, eins og það var kallað, og kominn með örugga fótfestu, fór hann úr festarauganu og hnýtti í staðinn grennri, línu, svokallaðan leynivað, við sig. Síðan var festaraugað dregið upp eftir merkjasendingar milli sigmanns, hjólamanns og brúnamanna. Svona gekk þetta þar til allir sigmenn voru komnir niður á hilluna. Þá var haldið með búnaðinn norður eftir hillunni, þar sem sigið var enn lengra niður á þræðinga neðar í bjarginu. Þar var eggjunum safnað og þau sett í sérsaumaða strigapoka. Þegar hæfilega mörgum eggjum hafði verið safnað fór einn sigmannanna með þau upp.
Harðviðrisgjá, sem skerst djúpt inn í Hornbjarg frá fjöru og að bjargbrúninni milli Skófnabergs og Eilífstind, var notuð til fuglatekju. Þar er hægt að komast alllangt niður í bjargið. Gjáin dregur nafn sitt af norðaustanvindinum, sem skellur á syðri barm gjárinnar og endurvarpast þaðan á nyrðri barminn. Við þetta myndast miklar drunur og dynkir, sem líkjast fallbyssuskotum. Hljóðin enduróma í hamraveggjunum báðum megin, þannig að mikið hljóðverk heyrist í bjarginu. Skófnaberg hefur hlotið nafn sitt af því að á steinum og klöppum bjargsins er áberandi mikill mosi, sem líkist helst skófum á steinum.
Við fuglatöku var farið niður á handvaði, sem festur í stóran, jarðfastan stein og bundinn um sigmann eftir kúnstarinnar reglum. Þá var farið niður á Stall, sem er um 55 metra frá brún, við stóran stein, sem lokar gjánni. Stallurinn er 10 metra hár og slútir fram yfir sig. Þaðan var sigið um 35 metra niður á Neðri-Gjárhillu og gengið eftir henni í báðar áttir og sigið enn neðar á smáþræðinga. Ef gengið var í norður var farið alla leið að Urðarnefi sem er utar og neðar í bjarginu. Fuglinum var svo kastað niður í fjöru og sóttur á báti. Þessi aðgerð gat tekið rúman sólarhring.
Fuglar, sem veiddir voru á bjargbrún, voru kallaðir brúnafuglar til aðgreiningar frá bjargmari, sem veiddur var neðar í bjarginu og kastað niður í fjöru.