Hjalli er bær og kirkjustaður í Ölfusi. Þar bjó einhver vitrasti og lögfróðasti höfðingi landsins á sínum tíma, Skafti Þóróddsson, lögsögumaður (†1030). Síðasti katólski biskupinn í Skálholti, Ögmundur Pálsson, var í heimsókn hjá Ásdísi systur sinni að Hjalla 2. júní 1541, þegar danskir hermenn handtóku hann þar. Hann sætti illri meðferð í þeirra höndum og var fluttur til Hafnarfjarðar, þar sem hann var settur á skip til Kaupmannahafnar. Ögmundur lézt á leiðinni.
Kirkjan, sem nú stendur, var byggð 1928 og vígð 5. nóvember sama ár. Hún er fyrsta steinkirkjan, sem var reist austanfjalls. Meðal margra góðra gripa hennar er predikunarstóll með ártalinu 1797 (gefandi Páll Jónsson, klausturhaldari) og lítil, máluð altaristafla frá 20. öld, sem sýnir upprisuna.