Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Herstöðin á Miðnesheiði

Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Bandaríski sjóherinn sendi fyrstu hermennina til Íslands árið 1941 samkvæmt samningi milli ríkisstjórnar Íslands, Bretlands og BNA. Hann tók við hlutverki brezka setuliðsins, sem hernam Ísland 10. maí 1940. Auk varnarhlutverksins byggði sjóherinn Keflavíkurflugvöll sem eldsneytisflugvöll fyrir fraktflug milli BNA og Evrópu.

Að lokinni síðari heimsstyrjöldinni yfirgaf setuliðið landið í samræmi við upprunalega samninginn við íslenzk yfirvöld. Nýr samningur milli BNA og Íslands var undirritaður 1946. Hann kvað á um áframhaldandi veru herliðs bandamanna í landinu. BNA samþykktu að annast allt viðhald flugvallarins. Aðild Íslands að NATO árið 1949 var ekki bundin stofnun íslenzks hers eða veru erlends herliðs í landinu á friðartímum.

Kalda stríðið við Sovétríkin og vaxandi spenna í heiminum réðu stefnu íslenzkra ráðamanna um veru herliðsins í varnarstöðinni. Þeir komust að þeirri niðurstöðu, að aðildin að NATO væri ekki nægileg vörn fyrir landið ein og sér og að beiðni NATO sömdu þeir við BNA um að taka að sér varnir landsins. Varnarliðið var í fremstu víglínu kalda stríðsins frá upphafi til enda (1951-1989) og fékk viðurkenningu fyrir veigamikið hlutverk sitt.

Aðalhlutverk varnarliðsins var að reka og halda við flugvellinum og búnaði hans. Önnur verkefni voru mismunandi eftir ákvörðun ríkisstjórnar, herráðs BNA og yfirmanns hersins hérlendis.

Í janúar 1994 bjuggu alls 5708 varnaliðsmenn (2864) og skyldulið þeirra á Vellinum. Hinn 30. september 1995 hafði þeim fækkað í 4364 (2120). Samtímis voru íslenzkir starfsmenn varnarliðsins 972 og 945, þar að auki starfsmenn verktaka 681 og 691 eða bæði árin rúmlega 1600 manns.

Hinn 30. september 2006 hurfu síðustu her- og starfsmenn varnarstöðvarinnar á brott og hún var afhent íslenzka ríkinu við opinbera athöfn. Í október undirrituðu ríkisstjórnir BNA og Íslands nýjan varnarsamnings án viðveru bandarísks herliðs í landinu.

Nefnd, skipuð fulltrúum sveitarfélaganna, sem eiga land að og innan varnarsvæðisins, og ríkisins (Magnús Gunnarsson), var skipuð til að gera áætlun um framtíð vallarsvæðisins. Yfirumsjón þess er ábyrgð utanríkisráðuneytisins (Valgerður Sverrisdóttir rh.). Í nóvember 2006 olli frost miklum skemmdum í mörgum íbúðum á svæðinu. Vatnstjón varð mikið vegna þess, að streymi heits vatns var ekki nægilegt. Í upphafi árs 2008 kvað ríkisendurskoðandi upp úrskurð um að enginn bæri ábyrgð á vatnsskaðanum. Ríkið yfirtók eignir hersins gegn allri hreinsun svæðisins.

Húsnæðið, sem stóð tómt, var smám saman tekið í notkun á ný. Ýmsar stofnanir fengu þar mun betri aðstöðu en þær höfðu haft áður. Íbúðarhúsnæðið nýttist aðallega fyrir stúdenta, sem stunduðu nám á svæðinu (Keilir) eða nýttu sér fríar ferðir með rútum til Reykjavíkur til náms þar.

Bandaríkjaher rak ratsjárstöð uppi á Heiðarfjalli  Langanesi (Kálfshvammshyrna 266m) 1954-68 og rústir hennar minna okkur á kaldastríðskaflann í sögu okkar. Önnur ratsjárstöð á vegum NATO var reist þarna uppi og hóf rekstur 1989.

Á árum kalda stríðsins rak bandaríski herinn stóra ratsjárstöð á Stokksnesi og voru þar þá að jafnaði á annað hundrað hermenn. Stöðin hóf starfsemi árið 1955 og þar voru allmikil mannvirki sem nú hafa flest verið rifin.

 

Myndasafn

Í grennd

Fagradalsfjall
Fagradalsfjall er vestast af lágu fjöllum Reykjanesskagans, 385 metra hátt fjall sem mótaðist á síðasta hluta ísaldar sem stóð í um 100.000 ár, líkleg…
Keflavík/Njarðvík, Ferðast og Fræðast
Keflavík Sveitarfélögin Keflavík, Njarðvík og Hafnir runnu saman í eitt sveitarfélag og nefnast nú einu nafni Reykjanesbær. Byggð í Keflavík og Njar…
Keflavíkurflugvöllur Ferðast og Fræðast
Keflavíkurflugvöllur er á Miðnesheiði á Rosmhvalanesi, sem var innan girðingar herstöðvar NATO (til 2006) Keflavíkurflugvöllur er einn af 4 alþjóðaflu…
Langanes
Langanes er stór skagi austan Þistilfjarðar, allbreiður vestast en mjókkar út í örmjóan, 50-70 m  háanaustast, þar sem heitir Fontur. Norðan í bja…
Stokksnes
Stokksnes skammt frá Höfn í Hornafirði Margir leggja leið sína niður á Stokksnes til að njóta náttúrunnar og skoða seli á skerjunum fyrir utan strönd…
Þorskastríðin
ÞORSKASTRÍÐIN Þriðja varðskipið, sem bar nafnið Þór, kom til landsins árið 1951. Það var smíðað í Álaborg í Danmörku   sama ár, en yfirbyggingu var b…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )