Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Langanes

Langanes er stór skagi austan Þistilfjarðar, allbreiður vestast en mjókkar út í örmjóan, 50-70 m  háanaustast, þar sem heitir Fontur.

Norðan í bjarginu, skammt frá vitanum, er Engelskagjá. Meðal margra skipskaða var strand ensks skips fryrir langa löngu. Áhöfn þess klöngraðist upp eftir þessari rauf, en urðu úti á leið til bæja af vosbúð nema skipstjórinn. Síðasta skipstrand varð árið 1907.

Lág fjöll og fell liggja norður eftir Langanesi, 200-400 m há. Gunnólfsvíkurfjall við Gunnólfsvík er hæst á þessu svæði, 719 m. Nálægt miðju nesinu er Eiðisskarð, sem sker fallgarðinn.

Vestan fjallanna eru mýrar, holt og melar. Þótt gróður sé með hálfgerðum heimsskautablæ, er nokkuð grösugt víða og gott til beitar. Veður verða oft válynd á Langanesi, en þar er fremum snjólétt. Á Langanesi hefur alltaf verið strjálbýlt og nú eru allar jarðir komnar í eyði. Þéttbýli fór að myndast að Skálum á síðari hluta 19. aldar og með aukinni útgerð fjölgaði íbúum í 117 árið 1924. Þarna varð löggiltur verzlunarstaður þegar árið 1895, þegar Þorsteinn Jónsson hóf þar verzlun og útgerð, sem færðist stöðugt í aukana.

Talið er, að milli 50 og 60 áraskip hafi verið gerð út, þegar mest var. Flestar minjar þessara verstöðva eru horfnar, nema húsgrunnar og gamall grafreitur. Skálabjarg er 103 m hátt fuglabjarg sunnan Skála. Að Eiði undir Heiðarfjalli var gerður hólmi í vatninu fyrir æðarfuglinn. Þar var fyrst verkaður súrþari til fóðurs.

Bandaríkjaher rak ratsjárstöð uppi á Heiðarfjalli (Kálfshvammshyrna 266m) 1954-68 og rústir hennar minna okkur á kaldastríðskaflann í sögu okkar. Önnur ratsjárstöð á vegum NATO var reist þarna uppi og hóf rekstur 1989.

Heiðarhöfn er grunnt og gott skipalægi innarlega á norðanverðu Langanesi. Þangað komu hollenzkir kaupmenn á skipum sínum. Hrognkelsaveiði úti fyrir. Jeppaslóð út á Font um Skoruvíkurbjarg, u.þ.b. 30 km leið.

Fuglaskoðarar ættu ekki að láta hjá líða að heimsækja fuglabjörgin á Langanesi. Auk lunda, langvíu, álku, teistu, fýls og ritu er þar einhver bezti staður á landinu til að skoða súlubyggð. Undir Skoruvíkurbjargi er stakur klettastapi, sem heitir Stórikarl og er eina súlubyggðin á þessum slóðum. Þar verður enginn fyrir vonbrigðum við skoðun þessa tignarlega fugls. Við Ytra-Lón er stórt kríuvarp og fuglinn er mjög árásargjarn á varptímanum.

Skoruvík er utan við bjargið og er yzti bær á Langanesi (í eyði). Þar var eitthvert mesta kríuvarp á landinu og reki mikill. Vegur, 4-5 km langur, var gerður frá Skoruvík austur yfir nesið að Skálum. Hann liggur um Vatnadal (þrjú vötn). Trékross var við veginn og á honum stóð: „Hér hvíla 11 enskir menn”. Þarna voru hinir ensku sjómenn, sem náðu ekki til bæja eftir skipstrand, grafnir. Frá Þórshöfn eru 38 km að Skoruvík og þaðan er sæmilegur jeppavegur, 10-12 km, út á Font.

Myndasafn

Í grennd

Bakkafjörður
Kauptúnið Höfn er yzt við Bakkafjörð austanverðan. Kauptúnið er yfirleitt nefnt Bakkafjörður og varð löggiltur verslunarstaður árið 1885. Atvinnulíf b…
Raufarhöfn
Raufarhöfn er kauptún á austanverðri Melrakkasléttu og hefur verið löggiltur verzlunarstaður frá 1836. Útgerð og fiskvinnsla eru uppistaða atvinnulífs…
Sögustaðir Norðurland
Ýmsir staðir tengdir sögu landshlutans Ábæjarkirkja Aðaldalur Akureyrarflugvöllur Akureyri Innbærinn Árbæjarkirkja Skaga…
Tjaldstæðið Þórshöfn
Miklir rekar eru á Langanesi, æðavarp og bjargfuglatekja. Mjög strjálbýlt er þarna og nú að mestu í eyði. Á Þórshöfn er góð þjónusta við ferðamenn og …
Veiði Norðurland
Stangveiði á Norðurlandi. Hér er listi yfir flestar laxveiðiár og silungsár og -vötn.  Laxveiði Norðurlandi vestra …
Þórshöfn
Þórshöfn á Langanesi fékk, eins og Raufarhöfn, löggildingu sem verzlunarstaður árið 1836. Gott skipalægi er þar frá náttúrunnar hendi og byggist atvin…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )