Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Þorskastríðin

Reykjavík höfn

ÞORSKASTRÍÐIN
Þriðja varðskipið, sem bar nafnið Þór, kom til landsins árið 1951. Það var smíðað í Álaborg í Danmörku   sama ár, en yfirbyggingu var breytt nokkuð 1972. Skipið sem var flaggskip Landhelgisgæslunnar í áratug er 693 brúttótonn og gengur 18 sjómílur. Þór var við landhelgisgæzlu, björgunarstörf, fiskirannsóknir og fleiri störf á vegum Gæzlunnar. Hann tók þátt í öllum þorskastríðum Íslendinga og Breta.

Breytingar voru gerðar á skipinu í Álaborg árið 1972, m.a. var skipt um vélar og yfirbyggingunni breytt. Árið 1982 var Þór lagt vegna vélarbilunar og síðan seldur Slysavarnarfélagi Íslands sem þjálfunar- og skólaskip árið 1985. Sama ár var Slysavarnarskóli sjómanna stofnaður til að sinna öryggisfræðslu og var varðskipið í lykilhlutverki í því starfi frá upphafi.

Skipið fékk nýtt nafn, Sæbjörg, og þjónaði sem þjálfunar- og skólaskip til ársins 1998. Markmið Slysavarnaskólans er að efla öryggisfræðslu sjómanna og helztu verkefni hans eru námskeið fyrir sjómenn á far- og fiskiskipum, smábátasjómenn, hafnarstarfsmenn og ýmis önnur sérhæfð námskeið. Í september 1998 keypti síðan Arnar Sigurðsson skipið, eftir að Slysavarnarfélagið eignaðist nýtt skólaskip. Það var ferjan Akraborg, sem fékk nafnið Sæbjörg eins og forveri hennar.

Stofndagur Landhelgisgæslu Íslands er miðaður við 1. júlí 1926, en þá tók íslenzka ríkið við rekstri Þórs. Fljótlega markaði ríkisstjórnin þá stefnu að gæta ætti landhelginnar með þremur skipum og bættust þá varðskipin Óðinn og Ægir við skipakostinn.

Í heimsstyrjöldinni síðari var lítil þörf á gæzlu og því voru varðskipin leigð til fiskveiða- og fiskflutninga, farþegaflutninga og annarra starfa. Eftir stríð jukust veiðar erlendra fiskiskipa aftur og var þá bætt við skipakost gæzlunnar, sem auk landhelgisvörslu sinnti eyðingu tundurdufla.
Fyrstu árin heyrði Landhelgisgæslan undir dómsmálaráðuneytið en frá 1930-52 var hún rekin af Skipaútgerð ríkisins. Þá var hún gerð að sjálfstæðri ríkisstofnun. Árið 1955 eignaðist gæslan sína fyrstu flugvél og 1965 var fyrsta þyrlan tekin í notkun.

Starfsemi Landhelgisgæzlunnar hefur alla tíð verið mjög margbreytileg. Hún tók við rekstri vitaskipsins Árvakurs, stundaði fiskirannsóknir og jarðfræðirannsóknir í tengslum við Surtseyjargos.

Síðan landhelgin var færð út í 200 mílur hefur starfsemin þróast og breyst. Starfsmönnum ber lögum samkvæmt að halda uppi löggæslu og koma nauðstöddum til aðstoðar. Þótt erlend fiskiskip virði yfirleitt landhelgina þarf stöðugt að hafa eftirlit með þeim, auk þess sem varzla gagnvart íslenskum skipum verður sífellt flóknari vegna friðunar einstakra veiðisvæða.

Jafnframt þessu hefur Landhelgisgæslan eftirlit með búnaði fiskiskipa. Áhöfnum skipa er bjargað úr sjávarháska, veikir sjómenn sóttir og sjúkraflug er farið vegna óhappa sem eiga sér stað á landi. Landhelgisgæslan á orðið góðan flugflota sem er búinn ágætum lækningabúnaði.

ÞORSKASTRÍÐIN,
4 mílur – Deilurnar 1948-56


1948
5. apr. – Landgrunnslög samþykkt á Alþingi. Með lögunum marka Íslendingar heildarstefnu í hafréttarmálum og leggja lagalegan grunn að frekari framkvæmdum til verndar fiskstofninum.

1949.- Landhelgissamningi Breta og Dana frá 1901 sagt upp með tveggja ára fyrirvara.

1950
22. apr. – Gefin út reglugerð um fiskveiðilandhelgi úti fyrir Norðurlandi, frá Horni að Langanesi.

1951
20. okt. – Hið nýja varðskip Íslendinga, Þór, leggst að bryggju í Reykjavík.
18. des. – Alþjóðadómstóllinn í Haag kveður upp dóm um rétt Norðmanna til að ákvarða 4 mílna landhelgi. Dómurinn styrkir mjög stöðu Íslendinga.

1952
19. mars – Ólafur Thors, atvinnumálaráðherra, gefur út reglugerð um verndun fiskimiða umhverfis Ísland, samkvæmt landgrunnslögunum frá 1948. Allar botnvörpuveiðar eru bannaðar innan 4 mílna frá grunnlínum sem dregnar eru þvert fyrir flóa og firði.
15. maí – Reglugerðin um 4 mílna landhelgi gengur í gildi. Mótmæli berast frá stjórnum Bretlands, Frakklands, Hollands og Belgíu. Löndunarbann sett á íslenzkan fisk í Bretlandi.

1953
14. okt. – Löndunarbannið rofið og Ingólfur Arnarson landar fiski í Grimsby. Kaupandi er breskur maður, Dawson. Verslunar- og verðstríð brýst út milli hans og útgerðarmanna. Dawson tók við fjórum förmum.
31. des. – Ísland gerir hagkvæman fisksölusamning við Ráðstjórnarríkin (Rússland).

1956
20. ágúst – Þjóðréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna gerir að tillögu sinni að boða til alþjóðaráðstefnu 1958. Ályktunina má skilja þannig að heimilt sé að ákvarða 12 mílna landhelgi.
15. nóv. – Fjögurra ára fisklöndunardeila Breta og Íslendinga leyst og samningur gerður um landanir í Bretlandi.

ÞORSKASTRÍÐIN
12 mílur – átökin 1958-61

1957
12. apríl – Ráðstefna haldin í Reykjavík um aðgerðir í landhelgismálum.

1958
24. maí – Lúðvík Jósepsson sjávarútvegsráðherra tilkynnir samkomulag ríkisstjórnarinnar um útfærslu landhelginnar í 12 mílur.

30. júní – Sjávarútvegsráðherra undirritar reglugerð um 12 mílna landhelgi.

1. sept. – Reglugerðin gengur í gildi. Þrátt fyrir það halda breskir togarar áfram veiðum og njóta verndar breskra herskipa.

2. sept. – 9 skipsverjar á varðskipinu Þór teknir höndum og fluttir um borð í brezku freigátuna Eastbourne, er þeir hyggjast taka togarann Northern Foam. Múgur og margmenni safnast saman við Breska sendiráðið í Reykjavík.

4. sept. – Fjölmennur útifundur haldinn á Lækjartorgi þar sem bresku ofríki er mótmælt og hvatt til einurðar og festu í baráttunni fyrir rétti þjóðarinnar. Kínverska alþýðulýðveldið færir landhelgi sína úr 3 sjómílum í 12.

5. sept. – Skipherrann á herskipinu HMS Russel sakar skipherrann á Ægi um að hafa reynt að sigla herskipið niður.

13. sept. – Freigátan Eastbourne siglir inn á Faxaflóa í skjóli nætur og skýtur út árabáti. Íslensku varðskipsmönnunum er skipað að fara í bátinn og róa 2 sjómílur til lands.

12. nóv. – Enn kemur til átaka þegar Þór reynir að taka togarann Hackness. Skipherrann á HMS Russel hótar að sökkva varðskipinu.

1959
6. feb. – Eftir fjögurra daga stapp á miðunum tekst varðskipinu Þór að færa brezka togarann Valafell til hafnar. Breskt herskip tafði um hríð að hann yrði tekinn innan 4 mílna. Dómur kveður á um 74 þús. króna sekt og að afli og veiðarfæri verði gerð upptæk. Furðu vekur meðal Íslendinga hversu vægur dómurinn er.

1960
3. mars – Breskir togarar sýna yfirgang, er þeir toga yfir netatrossur báta í Ólafsvík og valda miklu tjóni.
14. mars – Til að bæta andrúmsloftið á hafréttarráðstefnunni sem hefst eftir 3 daga í Genf færa breskir togarar sig út fyrir landhelgina.

26. mars – Hafréttarráðstefnunni lýkur án samkomulags. Bretar senda herskip aftur á miðin.

30. apríl – Ríkisstjórn Íslands gefur upp sakir breskum togaraskipstjórum, sem uppvísir hafa orðið að landhelgisbrotum á tímabilinu 1. sept. 1958 til

29. apríl 1960.

1961
11. mars – Endi bundinn á þorskastríðið með samningi, sem hljóðar upp á að Bretar viðurkenna 12 mílna lögsögu en fá að veiða á ytri 6 mílunum á tilteknum tímum næstu þrjú ár.

ÞORSKASTRÍÐIN
50 mílur – Átökin 1972-73

1972
15. feb. – Alþingi samþykkir útfærslu fiskveiðilögsögunnar í 50 sjómílur.

17. ág. – Alþjóðadómstóllinn í Haag kveður upp úrskurð um að Íslendingar eigi ekki lögsögu milli 12 og 50 mílna. Ríkisstjórn Íslands mótmælir úrskurðinum og ákveður að hunsa hann.

1. sept. – Reglugerð um útfærslu fiskveiðilögsögunnar gengur í gildi. Brezkir togaraeigendur biðja um herskipavernd, en fá ekki. Þrjú vesturþýsk eftirlitsskip eru innan 50 mílnanna og eiga að koma í veg fyrir töku togaranna.

5. sept. – Togvíraklippum fyrst beitt. Ægir klippir á víra breska togarans Peter Scott. Skipverjar láta kolamola, járnbolta og brunaexi dynja á varðskipinu í hefndarskipi. Í deilunni var klippt alls 82 sinnum aftan úr togurum.

1973
18. maí – Bresku togaraskipstjórarnir fá nóg og neita að veiða innan 50 mílna án verndar herskipa. Breska ríkisstjórnin ákveður að senda freigátur á Íslandsmið. Ákvörðunin kemur á óvart þar sem samningaviðræður standa yfir. Íslenzk stjórnvöld neita að ræða við Breta og banna breskum herflugvélum að lenda á íslenskum flugvöllum.

23. maí – Þrjár breskar freigátur sigla inn fyrir 50 mílna mörkin – Lincoln, Plymouth og Cleopatra.

20. júní – Dráttarbáturinn Lloydsman gerir tilraun til að sigla á Óðinn norður af Vestfjörðum.

27. júlí – Á fundum í Genf eru miklar umræður um fiskveiðimál og vaxandi stuðningur við 200 mílna efnahagslögsögu.

29. ágúst – Átökin halda áfram að harðna. Banaslys verður er vélstjóri á Ægi fær raflost.
11. sept. – Ríkisstjórn Íslands tilkynnir Bretum að ef herskip og dráttarbátar sigli áfram á íslensk skip, verði stjórnmálasambandi slitið. Framkvæmdastjóri Nato á viðræður við íslenska og breska ráðherra og hvetur til að lausn verði fundin. Forsætisráðherra Bretlands lýsir yfir vilja til að leysa deiluna.

22. sept. – Íslendingar ná frumkvæði í áróðursstríðinu við Breta, eftir að kvikmyndatökumönnum sjónvarpsins er boðið í flug með gæsluvélinni Sýr. Sama dag siglir brezka freigátan Lincoln tvívegis á Ægi úti fyrir Norðfjarðarhorni og sýna myndir að hún þverbraut allar siglingareglur.

13. nóv. – Íslendingar og Bretar semja um vopnahlé og á Alþingi er samþykkt bráðabirgðasamkomulag sem gildir í 2 ár. Stærstu togarar Breta eru útilokaðir frá miðunum en aðrir togarar fá takmarkaðar veiðiheimildir. Lauk þar með deilunum.

ÞORSKASTRÍÐIN
200 mílur – Átökin 1975-76

1975
15. júlí – Matthías Bjarnason sjávarútvegsráðherra gefur út reglugerð um að fiskveiðilögsagan verði færð út í 200 mílur 15. okt., en þann 13. nóv. átti bráðabirgðasamningur við Breta frá því í 50 mílna deilunni að renna út. Brezkir útgerðarmenn mótmæla hástöfum og stjórn Vestur-Þýskalands og Efnahagsbandalag Evrópu láta í ljós óánægju.

15. okt. – Fiskveiðilögsagan færð út í 200 mílur.
16. nóv. – Þór sker á víra togarans Primella, fyrsta skiptið sem klippunum er beitt í deilunni.
17. nóv. – Samningaviðræður fara út um þúfur. Bretar senda dráttarbáta á íslenzku fiskimiðin.
25. nóv. – Samið við Vestur-Þjóðverja um takmarkaðar veiðiheimildir. Bretar senda þrjár freigátur á miðin.

6. des. – Dráttarbáturinn Euroman siglir á Þór, eftir að hann hafði klippt á víra togara.
10. des. – Þór og freigátan Falmouth eigast við í rúma klukkustund á Vopnafjarðargrunni.
11. des. – Þór skemmist talsvert við ásiglingar þriggja breskra dráttarbáta í mynni Seyðisfjarðar. Þeir linna ekki látunum fyrr en Þór skýtur kúluskoti í stef

1976
7. jan. – Freigátan Andromeda siglir harkalega á Þór. Mildi þykir að ekki urðu slys á mönnum, en skipið skemmdist nokkuð. Tveimur dögum síðar lendir Þór í enn alvarlegri átökum er herskipið Leander siglir á varðskipið af miklu afli eftir fjölmargar tilraunir.
11. jan. – Suðurnesjamenn loka herstöðvarhliðum á Keflavíkurflugvelli í mótmælaskyni við framferði herskipanna.

19. jan. – Ríkisstjórnin hótar að slíta stjórnmálasambandi við Bretland. Brezk stjórnvöld kalla herskip sín út fyrir 200 mílur og bjóða Geir Hallgrímssyni forsætisráðherra til viðræðna í London. Þær skila ekki árangri og 5. feb. halda bresk herskip aftur á miðin.

19. feb. – Stjórnmálasambandi við Bretland slitið. Fastaráð NATO fundar um málið.

6. maí – Mikil harka einkenndi deiluna. Freigátan Falmouth sigldi tvívegis af krafti á Tý.

23. maí – Fundahöld í Osló þar sem ráðherrar þjóðanna ræða hugsanlegt samkomulag.

Júní – Samkomulag um takmörkuð veiðiréttindi Breta í 6 mánuði. Eftir það mega þeir aðeins veiða innan 200 mílna með samþykki Íslands. Síðasta þorskastríðinu er lokið.

Helztu heimildir:
Atli Magnússon: Í kröppum sjó. Helgi Hallvarðsson skipherra segir frá sægörpum og svaðilförum. Örn og Örlygur 1992.
Björn Þorsteinsson: Tíu þorskastríð 1415-1976. Sögufélagið 1976.
Davíð Ólafsson: Saga landhelgismálsins. Baráttan fyrir stækkun fiskveiðilögsögunnar í 12 mílur. Sumarliði R. Ísleifsson bjó til prentunar.
Hið íslenska bókmenntafélag 1999.
Gilchrist, Andrew: Þorskastríð og hvernig á að tapa þeim: Endurminningar frá Íslandi 1957-1960. Þýðandi Jón O. Edwald. Almenna bókafélagið 1977.
Gils Guðmundsson: Slysavarnafélag Íslands 25 ára. Slysavarnafélag Íslands 1953.
Guðjón Arngrímsson: Landhelgisgæsla Íslands 1926-1996. Svipmyndir úr 70 ára sögu. Landhelgisgæsla Íslands 1996.
Gylfi Gröndal: Eldhress í heila öld. Eiríkur Kristófersson skipherra segir frá ævintýrum sínum og atburðum þessa heims og annars. Forlagið 1993.
Jón Eiríksson: Skipstjórar og skip. Skuggsjá 1971.
Sigurdór Sigurdórsson: Spaugsami spörfuglinn. Þröstur Sigtryggson skipherra segir frá. Örn og Örlygur 1987.
Sveinn Sæmundsson: Guðmundur skipherra Kærnested 1-2. Örn og Örlygur 1984-85.

Þorskastíðin á ensku

Myndasafn

Í grennd

Reykjavíkurflugvöllur
Vorið 1919 kom Rolf Zimsen, flugmaður og frændi borgarstjórnans Knud Zimsens, til landsins til að  aðstæður fyrir samgöngur í lofti á Íslandi. Honum l…
Reykjavíkurhöfn
Höfnin í Reykjavík Gamla höfnin, svonefnda, er innan Grandagarðs, Noðrurgarðs og Ingólfsgarðs og nær að Mýrargötu,   Geirsgötu og Tryggvagötu. Hún er…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )