Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Reykjavíkurhöfn

Reykjavík

Höfnin í Reykjavík

Gamla höfnin, svonefnda, er innan Grandagarðs, Noðrurgarðs og Ingólfsgarðs og nær að Mýrargötu,   Geirsgötu og Tryggvagötu. Hún er fyrsta varanlega höfnin, sem byggð var í Reykjavík (1913-1917) og náði á milli Örfiriseyjargranda og Arnarhólskletts. Líklega var landnámsjörðin nefnd eftir þessari vík, þótt sumir álíti, að eystri mörkin séu við Laugarnes.

Einokunarverzlunin var flutt úr Örfirisey til Reykjavíkur 1780 í Aðalstræti 2. Kaupmenn byggðu bryggjur á 19. öld sunnan verzlunarhúsa sinna við Hafnarstræti, þegar verzlun jókst. Bæjaryfirvöld gerðu ekkert í þessum málum fyrr en eftir 1850, þegar hafnsögumenn voru ráðnir til að tryggja öryggi sjófarenda. Sjómerki var sett upp við Akureyjarrif 1856 og hafnargjaldskrá tók gildi. Þá var ráðinn danskur verkfræðingur til að skoða aðstæður og gera tillögur um framkvæmdir. Kostnaður reyndis ofviða bolmagni bæjarins og aðeins gerðar minni háttar umbætur. Eftir 1860 var samið við kaupmenn um opinber afnot af bryggjum þeirra og bærinn greiddi fyrir þau. Bærinn lét byggja Steinbryggjuna 1884.

Skömmu eftir aldamótin hafði Einar Benediktsson stofnað hlutafélagið Höfn í Englandi með fjársterkum aðilum til að kosta hafnargerð við Skildinganes í Skerjafirði, sem reyndar var byrjað lítillega á. Þá hófst í raun samkeppni milli þeirra, sem studdu hafnargerð, þar sem Gamla höfnin er og Einarsmanna. Líklega hefur þessi samkeppni leitt til hraðari framkvæmda við Reykjavíkurhöfn en ella hefði orðið.

Árið 1911 samþykkti bæjarstjórn að ráðast í hafnargerð. Hún var byggð á tillögum Gabríels Smith, hafnarstjóra í Kristíaníu (Ósló), frá 1909. Danski hafnarverkfræðingurinn N.C. Monbergs gerði tilboð í verkið og því var tekið. Unnið var með stórvirkum tækjum á þess tíma mælikvarða, s.s. tveimur eimreiðum, sem drógu byggingarefni úr Skólavörðuholti og Öskjuhlíð á sporum niður að höfn. Fyrsta skipið lagðist að bryggju (Batteríisgarð) árið 1915.

Viðlegurými var bætt næstu áratugina og svæðið, þar sem Geirsgata og Tryggvagata eru nú var fyllt upp. Nokkuð stöðugt hefur verið unnið að uppfyllingum í Örfirisey og í áttina að Akurey og þar hefur skapast talsvert rými fyrir alls konar atvinnurekstur. Árið 1960 samþykkti bæjarstjórn að láta gera stóran hafnargarð frá Örfirisey út í Engey, því að veruleg stækkun hafnarinnar var talin nauðsynleg. Ekkert varð úr þessu verki en fram kom tillaga um hafnarsvæði í Viðeyjarsundi, sem var samþykkt. Þar hófust framkvæmdir 1960 og fyrsti áfanginn, í Vatnagörðum, var tekinn í notkun árið 1968. Við norðanverðan Ártúnshöfða var sementshöfn (möl og malbik) tilbúin sama árið og Holtabakki á árunum 1980-81. Smábátahöfn var gerð í Grafarvogi í tengslum við svokallað Bryggjuhverfi.

Við tilkomu hafna í Vatnagörðum, Kleppsvík og við Holtabakka fluttust vöruflutningar stærstu skipafélaganna frá Reykjavíkurhöfn og þar fara umsvif þeirra fram. Allar áætlanir um hafnarframkvæmdir í framtíðinni á höfuðborgarsvæðinu eru tengdar við Sundahöfn.

Hafnargerð hófst á Geldinganesi, þar sem mikið skarð var sprengt í það, en andstaðan gegn þessum framkvæmdum olli því, að hætt var við frekari aðgerðir í bili eða til framtíðar.

Árið 2005 hófust framkvæmdir og breytingar á skipulagi suðurhluta gömlu hafnarinnar í tenglum við íbúðabyggð á reitnum við Mýrargötu/Grandagarð og byggingu Tónlistar- og ráðstefnuhúss Harpan og hótels á reitnum á Austurbakka. Mörg gömul hús á báðum reitum eru horfin, s.s. Faxaskáli.

Önnur eimreiðanna
(Brét Eimreiðin Pionér er önnur tveggja eimreiða sem fluttar voru til landsins vegna hafnargerðarinnar í Reykjavík, árin 1913-17. Sú fyrri Minør kom til landsins í mars 1913 og fóru bæjarfulltrúar og aðrir gestir í fyrstu ferðina þann 17. apríl. Um sumarið kom Pionér til landsins og voru eimreiðarnar notaðar við flutning á möl og grjóti vegna gerðar hafnargarðanna tveggja. ),
sem voru notaðar við hafnargerðina er í eigu og umsjá Reykjavíkurhafnar en hin stendur innandyra í Árbæjarsafni.

Myndasafn

Í grennd

Harpan
Tónlistar- og ráðstefnuhúsið Harpan Á hafnarbakkanum þar sem Austurbugt og Ingólfsgarður mætast var reist tónlistar- og ráðstefnuhús sem þjóðin hafði…
Öskjuhlíð
Öskjuhlíðin (Perlan) er mikilvægur hlekkur í keðju opinna svæða, sem tengjast allt frá Tjörninni um Öskjuhlíð,  Elliðaárdal og upp í Heiðmörk. Þar er …
Reykjavík fleiri skoðunarverðir staðir
Aðalstræti er elsta gata Íslands. Hún er talin hafa verið sjávargata Víkurbænda frá suðurendanum niður í Grófarnaustið. Hún er talin hafa verið sjávar…
Reykjavíkurflugvöllur
Vorið 1919 kom Rolf Zimsen, flugmaður og frændi borgarstjórnans Knud Zimsens, til landsins til að  aðstæður fyrir samgöngur í lofti á Íslandi. Honum l…
Sögustaðir Höfuðborgarsvæðinu
Ýmsir staðir tengdir sögu svæðisins Akurey Alþingishúsið Bessastaðakirkja Bessastaðir – Álftanes …
Viðey
Viðey í Kollafirði Viðey er stærsta eyjan í Kollafirði, 1,7 km². Hæst liggur hún á Heljarkinn, 32 m.y.s. Hún er í tveimur hlutum, sem eru tengdir með…
Þorskastríðin
ÞORSKASTRÍÐIN Þriðja varðskipið, sem bar nafnið Þór, kom til landsins árið 1951. Það var smíðað í Álaborg í Danmörku   sama ár, en yfirbyggingu var b…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )