Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Öskjuhlíð

Öskjuhlíð

Öskjuhlíðin er mikilvægur hlekkur í keðju opinna svæða, sem tengjast allt frá Tjörninni um Öskjuhlíð,  Elliðaárdal og upp í Heiðmörk. Þar er að finna fjölbreytta jarðsögu seinni hluta ísaldar.

Öskjuhlíð var eyja við hærri sjávarstöðu fyrir u.þ.b. tíuþúsund árum. Þess sjást merki í 43 m hæð yfir sjó í hlíðum Öskjuhlíðar, þveginn jökulruðningur og lábarðir hnullungar. Berggrunnur Öskjuhlíðar er hið svokallaða Reykjavíkurgrágrýti, allt að 70 m þykkt, sem varð til í eldgosum á Mosfellsheiði síðla á ísöld. Jöklar gengu yfir það og merki þeirra eru víða skýr, s.s. undir Fossvogslögunum.

Uppgræðsla hófst í Öskjuhlíð upp úr 1950 og nú er samfellt skóglendi í suður- og vesturhlíðunum. Einkum ber á birki, bergfuru, sitkagreni og alaskaösp. Tegundir háplantna hafa verið taldar 135 og 84 tegundir fugla hafa sézt og þar af eru 10 árvissir varpfuglar. Á undanförnum árum hefur kanínum brugðið fyrir í Öskjuhlíðinni. Líklega eru þær fóðraðar á veturna, ella lifðu þær ekki veturinn af. Þær leita yls við hitaveitustokkana, þegar kalt er. Feldlitur þeirra bendir til evrópskrar tegundar

Elztu sögulegar minjar tengjast búskap, þ.e.a.s. Víkurseli, sem var líklega sel frá landnámsbænum eða síðari Víkurbæjum. Lágvaxinn skógurinn var nýttur til eldiviðar. Elzta heimildin um seljabúskap er í máldaga frá 1379. Þar er selið sagt vera í Víkurholti. Í Skildinganesstekk voru ær mjólkaðar og lömbin höfð í lambakró. Leifar fjárbyrgis er líka að finna, en þar leitaði fé skjóls í vondum veðrum. Í vestanverðri hlíðinni er áberandi landamerkjasteinn með áletruninni: „Landemerki 1839”. Nauthóll er eitt margra býla, sem spruttu upp fyrir og eftur aldamótin 1900 og glögg merki sjást enn þá um hann. Einnig sjást merki um mótekju. Skólapiltar í Lærða skólanum komu gjarnan saman á stað í hlíðinni, sem þeir nefndu Beneventum, þegar þeir þurftu að ráða mikilvægum málum til lykta.

Efst á Öskjuhlíð, þar sem Perlan er, var þjóðhátíðarsvæðið, sem notað var, þegar Íslendingar fögnuðu 1000 ára afmæli Íslandsbyggðar árið 1874. Fleiri gamlar rústir er að finna í hlíðinni, en ekki hefur verið hægt að bera kennsl á þær allar. Hafnargerðin á árunum 1913-18 krafðist mikils efnis og merkin um grjótnámið í Öskjuhlíð sjást glöggt. Þaðan voru lögð spor vestur yfir Melana að Örfiriseyjargranda og um Norðurmýri að Battarísgarðinum. Hliðarspor lá frá Skólavörðuholti, þar sem var malarnám. Á árum síðari heimsstyrjaldarinnar var grjótnáminu haldið áfram fyrir bandamenn til ýmissa mannvirkja. Önnur eimreiðanna, sem voru notaðar við hafnargerðina er í eigu og umsjá Reykjavíkurhafnar en hin stendur innandyra í Árbæjarsafni.

Heiti lækurinn var mjög vinsæll dag og nótt, þar sem affallsvatn úr geymunum rann úr röri skamman spöl til sjávar. Fyrsti hitaveitugeymirinn var reistur árið 1940 og alls urðu þeir sjö. Þeir voru rifnir 1986-1987 og nýir reistir og síðan kom Perlan ofan á. Hún var opnuð 1991. Keiluhöllin í norðurhlíðinni er lítt áberandi, enda á einni hæð niðri í grjótnámunni. Ýmsar minjar frá stríðsárunum eru enn þá áberandi, s.s. þrjú skotbyrgi, stjórnbyrgi, víggrafir úr torfi og grjóti, loftvarnarbyrgi, varnarveggir fyrir eldsneytistanka, neðanjarðartankar, bryggjustubbur, veganet, fljöldi gólfa og grunna unda bröggum og öðrum byggingum, akstursbrautir fyrir flugvélar o.fl.

Nokkrir braggar standa enn þá við rætur Öskjuhlíðar. Gamli flugturninn er líka frá þessum tímum svo og flutningabúðirnar í Nauthólsvík, þar sem Flugbjörgunarsveitin var til húsa. Reykjavíkurflugvöllur og flugskýli, sem enn standa, eru vitaskuld mest áberandi stríðsminjarnar.

Göngustígar liggja vítt og breitt um Öskjuhlíð og stöðugt fjölgar fólki, sem nýtur útivistar í þessum yndisreit í hjarta höfuðborgarinnar. Öskjuhlíðin er hlekkur í kerfi gönguleiðar frá gamla miðbænum um Vatnsmýrina, Fossvogs- og Elliðaárdalinn að Elliðaárvatni og inn í Heiðmörk.

Sannir göngumenn skilja aðeins sporin sín eftir og taka aðeins með sér minningarnar!

Nánari upplýsingar er hægt að finna í sérhefti, sem heitir „Öskjuhlíð, náttúra og saga”. Árbæjarsafn og Borgarskipulag Reykjavíkur gáfu það út 1993.

Myndasafn

Í grend

Sögustaðir Höfuðborgarsvæðinu
Ýmsir staðir tengdir sögu svæðisins Bessastaðakirkja …

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )