Grenivík er kauptún í Grýtubakkahreppi austan Eyjafjarðar og norðan Dalsmynnis. Samkvæmt Landnámu nam maður að nafni Þormóður land á þessum slóðum. Kaldbakur er á aðra hönd en Þengilhöfði á hina og láglendið Höfðahverfi frá víkinni suður að Fnjóská er þéttbýlt og búsældarlegt. Ofan kauptúnsins er hólaþyrping gamalla ísaldarruðninga. Þegar á öðrum áratugi 20. aldar var komin byggð á Grenivík og 15-20 hús árið 1935. Þarna lifði fólk af sjó og landi en erfitt var um vik á veturna, því að hafnarskilyrði voru bág. Reynt var að reka lifrarbræðslu 1930-1940 en hún bar sig illa. Höfn var ekki gerð fyrr en árið 1965 og þá fjölgaði íbúum í kjölfarið. KEA rak sláturhús frá árinu 1916 og verzlun frá 1930. Grenivíkursókn er þjónað frá Laufási.
Dalsmynni tengir Eyjafjörð við Fnjóskadal skammt norðan Laufáss og sunnan Grenivíkur. Það er skarð, sem Fnjóská hefur breikkað og beggja vegna þess eru 800-1000 m há fjöll. Fossarnir í ánni voru gerðir laxgengir. Á veturna var Dalsmynni oft eina færa leiðin milli landshluta, en þó verður að gefa snjóflóðahættu gaum. Eftir Vaðlaheiðargöng er önnur leið milli landshluta.
Vegalendin frá Reykjavík er u.þ.b. 420 km.
og til Akureyrar 38 km.