Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Laufás

Prestssetrið og kirkjustaðurinn Laufás stendur sunnan við Dalsmynni, þar sem Fnjóská rennur til sjávar. Austan bæjar er Laufáshnjúkur og frá bæjarstæðinu er útsýni mikið og gott. Talsverð uppbygging varð á staðnum árin 1999 og 2000, m.a. var byggður nýtt prestssetur og hið gamla nýtt sem þjónustumiðstöð fyrir ferðamenn.
Laufás er einn þeirra mörgu staða í Suður-Þingeyjarsýslu, þar sem hafa fundizt kuml úr heiðni og má því ætlað að staðurinn hafi byggzt snemma á sögulegum tíma. Kenningar eru uppi um að þar hafi staðið hof Odds Ásólfssonar í Höfða og líklega hefur verið kirkja það frá fyrstu kristni. Margir merkir prestar hafa setið staðinn og hins fyrsta er getið árið 1047. Gamli bærinn í Laufási er mjög stílhreinn burstabær, sem er í umsjá þjóðminjavarðar. Elztu hlutar hans eru frá 1840. Það er óhjákvæmilegt að líta við á Laufási á leið sinni um Eyjafjörð.

Dalsmynni tengir Eyjafjörð við Fnjóskadal skammt norðan Laufáss og sunna Grenivíkur. Það er skarð, sem Fnjóská hefur breikkað og beggja vegna þess eru 800-1000 m há fjöll. Fossarnir í ánni voru gerðir laxgengir. Á veturna er Dalsmynni oft eina færa leiðin milli landshluta, en þó verður að gefa snjóflóðahættu gaum.Eftir Vaðlaheiðargöng er önnur leið milli landshluta.

LAUFÁSKIRKJA
Staðurinn Laufás kemur fljótt við sögu eftir að land byggðist. Kirkjur hafa staðið þar frá fyrstu kristni og voru helgaðar Pétri postula í katólskum sið. Núverandi kirkja var byggð 1865, 62 m² og rúmar 110 manns í sæti. Yfirsmiður var Tryggi Gunnarsson (Hallgilsstaðir, S.-Þing.) og verkstjóri og aðalsmiður Jóhann Bessason, bóndi að Skarði í Dalsmynni.

Meðal merkra gripa kirkjunnar er prédikunarstóllinn, sem ber ártalið 1698. Á honum eru útskornar myndir guðspjallamannanna fjögurra með Kristi konungi fyrir miðju með ríkiseplið í vinstri hendi. Fangamark séra Geirs Markússonar, sem var prestur í Laufási á þessum tíma, er efst á stólnum. Tryggvi Gunnarsson gróðursetti reynivið, sem stendur við austurgafl kirkjunnar á leiði foreldra hans. Séra Björn Halldórsson var aðalhvatamaður byggingar kirkjunnar 1865. Hann lét einnig byggja upp bæinn á árunum 1866-1870.

Gamli bærinn í Laufási, sem nú stendur og er í umsjá þjóðminjavarðar, var byggður um miðja 19. öld sem prestssetur. Elzta bæjarhúsið var reist um 1840. Séra Björn Halldórsson lét byggja við bæinn á árunum 1866-1870 og lagfæra gamla hlutann. Gamli bærinn í Laufási þykir mjög stílhreinn burstabær og er dæmigerður fyrir íslenzka bæjargerð en allmiklu stærri.

Algengt var að 20-30 manns byggju í Laufási, því margt vinnufólk þurfti tið að nytja jörðina, sem er mikil kostajörð, gróðursæl, með fiski í ánni og dúntekju við ströndina. Bærinn er nú varðveittur og opinn sem safn, samt ekki munasafn. Konur í Kvenfélaginu Hlín hafa safnað gömlum munum og áhöldum og gefið í bæinn, svo að gestir geti séð hvernig umhorfs var, þegar búið var í honum. Bærinn var endurbyggður 1956 og mikil viðhaldsvinna fór fram á árunum 1978-1980. Magnús Snæbjörnsson, bóndi á Syðri-Grund sá um þær framkvæmdir.

Síðasti prestur, sem bjó í bænum, séra Þorvarður Þormar, flutti árið 1936 í prestssetrið, sem nú er gestastofa, og síðan hefur ekki verið búið í bænum. Gamli bærinn í Laufási er opinn alla daga kl. 10:00-18:00 frá 1. júní til 15. september.

Myndasafn

Í grennd

Akureyri
Akureyri er stærsti kaupstaður landsins utan höfuðborgarsvæðisins. Þessi fallegi bær kúrir í fallegum  ramma innst í Eyjafirði vestanverðum og einhver…
Dalsmynni
Dalsmynni er dalur á Norðurlandi sem tengir Eyjafjörð við Fnjóskadal. Dalsmynni er norðvestan hans og rennur Fnjóská þar í gegn til sjávar. Snjóflóð e…
Fnjóskadalur
Fnjóskadalur (stundum kallaður Hnjóskadalur áður fyrr) er mikill dalur í Suður-Þingeyjarsýslu. Hann dregur nafn af svokölluðum „fnjóskum“, sem eru „þu…
Grenivík
Grenivík er kauptún í Grýtubakkahreppi austan Eyjafjarðar og norðan Dalsmynnis. Samkvæmt Landnámu nam maður að nafni Þormóður land á þessum slóðum. Ka…
Húsavík
Húsavík er kaupstaður við innanverðan Skjálfanda að austanverðu. Fiskvinnsla og útgerð hefur verið ein  af stoðum atvinnulífisins ásamt með verslun og…
Laufáskirkja
Laufáskirkja er í Laufásprestakalli í Þingeyjarprófastsdæmi. Staðurinn Laufás kemur fljótt við sögu eftir   land byggðist. Kirkjur hafa staðið þar frá…
Torfbæir og torfkirkjur
Nokkrir torfbæir á landinu Íslenski torfbærinn á sér sögu sem einstæð er í heiminum og er ekki rannsökuð til fulls. Torfbærinn er í raun þyrping húsa…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )