Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Fuglar Íslands

Fuglar

Ísland státar ekki af fjölskrúðugri varpfuglafánu. Hér hafa sézt u.þ.b. 330 tegundir fugla, u.þ.b. 85 þeirra eru varpfuglar eða hafa reynt varp og u.þ.b. 12 eru vetrargestir eða reglulegir flækingar. Hinar tegundirnar koma hingað fyrir tilviljun eða eru óreglubundnir gestir, aðallega spörfuglar frá Evrópu. Fjöldi varpfuglategunda er lítill miðað við önnur Evrópulönd, en einstaklingafjöldi sumra tegunda er slíkur, að hann gerir meira en að jafna út mismuninn (Lundi, langvía, stuttnefja). Margar tegundir tóku sér búsetu hérlendis á 20. öldinni, s.s. skeiðönd, skúfönd, toppönd, sílamávur, síldarmávur, hettumávur, brandugla og stari.

Margar tegundir hafa reynt landnám án verulegs árangurs, s.s. blesönd, vepja, svala, gráþröstur o.fl. Það er óhætt að fullyrða, að landið er langt í frá fullnumið í dýrafræðilegum skilningi miðað við núverandi og jafnvel hlýnandi loftslag. Margar hinna algengu fuglategunda eins og stokkönd, lóa, sandlóa, spói, stelkur, hrossagaukur, svartbakur, hettumávur, kría, þúfutittlingur, steindepill og hrafn finnast um allt land, nema e.t.v. á hálendinu. Aukin skógrækt víða um land laðar til sín ýmsar tegundir fugla, sem ella fyndust ekki á landinu, og líklega á spörfuglategundum eftir að fjölga eftir því sem skóglendi stækka.

Bezti tíminn til fuglaskoðunar hérlendis er seinni hluti maí og fyrstu þrjár vikurnar í júní. Flestir varpfuglar landsins eru farfuglar, sem yfirgefa landið mismunandi snemma eða seint, og sumir vetrargestanna koma þegar í ágúst. Spörfuglar sjást einkum í Reykjavík og öðrum þéttbýlum svæðum á landinu. Lítill hluti þrastarstofnsins á hér vetursetu og þá eru auðnutittlingar talsvert áberandi. Músarindillinn sést oft við sjávarsíðuna og í Reykjavík. Þúsundir snjótittlinga sækja í byggð á veturna og oft eltir smyrillinn þá þangað. Fálkinn sést oft við ströndina á veturna og líka í bæjum, einkum þegar rjúpnastofninn er í lægð. Grá- og svartþrestir eru algengir vetrargestir og hrafninn er áberandi á sama tíma í byggð.

Sílamávurinn er eina mávategundin, sem hverfur algerlega á veturna. Hann flýgur suður í oktober og nóvember, þegar bjartmávurinn kemur frá varpstöðvunum á Vestur-Grænlandi. Vaðfuglar, sem þrauka hér veturinn, eru aðallega á suðvestur- og suðausturströndinni, en sendlingurinn er algengastur þeirra. Tildra og tjaldur eru mjög algengir vetrarfuglar á höfuðborgarsvæðinu. Hrossagaukur, rauðbrystingur og sanderla eru sjaldgæfari á veturna. Fjöruspói, lappajaðrakan og rúkragi eru meðal reglulegra vetrargesta og grálóa sést hér um bil árlega. Himbrimi og lómur halda sig aðallega á sjó fyrir sunnan land á veturna. Margar andategundir eru farfuglar en æ fleiri hafa hér líka vetursetu, s.s. urtönd, rauðhöfðaönd, duggönd og skúfönd, sem sést árlega við Reykjanes. Húsöndin er staðfugl og hávellan er algeng á sjónum umhverfis landið á veturna. Straumöndin heldur sig aðallega á sjónum á veturna, helzt í úfnum sjó. Æðarfuglinn er all umhverfis landið árið um kring.

Vissir þú að lundinn sest up á sama tíma 15 mai, þegar krían kemur til landsins og að krían fer á sama tíma 15 Ágúst, þegar lundinn yfirgefur varpstöðvar sínar á Íslandi !!

Fuglar í landshlutunum:

Fuglar Austurland
Fýll

Fuglar Hálendið
Fuglar á Íslandi


Fuglar Norðurland


Fuglar Suðurland


Fuglar Suðvesturlands


Fuglar Vestfirðir – Strandir


Fuglar Vesturlands



Myndasafn

Í grennd

Flóra Íslands
Íslenska flóran er fátækari en tilefni er til. Loftslag og lega landsins eru hagstæð fleiri tegundum. Talið  er, að tegundafjöldi háplantna sé í nánd …
Íslensku Húsdýrin
Ísland státar ekki af mörgum tegundum villtra dýra miðað við mörg önnur lönd og álfur. Landið er og hefur verið einangrað og einkum vettvangur fugla o…
Villt spendýr
Ísland státar ekki af mörgum tegundum villtra dýra miðað við mörg önnur lönd og álfur. Landið er og hefur verið einangrað og einkum vettvangur fugla o…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )