Stærstu varpstöðvar skúmsins á norðurhveli jarðar eru á söndum Suðurlands, einkum á Breiðamerkursandi. Þar eru líka varpstöðvar kjóa og svartbaks. Ingólfshöfði er athvarf margra fuglategunda og þar er meira um langvíu en stuttnefju í björgunum. Öræfin eru þekkt fyrir fjölda flækingstegunda. Vestan þessara miklu sanda er Meðallandið með stór mýrarsvæði, þar sem keldusvínið átti sitt síðasta vígi. Við Vík eru nokkrar varpstöðvar lunda í grasi grónum hlíðum Reynisfjalls. Þar mun sílamávur fyrst hafa orpið 1929 og síðan breiðzt út til vesturs.
Dyrhólaey er griðastaður svartbaks, sílamávs, silfurmávs og súla hefur orpið á klettunum sunnan hennar. Talsvert æðar- og kríuvarp er á eyjunni, sem er lokuð bílaumferð um varptímann. Í björgunum er Lundi, langvía, stuttnefja, fýll og rita.
Vestmannaeyjar hýsa allar þessar fuglategundir, nema e.t.v. æðarfuglinn, og þar er eina vígi skrofunnar, sjósvölunnar og stormsvölunnar. Talsverð súluvörp eru a.m.k. á fjórum eyjanna. Á Suðurlandsundirlendinu er jaðrakan útbreidd og fjöldi bles- og heiðagæsa í Landeyjum á haustin. Grágæs verpir vítt og breitt og við árósa eru ýmsar mávategundir og strandfuglar.