Eldgjá er u.þ.b. 40 km löng gossprunga norður frá Mýrdalsjökli að Gjátindi og norðan hans má rekja hana að Uxatindum. Hún er einstakt náttúrufyrirbæri, sem talið er hafa myndast í stórgosi í kringum árið 934. Hún er víða 600 m breið og allt að 200 m djúp. Hraunin, sem runnu frá henni eru talin þekja 700 km², sem er mesta flatarmál hrauns á sögulegum tíma á landinu. Það teygist niður í Álftaver til sjávar.
Nú eru uppi kenningar um, að afleiðinga þessa stórgoss hafi gætt í Evrópu og Miðausturlöndum, þar sem uppskerubrestur, pestir og hörmungar komu í kjölfarið. Þessar ályktanir eru byggðar á nýfundnum heimildum frá sama tíma. Þetta gos olli líklega mun meiri óáran en Lakagígagosið 1783-84, sem sumir telja til orsaka frönsku stjórnarbyltingarinnar árið 1789.
Þegar komið er niður af Herðubreiðarhálsi, er hægt að aka nokkurn spöl til vinstri inn í Eldgjá og ganga þaðan að Ófærufossi.
Steinboginn, sem lá yfir ána í miðjum vesturhlíðum gjárinnar hrundi árið 1993. Vegur liggur upp á austurbarm Eldgjár. Til að komast þangað þarf að aka Nyrði-Ófæru á vaði, sem getur verið varasamt. Óhætt er að mæla með göngu upp á Gjátind, þaðan sem útsýni er frábær yfir Eldgjá, til fjalla við Langasjó og Síðuafrétt með Lakagígum.
Ófæra. Nyrðri- og Syðri-Ófæra falla báðar í Skaftá úr Eldgjá. Hin nyrðri kemur upp í Blautulónum, norðan undan Skælingum. Fyrst rennur hún um breiðar leirur og svo ofan í Eldgjá í tveimur fallegum fossum. Svo liggur leið hennar suður Elgjá og út um skarð til Skaftár. Hin syðri á upptök sín í Ófærudal austan Torfajökuls. Út úr Eldgjá fellur hún í miklu gili, Hánípugili, með fögrum fossi niður á Hánípufit og í Skaftá. Þessar ár verða ekki vatnsmiklar nema í miklum leysingum og vatnavöxtum.
Óhætt að fullyrða, að þessi landshluti lætur engan sem um hann fer, ósnortinn.
Fjallaskálar Útivist:
Utivist Alftavotn hut
Utivist Mountain Hut Skaelingar
Utivist Mountain hut Strutur
Utivist Mountain Hut Sveinstindur
Utivist Mountain Hut – Dalakofinn