Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Atlantshafið

Ýmiss fróðleikur um Atlantshafið

Atlantshafið þekur næstum fimmtung jarðar og skilur að meginlönd Evrópu og Afríku í austri og Norður- og Suður-Ameríku í vestri. Nafn hafsins er komið úr grískri goðafræði, Haf Atlas, og það er næststærst heimshafanna á eftir Kyrrahafi. Flatarmál þess 82.440.000 km² án innhafa en með þeim 106.460.000 km². Meðaldýpi þess er 3300 m og mesta dýpi 8380 m í Puerto Rico-álnum norðan eyjarinnar. Breidd þess frá austri til vesturs er misjöfn. Milli Nýfundnalands og Írlands eru 3403 km en sunnar breikkar það í rúmlega 5000 km áður en það mjókkar á ný, þannig að vegalengdin milli Sao Roque-höfða í Brasilíu og Palmashöfða í Líberíu er 2924 km. Það breikkar aftur sunnar, þannig að vegalengdin milli Hornhöfða og Góðrarvonarhöfða er rúmlega 6600 km.
Stæstu eyjar:
1. Bretland
2. Ísland

Ekkert annað haf í heimi tekur við meira vatni frá meginlöndunum, því að mörg meginfljót heimsins renna til þess (St Lawrence, Missisippi, Orinoco, Amasón, Río de la Plata, Kongó, Níger, Loire, Rín, Elba og stórárnar, sem renna til Miðjarðarhafs, Eystrasalts og Svartahafs). Á Norður-Atlantshafi eru mun fleiri eyjar en í suðurhlutanum og strandlengjurnar meðfram norðurhlutanum eru mun fjölbreyttari en með suðurhlutanum. Norðurhlutin tengist innhöfunum, s.s. Karíbahafi með Mexíkóflóa, St Lawrensflóa, Hudson- og Baffinflóa í vestri og Eystrasalti, Norðursjó, Miðjarðarhafi og Svartahafi í austri.

Norður- og suðurmörk hafsins eru óljós. Nyrzt er Íshafið, sem er oftast talið vera hluti Atlantshafs. Mörk suðurhlutans eru ekki eins óskýr, þótt nafnið Suðurhöf skjóti upp kollinum í kringum Suðurheimskautið. Lína á milli Agulhas-höfða í Afríku eftir 20°A til Suðurskautslandsins er víðast viðurkennd og að vestanverðu liggur lína um Drake-sund milli Hornhöfða og enda Suðurskautslandsins.

Landslag hafsbotnsins. Mest áberandi einkenni botnslandslagsins er Atlantshafshryggurinn, sem liggur eftir hafinu endilöngu frá norðri til suðurs og nær yfir þriðjung botnsvæðisins. Sums staðar er hryggurinn ofansjávar. Azores-eyjar, Ascension, Saint Helena, Tristran da Cunha, Gough og Bouvet eru allar eldfjallaeyjar, sem rísa út frá hryggnum. Ísland, sem er á honum miðjum, er hæsti punktur hans. Austan og vestan hryggjarins eru 3600-5500 m djúp hafsvæði, þar sem hluti botnsins er fjöllóttur en aðrir hlutar hans rennisléttir. Stór og forn eldfjöll standa þar sjálfstæð eða í röðum. Því nær sem dregur meginlöndinum tekur við hæðóttur botn og síðan bratti upp á landgrunnið. Karíbaeyjar og Suður-Samlokueyjar mynda stóra og óstöðuga eyjaboga, þar sem Atlantshafið er dýpst í hlíðarbröttum álum og trogum.

Eyjar. Meðal eyja, sem eru ekki á sömu undirstöðum og meginlöndin báðum megin hafsins, heldur á eldvirkni, eru Ísland (Surtsey), Azoreeyjar, Ascension, Saint Helena, Tristan da Cunha og Bouvet (54°26’S) og Noronha (nærri Sao Roque-höfða). Eldvirkar eyjar af annarri tegund eru eyjabogarnir miklu Minni-Antilleeyjar og Suður-Samlokueyjar. Eyjarnar Stóru-Antilleeyjar í Karíbahafi og Suður-Georgia og Suður-Orkneyjar í Skotlandshafi. Bretlandseyjar eru meginlandseyjar austanhafs og Nýfundnaland og Falklandseyjar vestanhafs.

Jarðfræði (Ísland.). Atlantshafið er yngst heimshafanna. Uppruni þess og þróun eru skýrð með kenningum um landrek og flekahreyfingar. Samkvæmt þeim byrjaði gríðarstórt meginland, Pangaea, að brotna upp fyrir u.þ.b. 180 miljónum ára. Landrekið opnaði sístæk kandi bil milli nýrra meginlanda, sem færðust til austurs og vesturs (Evróasía, Afríka og Ameríka). Landrekskenninging þykir æ vænlegri eftir því sem atburðum og rannsóknum á Atlantshafshryggnum, sem skjóta stoðum undir hana fjölgar.

Mestur hluti botns Atlantahafsins er þakinn kalkkenndu seti. Fyrir neðan 5000 m dýpi dregur úr magni kalkkolefnis og rautt, leirkennt efni eykst. Fínkorna efni er óverulegt á neðansjávarhryggjum og mest ber á lífrænu seti skeldýra (pteropod gastropod). Á syðstu breiddargráðum ber mest á kísilgúrseti, sem lítið ber á á norðurslóðum (ólíkt Kyrrahafinu). Í kringum 2/5 hlutar botnsins er þakinn kalkkenndra, örsmárra skeldýra, globigerina o.fl. Fjórðungur botnsins er þakinn sandi og afgangurinn grjóti, möl og skeljum. Mikið magn fíngerðs efnis, sem aflandsvindar bera frá eyðimerkursvæðum álfunnar, er í hafinu fyrir vesturstönd Afríku. Á norðlægum slóðum ber talsvert á stóru og smáu grjóti, sem borgarís ber með sér.

Eftir síðari heimsstyrjöldina hefur borkjörnum setlaga, allt að 20 m löngum, verið safnað í Suður- og Norður-Atlantshafi. Þeir hafa skotið stoðum undir mikilvægi áhrifa gruggugra strauma, s.s. af völdum náttúruhamfara (jökulhlaup í kjölfar eldgosa undir jökli o.þ.h.). Eftir ísaldarlok hafa þessir gruggstraumar hafa þeir verið fremur fátíðir, svo að víða eru eldri lög þeirra þakin nokkurra sentimetra þykku lagi djúpsjávardýra. Rannsóknir skeljalaga borkjarnanna hafa leitt í ljós loftlagsbreytingar, ísaldir og hlýskeið milli þeirra síðustu tveggja miljóna ára. Á sjöunda áratugi 20. aldar tókst að bora til botns setlaga Atlantshafsins. Dýpstu borkjarnarnir leiddu í ljós, að þeir mynduðust fyrir 245-66,5 miljónum ára (Mesozoic). Aldursákvarðanir eru byggðar á geislakolaaðferðinni og umpólun setlaga, sem gerist á nokkurra miljóna ára fresti, og þær gefa til kynna hraða setmyndunar djúpsjávardýra (1-2 sm á 1000 árum). Sums staðar er söfnunin meiri, þar sem straumiður hafa svipuð áhrif og skafrenningur eða áfok á landi.

Loftslag Norður-Atlantshafið. Veðurlagið yfir Norður-Atlantshafi ræðst að mestu af ríkjandi vindáttum og loftmössum frá Norður-Ameríku. Á veturna bugðast vestanvindarnir í 3000-12.000 m hæð yfir Norður-Ameríku til norðurs fyrir áhrif frá Klettafjöllum og til suðurs yfir austurhluta álfunnar. Þessi landslagsáhrif opna köldum loftmössum frá Kanada og Alaska leið að Atlantshafsströndinni. Hitamunur er mikill milli heimskautsloftsins og hlýrra loftstrauma frá Kyrrahafi eða Mexíkóflóa og Golfstraumnum. Á þessu belti myndast lágþrýstisvæði (lægðir), sem skapa sterka hringvinda á leið sinni yfir Nýfundnaland og Ísland. Vöxtur og viðgangur þeirra byggist aðallega á hitamuninum, þannig að vetrarstormar eru kröftugri en sumarstormar. Þessar lægðir flytja hita, raka og hreyfiafl frá hitabeltinu og virka eins og loftræstikerfi fyrir hitabeltið. Þær er líka fóður, sem viðheldur vestanvindunum á miðlægum breiddargráðum. Þessi belti liggja 10° norðar á sumrin en á veturna yfir Norður-Atlantshafi.

Hitastig loftmassanna yfir austurströnd Norður-Ameríku er misjafnt á veturna, þannig að fjöldi, vöxtur og stefna vetraróveðra er mismunandi. Þessi óregla veldur því, að ókleift er að fella þetta veðurlag inn í meðaltalsreglu þessa beltis á jörðinni. Suma vetur eru stöðug háþrýsisvæði yfir Íslandi andstætt meginreglunni um lægðasvæðin þar, þannig að lægðir að vestan er þvingaðar á brautir inn í Davíðssund og yfir Asoreyjar. Þegar þetta gerist sneiða þær hjá reglulegri braut sinni yfir Evrópu og þangað berst ekki t hlýtt sjávarloft, sem veldur venjulega tiltölulega mildum vetrum og í staðinn streymir kalt loft frá heimskautssvæðunum og Síberíu suður yfir álfuna.

Kaldir loftstraumar frá vestanverðu Norður-Atlantshafi taka til sín mikinn hita úr hafinu á leið sinni. Þótt þessi hitaflutningurinn af þessum völdum sé mikill, þrefaldast hann vegna uppgufunar. Hitataps hafsins gætir þó lítt vegna sífelldrar endurnýjunar hlýsjávar með Golfstraumnum og öðrum sjávarstraumum. Heildaráhrif hita- og rakaaukningar fyrir ströndum Norður-Ameríku koma m.a. fram í vexti og viðgangi fellibylja.

Milli 151N og 30°N ríkja háþrýstisvæði og þar gætir ekki ofsaveðra. Á þessu belti í kringum jörðina mætast vestanvindar úr norðri og frá hitabeltinu í suðri, sem sökkva um 900 fet á dag og þéttast, þannig að veðrið er oft sólríkt og úrkomulaust. Sunnan þessa háþrýstibeltis blása stöðugir norðaustanvindar.

Þótt svæðin næst miðbaug á Noður-Atlantshafi séu að mestu lognsvæði, bregður fyrir undantekningum síðsumars og snemma hausts, þegar bylgjumunstur austanvinda kemur fyrir og veldur fellibyljum. Þeir vaxa vegna mikillar hitalosunar af völdum uppgufunar frá heitu hafinu, sem þéttist í mikil skúrabelti. Fellibyljir geta lifað í rúmlega eina viku og braut þeirra ræðst af háloftavindum. Þess vegna hreyfast þeir oftast sólarsinnis í kringum háþrýstisvæði í háþrýstibelti Norður-Atlantshafsins og inn í vestanvindabeltið, þar sem þeir fara yfir Ísland. Þeir hafa samt stundum valdið tjóni á Bretlandseyjum og jafnvel Asoreyjum, þegar háloftavindarnir bregða út af vananum.

Suður-Atlantshafið. Yfir Suður-Atlantshafi teygist vestanvindabeltið næstum alla leið til Suðurskautsins frá 40°S og háþrýstibeltið er á svæðinu í kringum 30°S. Þessi andsólarsinnis hringferill vindanna veldur staðvindunum norðan beltisins, þar sem hringrásin er öfug miðuð við norðurhvelið vegna Coriolis-lögmálsins (jarðsnúningsins). Suðaustan staðvindarnir mæta norðaustur staðvindunum í beltinu í kringum miðbaug, sem oft er nefnd lognbeltið. Þar er mikil úrkoma af völdum stígandi heits og raks lofts.

Líkt og yfir Norður-Atlantahafi er veðurlag í háþrýstibeltinu yfirleitt stöðugt og sólríkt en óstöðugt og vindasamt á hærri breiddargráðum vestanvindanna. Þessum óstöðugleika veldur mikill hitamunur kalds Suðurskautsins og hafinu umhverfis það fremur en andstæðurnar milli austurs og vesturs eins og á norðurhveli. Staðbundnar sveiflur í veðurlagi eiga sér stað bæði á norður- og suðurhveli. Einna sérstæðastareru fjölbreyttar skýjamyndanir í vestanvindabeltunum. Þær nærast stöðugt á stórum og kröftugum lægðasvæðum, þar sem hlýir og rakir loftmassar þéttast á braut sinni norður yfir kaldan sjó og hröðu sökki af völdum kalds lofts, sem blæs yfir hlýrri sjó. Miklir þokubakkar eru algengir á sumrin í grennd við Grand Bank, þegar hlýtt loft frá meginlandinu streymir yfir kaldan Labradorstrauminn.

Yfirborðsstraumar. Yfirborðsstraumar Atlantshafsins eru yfirleitt í samræmi við ríkjandi vindáttir en stýrast vitaskuld af strandlagi aðliggjandi meginlanda og eyja. Aðrir þættir, sem hafa áhrif á straumastefnur, eru uppgufun eða úrkoma, hitamunur hafsvæða, núningsmótstaða og snúningur jarðar.

Norður-Atlantshaf. Staðvindarnir, sem viðhalda nokkuð stöðugum straumi frá austri til vesturs, hafa aðhald frá uppsöfnun hlýs sjávar að norðanverðu. Mikið magn sjávar berst með þessum straumi inn í Karíbahafið og gegnum Yukatansund í Mexíkóflóa. Framhald hans, Flórídastraumur, fer um Flórídasundin. Þar sameinast hann á ný kvíslinni, Antillestraumnum, sem fer austan Antilleeyja og myndar Golfstrauminn fyrir austurströnd BNA. Golfstraumurinn liggur meðfram ströndinni að Hatterashöfða, þar sem hann fjarlægist hana og sveigir æ meira til austurs sunnan Grand Bank á 40°N. Þegar lengra kemur verður Golfstraumurinn nokkuð óljós. Hluti hans sveigir til suðurs og myndar hluta hringstraumanna í Saragossahafi (milli Vestur-Indía og Asoreyja), þar sem er yfirleitt rólegt í sjóinn. Lítið eitt kaldari sjór heldur áfram í átt að ströndum Evrópu undir nafninu Norður-Atlantshafsstraumurinn. Það litla, sem eftir er, heldur áfram alla leið að Spitzbergen.

Kaldur og saltlítill sjór streymir suður frá Íshafinu meðfram austurströnd Grænlands (Austur-Grænlandsstraumurinn), þar sem hann blandast smám saman hlýrri sjó að sunnan. Þessi straumur heldur áfram fyrir suðurodda Grænlands (Farvel-höfða) og upp með vesturströndinni, þar sem hann snýr við eftir að hafa tekið til sín kaldan sjó frá Baffinsflóa og streymir suður á bóginn sem Labradorstraumurinn. Sunnan Grand Bank, þar sem þessi kaldi sjór blandast Golfstraumnum, heldur hann áfram til austurs og blandast Atlantshafinu. Á veturna kólnar þessi blandaði sjór (35‰ saltur) enn kaldari sjó og verður 3°C. Þetta hitastig nægir til þess að þessi kaldi þéttist og sekkur til botns og streymir þar til suðurs. Svipað gerist norðan Íslands á veturna en þar er sjórinn nokkuð kaldari, –1°C. Hann sígur til botns í djúpu Noregshafinu en kemst ekki aftur norður vegna fyrirstöðu Íslands-Færeyja- og Íslands-Grælandshryggjanna. Eftir nokkra blöndun blandast þessi kaldi botnsjór Atlantshafinu.

Í suðausturhluta Norður-Atlantshafsins flæðir yfirborðssjór inn í Miðjarðarhafið um Gíbraltarsund og saltríkur botnsjór úr Miðjarðarhafinu um botn sundsins og dreifist vítt. Kanarístraumurinn kvíslast suður úr Norður-Atlantshafi og streymir til suðvesturs meðfram vesturströnd Norðvestur-Afríku. Sjávarhitinn er lágur meðfram Afríkuströndum vegna uppstreymis af völdum vestanvindanna fyrir ströndinni. Þessi sjór heldur áfram til vesturs, yfir suðurhluta Norður-Atlantshafsins sem hluti hins hlýja Norður-Miðbaugsstraums, sem snýr til norðvesturs sem Antillestraumurinn og lokar hringrásinni um Norður-Atlantshafið.

Suður-Atlantshafið. Straumakerfi Suður-Atlantshafsins eru að mörgu leyti líkt hinu norræna. Suðaustur staðvindarnir halda Suður-Miðbaugsstraumnum við. Hann streymir til vesturs, þar sem hann klofnar í tvær kvíslar. Önnur heldur áfram til norðurhvelsins og fer inn í Karíbahafið ásamt litlum hluta Norður-Miðbaugsstraumsins sem Guanastraumurinn og hin sveigir til suður sem Brasilíustraumurinn, veikburða mótpartur Golfstraumsins. Milli miðbaugsstraumanna og andstrauma þeirra í austri er Gíneustraumurinn. Sunnan háþrýstibeltisins, streymir Brasilíustraumurinn til austurs og verður að Suður-Atlantshafsstraumnum, sem síðan snýr í átt að miðbaug sem Benguela-straumurinn við Afríkuströnd. Hann er skýrar markaður en en mótpartur hans á norðurhveli, Kanarístraumurinn, og kaldari við ströndina, einnig vegna mikils uppstreymis. Sunnar flæðir Suðupólsstraumurinn inn í Atlantshafið um Drakesund, þaðan sem tvær kvíslar, Falklandsstrauminn (mótpartur Labradorstraumsins), sem streymir með austurströnd Argentínu, og aðalkvíslin heldur áfram til austurs inn í Indlandshaf.

Djúpstraumar. Djúp- og botnsjór Norður-Atlantshafsins verður til fyrir niðurstreymi yfirborðssjávar milli Íslands og Grænlands og í Labradorhafi, þaðan sem hann dreifist til suðurs. Á 1000-2000 m dýpi flæðir sjór út úr Miðjarðarhafi, dreifist og myndar hámarksseltu á vissu bili. Þegar fjær dregur Miðjarðarhafinu, dregur úr seltunni vegna blöndunar en merki um Miðjarðarhafssjóinn má finna allt suður á 40°S.

Botnsjórinn frá Suðurskautinu er –0,6°C og nær seltustiginu 34,6‰. Hitastig þessa sjávar er svo lágt, að þéttleiki hans er meiri en á dýpstu stöðum í norðurhlutanum. Þessi sjór flæðir norður að 40°N. Sjórinn fer að streyma niður við 50°S og færist til norðurs sem saltlítill sjór. Hluti hans fer líka suður fyrir miðbaug og merki um hann finnast við 20°N. Mikið magn þessa Suðurskautssjávar og sjávarmassanna norðar blandast djúpsjó Norður-Atlantshafsins og snýr aftur suður á bóginn, þar sem það streymir upp á bilinu 50°S-60°S. Með uppstreyminu berst gróðurnæring (þ.m.t. fosföt) til yfirborðsins. Þessi hringrás er meginástæðan fyrir hinu mikla dýralífi og frjósemi í Atlantshafinu. Djúpsjórinn er súrefnisríkur vegna hinnar hröðu hringrásar.

Sjávarföll Atlantshafsins hafa verið rannsökuð frá örófi alda. Miðaldamunkar skráðu þau við Englandsstrendur frá árinu 600 og skildu mætavel, að þau áttu skýringu í stöðu sólar og tungls. Notkun nútíma tækja til þessara og annarra skyldra mælinga hafa dýpkað skilning manna á þessu náttúrufyrirbæri.

Sjávarföllin í bugðóttu Atlantshafinu eru lík einni stöðugri bylgju, sem fer um hafsvæðið. Hraði, stefna, víddir og hegðun sjávarfallanna er háð mörgum flóknum þáttum, sem taka til lögunar strandlengju, landslagsins á sjávarbotni og vind- og straummunstra. Langalgengustu sjárvarföllin eru hin dægurskiptu, þ.e. flóð og fjara tvisvar á hverjum 24 klst. og 50 mínútum. Slík sjávarföll eiga sér stað meðfram allri austurstönd Atlantshafsins og víðast með ströndum Norður- og Suður-Ameríku. Blönduð sjávarföll, bæði einu sinni eða tvisvar á sólarhring, eru ríkjandi í Mexíkóflóa og Karíbahafi og sums staðar með ströndum Brasilíu og við Eldland, sums staðar í Miðjarðarhafi og meðfram ströndum Labrador. Einu staðirnir með hreinu 24 klst. og 50 mínútna bili flóðs og fjöru eru við Mexíkóflóa.

Sjávarfallabil og munstur á mismunandi stöðum í kringum Atlantshafið eru víða mjög afgerandi. Slík dæmi má t.d. finna í Fundy-flóa í Kanada, þar sem mismunurinn milli flóðs og fjöru er meiri en 12 metrar, og við Brittany-ströndina í Frakklandi, þar sem munurinn er tæplega 5 metrar. Við Miðjarðarhafið er munurinn innan við 1 metra.

Hitastig. Munurinn á yfirborðshita hafsins er nátengdur eðli straumanna. Miðbaugsstraumurinn flytur sjó til norðurs og suðurs, þegar hann kemur upp að ströndum Norður- og Suður-Ameríku, og þar er breitt belti hlýsjávar á yfirborðinu en mjótt fyrir strönd Afríku, þar sem Kanarí- og Benguela-straumarnir flytja kaldan sjó að miðbaug. Því er yfirborðssjórinn á beltunum 10°S-30°S og 10°N-30°N hlýrri fyrir austurströndunum en vesturströndunum en þetta snýst við á hærri breiddargráðum. Þessi umsnúningur er lítt merkjanlegur í Suður-Atlantshafinu, þar sem Falklandsstraumurinn flytur kaldan sjó upp að 30°S (25°S í ágúst), en áberandi í Norður-Atlantshafi. Þar flytur Labradorstraumurinn kaldan sjó suður að 40°N en Golfstraumurinn flytur hlýjan sjó meðfram Noregsströndum, þar sem hafnir eru íslausar á veturna allt að 71°N. Andstæðurnar milli Suður- og Norður-Atlantshafsins eru skyldar yfirborðsstraumunum, sem verða til vegna ríkjandi vindátta og landslags strandanna. Þar sem Falklandsstraumurinn blandast Brasilíustraumnum og Labradorstraumurinn blandast Golfstraumnum, breytis yfirborðshitinn hratt á skammri Vegalengd. Breytingin er mest áberandi við mót Golf- og Labradorstraumanna, sem eru kölluð „kaldi veggurinn”.

Í hitabeltinu er stjórnast yfirborðshitinn svo mjög af loftslagsþáttum, að hann er næstum hinn sami alls staðar á beltinu og hitamunar vegna strauma koma ekki fram. Slíkur munur er mjög skýr á u.þ.b. 200 m dýpi. Á 6°N-7°N er hann 10°C en á 20°N er hann 20°C á þessu dýpi. Þessi staðreynd þýðir þó ekki, að þessi kaldi sjór sé uppstreymi norðan miðbaugs. Hitadreifingin er nátengd tilveru miðbaugsstrauma. Þeir streyma til vesturs og hlýsjórinn er til hægri á norðurhveli og vinstri á suðurhveli.

Hitadreifing á meira dýpi kemur fram í tengslum við hringrásina, sem lýst er hér að framan. Í Norður-Atlantshafi lækkar hitinn smám saman niður að botni úr 5°C á tæplaga 1000 m dýpi í 2½°c við Botninn. Í Suður-Atlantshafi, allt að 40°S, lækkar hitinn í fyrstu að lágmarkinu á bilinu 1000-1300 m og hækkar síðan er neðar dregur og er orðinn 2°C-4°C á 2 km dýpi og lækkar síðan í 1°C við botninn, þar sem Suðurskautssjórinn tekur við. Sunnan 40°S er hitastigið stöðugt lágt og nærri Suðurskautinu er hitastigið neðan við frostmarka á stórum hafsvæðum

Selta. Yfirborðssjór í Atlantshafi er saltari en í nokkru öðru úthafi heims og fer upp í allt að 37‰ á breiddargráðunum 20°N-30°N. Dreifing seltunnar er líka tengd straumakerfinu en þar koma líka til skjalanna uppgufun og úrkoma. Seltustigið er mismunandi eftir hafsvæðum, þannig að það er hæst í Norður-Atlantshafinu að meðaltali, 35,5‰. Þennan mismun má m.a. rekja til mikillar uppgufunar í Miðjarðarhafinu og útflæðis mjög salts sjávar frá því, sem viðheldur háu seltustigi í N.-Atlantshafi. Við miðbaug er úrkoma talsverð og seltustigið í grennd við 35‰ en á 20°N-25°N og 20°S er uppgufunin miklu meiri en úrkoman, þannig að seltustigið fer talsvert yfir 37‰. Þegar norðar dregur, verður úrkoman meiri en uppgufunin og þar dregur því úr seltunni niður fyrir 34‰. Straumar koma líka við sögu. Þeir eru mun áhrifameiri í norðurhluta N.-Atlantshafsins, þar sem 35‰ saltur sjór berst með straumum til Spitzbergen á 78°N og Íshafssjór með innan við 34‰ seltu berst suður að 45°N fyrir ströndum Nýfundnalands. Norðan 40°N liggja jafnseltulínur næstum frá norðri til suðurs en sunnan 45°S liggja þær frá austri til vesturs. Selta innhafanna, sem tengjast úthafinu, fer líka eftir magni ferskvatns, sem rennur til þeirra. Miðjarðarhafið, sem fær tiltölulega lítið ferskvatn og mikið gufar upp úr, er mjög salt. Svartahaf og Eystrasalt, sem fá til sín verulegt magn ferskvatns, eru saltminni. Innri hluti Botníuflóa milli Svíþjóðar og Finnlands er nærri ferskur.

Efnahagsleg áhrif. Lífrænar auðlindir. Fjölbreyttur og frjósamur lífheimur Atlantshafsins byggist m.a. á lengd þess frá norðri til suðurs, tiltölulega stórum landgrunnum, hlutfallslega miklu ferskvatni, sem rennur til þess, og hringrásarkerfum. Lífheimurinn byggist að miklu leyti á plöntum (þörungum) og dýrum, sem eiga sér fáan líkan nema í Kyrrahafi. Mikið úrval þangtegunda dafnar vel á grunnsævi og landgrunnum, einkum í Norður-Atlantshafi. Meðal viðskiptalega mikilvægra þörunga er þangtegundin Laminaria, sem er ríkt af joði, pottösku og algin, írskur mosi (Chondrus crispus), sem inniheldur verkjaeyðandi efni (carrageen), og ætar tegundir eins og söl (Rhodymenia palmate) og „laver” (Porphyra). Einnig er mikið af flóaþara (Sargassum natans) í Sargassóhafi, sem er heimkynni fjölda skeldýra- og fisktegunda, sem ella finnast á strandsvæðum, og hrygingarsvæði efrópskra ferskvatnsálsins (Anguilla).

Uppstreymissvæði næringarríks djúpsjávar, einkum fyrir ströndum Vestur-Afríku, á Grand Bank-svæðinu við Nýfundnaland og umhverfis Ísland og fyrir ströndum suðaustanverðrar Suður-Ameríku og Suður-Afríku, eru rík af svifi, sem er uppistaða lífkeðju fisktegunda. Auðugustu svifsvæði heims eru í Norður-Atlantshafi. Svifframleiðsla er tiltölulega jöfn á miðbaugssvæðunum allt árið en þegar norðar dregur fer hún æ meira eftir sólskinsstundum og er því langmest á sumrin.

Atlantshafið er heimkynni fjölda svampategunda, anemóna, krabba, skeldýra og sjóskjaldbakna. Kóralrif eru aðallega í Karíbahafi og jafnast á engan hátt við þau, sem finnast í Kyrrahafinu hvað fjölbreytni dýralífs varðar. Sjávarspendýr í hitabeltinu eru aðallega höfrungar og sífækkandi manatí og vöðuselur í norðvesturhlutanum. Hvalir halda sig aðallega á kaldtempruðum og heimsskautasvæðum Suður-Atlantshafsins og margar tegundir færa sig nær miðbaug til að fæða afkvæmi sín.

Fiskveiðar. ( Þorskastríðin) Helstu fiskimið Atlantshafsins (rúmlega helmingur slíkra í heiminum) hafa löngum verið hin ríkustu og mest nýttu í öllum úthöfunum. Margar fisktegundir hafa verið nýttar til hins ítrasta í langan tíma og margir telja, að nokkrar lykiltegundirnar séu í hættu. Aflinn í Atlantshafinu hefur verið nokkuð stöðugur samtímis aukningu annars staðar og hlutfalls hans í heildarafla heimsins hefur minnkað í minna en þriðjung síðan um miðja 20. öldina.

Atlantshafið heldur áfram að gefa af sér miljónir tonna af fiski á ári til manneldis og iðnaðar. Næstum allur aflinn fæst á landgrunnum, aðallega næringarríkum svæðum, þar sem uppstreymis gætir. Meðal mikilvægustu tegundanna eru botnfiskategundir af þorskfiskaætt (Cadidae), þorskur og ýsa, auk humars, makríls o.fl. teg. Í Mexíkóflóa og á hitabeltissvæðum er uppistaða aflans rækja, skelfiskur og áll. Kolmunni, túnfiskur og sardína eru mikilvægar tegundir í Suður-Atlantshafi, þótt dregið hafi úr afla tveggja síðarnefndu tegundanna.

Margar þjóðir við Atlantshafið hafa gripið til verndunaraðgerða með takmörkuðum árangri, s.s. með kvótakerfum, tímabundinni lokun svæða og árstíðabundinni lokun svæða innan fiskveiði- og efnahagslögsögu ríkjanna (370 km).

Olíubirgðir. Miklar birgðri olíu og náttúrugass eru undir landgrunninu og hlíðum þess, fjallahryggjum og hásléttum og víða þar á milli. Magn þessara efna er gífurlegt. Tekjur ríkja, sem dæla upp olíu og gasi fyrir ströndum landa sinna eru miklar (Bretland, Noregur, BNA). Fyrsta leit að olíu í Atlantshafi fór fram í sjávarlóninu Maacaibo við Karíbahafið í Venesúela í fyrri heimsstyrjöldinni og síðan á fimmta áratugnum í Mexíkóflóa. Frekari rannsóknir víða í Atlantshafinu hafa leitt í ljós vinnanlegar birgðir olíu og gass. Flestar þessara birgða eru í setlögum landgrunnsins og í grennd við það. Þær eru aðallega í Mexíkóflóa (Louisiana og Texas) og Campecheflóa, Norðursjó, fyrir ströndum vestanverðrar Mið-Afríku (úti fyrir Nigeránni) og fyrir ströndum Gabon og Cabinda (Angóla) og austan Nýfundnalands og Nova Scotia.

Kol. Gifurlegar birgðir kola fundust í djúplögum undir Norðursjónum og meðfram hluta landgrunnsins. Eitthvað er unnið af kolum á sjávarbotni fyrir ströndum Cornwall í Bretlandi og Nova Scotia um göng frá landi.

Árset. Mikið er tekið af sandi, möl og skeljasafni á grunnsævi fyrir ströndum BNA og Bretlands. Þetta efni er notað til landfyllingar, byggingarframkvæmda og lögunar steinsteypu. Kalkríkur skeljasandur er tekinn fyrir ströndum Íslands og Bahamaeyja til sementsframleiðslu og jarðvegsbóta. Setlög með verðmætum málmum, málmgrýti (járn, tin, titanium og króm) og gimsteinum finnast fyrir suðausturströnd BNA, Wales, Brasilíu, Máritaníu og Namibíu. Nýting þessara náttúruauðæfa hefur verið ómarkviss. Demantar hafa verið teknir á grunnsævi fyrir strönd Namibíu og á sandströndunum sjálfum í grennd við ósa Orange-árinnar. Talsvert magn fosfats finnst víða við jaðar meginlandanna, Mestu birgðirnar eru líklega fyrir ströndum BNA, úti fyrir ósum Río de la Plata, milli Patagóníu og Falklandseyja og umhverfis syðsta odda Suður-Afríku. Brennisteinn er tekinn af sjávarbotni fyrir strönd Louisiana í Mexíkóflóa.

Djúpsjávarmálmar. Nokkur svæði sjávarbotnsins eru þakin rauðum leir og kísilleðju, sem eru aftur þakin smámálmhnúðum. Þeir eru aðallega úr járni og magnesium í sammiðja lögum, sem hafa myndast á miljónum ára. Þarna er líka kopar, nickel og kóbalt í minna magni. Mesta námusvæðið er talið vera á Sohm-sléttunni austan Bermuda í Norður-Atlantshafi, í Brasilíulægðinni fyrir ströndum Brasilíu og í Agulhaslægðinni sunnan Suður-Afríku í Suður-Atlantshafi. Þessi hnúðasveimar í Atlantshafinu eru minni um sig og ekki eins arðbærir og það, sem finnst í Kyrrahafinu. Ferromagnesíumhnúðar fundust fyrst í Atlantshafinu um miðja 19. öld en hafa ekki verið nýttir enn þá.

Jarðefni úr sjó. Salt (sodium chloride o.fl.) hefur verið unnið úr sjó með uppgufunaraðferðinni teinöldum saman við Atlantshafið og innhöf þess. Forn saltvinnslusvæði meðfram Miðjarðarhafi eru enn þá í notkun. Mesta afkastageta slíks svæðis er í Manaure í Kólumbíu. Einnig er bróm unnið meðfram norðvesturströnd Miðjarðarhafsins og magnesíum meðfram ströndum Mexíkóflóa í BNA og fyrir Noregsströndum. Ferskvatnsverksmiðjum hefur fjölgað með aukinni og bættri tækni við vinnsluna.

Önnur hagnýting. Íbúum stranda Atlantshafsins, einkum í Norður-Ameríku og Evrópu, hefur fjölgað jafnt og þétt og afþreyingarmöguleikum hefur fjölgað við ströndina (sjóstangaveiðar, siglingar, brettareið og hvalaskoðun). Samkeppni um aðstöðu fyrir slíka starfsemi hefur víða bitnað á hefðbundinni nýtingu sjávar og strandsvæða. Sjóstangaveiði er nú farin að vega þungt í aflabrögðum um miðbik Vestur-Atlantshafs og jafnvel talin ógna mikilvægum fiskistofnum. Lífsafkoma íbúa Karíbaeyja, Bermúda, Flórída Keys og Frönsku rívíerunnar byggist mikið á ferðaþjónustunni og afþreyingarmöguleikum.

Sjávarfallavirkjanir, bæði í tilraunaskyni og fullbúnar, hafa verið byggðar á hentugum stöðum, s.s. við árósa Severn-árinna í Bretlandi, við Fundy-flóa í Kanada og á Brittany-ströndinni í Frakklandi. Bent hefur verið á möguleika til raforkuframleiðslu með því að nýta hitamun efri og neðri sjávarlaga í hitabeltinu.

Viðskipti og samgöngur(Eiríkur rauði). Atlantshafið og innhöf þess hafa verið flutingaleiðir síðan siglingar hófust. Fyrstu heimildir um verzlunarferðir á sjó koma frá Egyptum, Fönikíumönnum, Grikkjum og Rómverjum. Stór hluti sögu vestrænnar siðmenningar síðan 1500 snýst um Atlantshafið, landnám Nýja heimsins, stöðugar tækniframfarir í siglingum og sífjölgandi ferðir yfir það. Fram að lokum síðari heimsstyrjaldarinnar fóru mestu fraktflutningar í heimi fram á Atlantshafi. Opnun Súez- og Panamaskurðanna, nýting olíulinda á hafsbotni í Persaflóa og vaxandi mikilvægi verzlunar við Kyrrahafið hafa dregið úr ferðum yfir Norður-Atlantshaf. Engu að síður krefjast hinir stóru markaðir í Evrópu og Norður-Ameríku mikillar umferðar flutningaskipa á þessum slóðum. Mikið er flutt af hráolíu, kolum, kornvöru, járngrýti og báxíti frá Venesúela, Brasilíu, Argentínu og Jamaica til iðnaðarsvæða í BNA, Kanada og Evrópu. Umferð fraktskipa í gagnstæða átt byggist aðallega á flutningi neyzluvöru, vélbúnaði og farartækjum, þótt BNA og Kanada flytji einnig mikið út af kornvöru, kolum og járngrýti. Gámaflutningar eru velskipulagðir milli hafna við Norður-Atlantshaf. Mestu flutningarnir fara um New York og Charleston (SC) í BNA og Rotterdam (Holl.) og Hamborg (Þ) í Evrópu.

Áhrif mannsins á umhverfið. Mengunar hefur ekki gætt í neinum verulegum mæli á úthöfunum en með ströndum fram, þar sem strauma gætir lítt eða ekki og byggð og iðnaður eru á ströndinni og utan árósa, er hún veruleg. Umræða um mengun sjávar er oft tengd losun, skipaferðum (olíumengun) og olíuborpöllum á landgrunninu, þótt vitað sé, að mesta mengunin kemur frá starfsemi á landi, s.s. lítt eða óhreinsuðu skolpi, iðnaði (þungmálmar) og landbúnaði (tilbúinn áburður og skordýraeitur). Augljósasta afleiðing mengunarinnar er á svæðum, sem eru mettuð köfnunarefni og fosfötum, því að þar verður offramleiðsla þörunga, sem síðan veldur súrefnisskorti í hafinu og dýralífið hverfur. Skordýraeitur (s.s. DDT) og stöðug efni (PCB) hafa mælzt niður á mikið dýpi í líffverum Atlantshafsins. Svo virðist sem minna af þessum efnum berist út í hafið nú en þau brotna afar hægt niður (einkum PCB) og tilhneiging þeirra til að safnast saman í hættulegu magni í æðri líffverum gerir þau mjög hættuleg þeim og mönnum, sem neyta þeirra. Mestrar mengunar gætir í Eystrasalti, Norðursjó og Ermasundi, Norður- og Austur-Miðjarðarhafi, við norðausturströnd BNA, utan Río de la Plata og suðausturströnd Brasilíu og fyrir norðurströnd Gíneuflóa.

Rannsóknir og könnun. Framfarir í fornleifarannsóknum styrkja kenningar margra vísindamanna um fjölda siglingaþjóða við Miðjarðarhafið og ferðir þeirra út á Atlantshafið fyrir árið 600 f.Kr. og lengri ferðir í kringum 545 e.Kr. Enn þá er samt deilt um þessa leiðangra fyrir tíma víkinga. Veruleg samstaða er um ferðir Egypta, kelta, Föníkumanna og Rómverja, sem stunduðu veiðar og verzlun með ströndum Vestur-Afríku og sigldu líklega alla leið til Grænlands, Karíbahafs og Mexíkóflóa. Samanlögð áhrif loftslagsbreytinga og stríðsástand heimafyrir ollu upphafi ferða víkinga í vesturátt á 8.-9.öld. Eftir nokkrar heimsóknir á Íslandi á 9. öld var Grænland kannað 982 og þar settist Eiríkur rauði að í kjölfarið. Svipaðir könnunarleiðangrar færðu Íslendinga nær Nýfundnalandi og Labrador og líklega alla leið til Maine.

Ferðir Evrópumanna og landnám. Saga landafunda og landnáms í Nýja heiminum hófst síðla á 15. öldinni fyrir Evrópumenn og stóð yfir í rúmlega tvær aldir. Ferðum yfir Atlantshafið fjölgaði með tímanum en þær hófust með uppgötvun Karíbahafsins og síðan stranda Norður- og Suður-Ameríku. Þarna voru á ferðinni Spánverjar, Portúgalar, Ítalar, Frakkar og Englendingar. Straumahringrás Atlantshafsins var nýtt til hins ítrasta í þessum ferðum og sæfararnir nýttu sér líka norðaustan staðvindana á vesturleið og vestanvindana og Golfstrauminn á heimleið.

Talið er að Leifur heppni hafi fæðst um árið 980 á Íslandi, sonur Eiríks rauða Þorvaldssonar og Þjóðhildar konu hans. Hann flutti með foreldrum sínum til Grænlands ungur að árum, ásamt bræðrum sínum, Þorvaldi og Þorsteini.

Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli er kennd við Leif heppna.

Í Bandaríkjunum er 9. október ár hvert kallaður Dagur Leifs Eiríkssonar, og er til að minnast Leifs heppna og landafunda norrænna manna í Vesturheimi

Í Grænlendinga sögu segir frá því að Leifur keypti skip Bjarna Herjólfssonar sem hafði áður villst til Norður-Ameríku, en steig ekki á land.

Um árið 1000 sigldi Leifur frá Grænlandi og kom fyrst að Hellulandi (líklega Baffinsland). Hann sigldi því næst sunnar og kemur nú að skógi vöxnu landi (Marklandi), líklega Labrador. Að lokum er talið að hann hafi komið til Nýfundnalands. Leifur nefndi það Vínland eftir að hann fann þar vínber. Einnig voru þar ár fullar af fiski og grasið grænt árið um kring. Á Vínlandi byggðu Leifur og fylgismenn hans nokkur hús og höfðust við yfir veturinn.

Á heimleiðinni til Grænlands bjargaði Leifur 15 skipsbrotsmönnum af skeri og fékk upp úr því nafngiftina ‚hinn heppni‘.

Árið 1492 sigldi Genúamaðurinn, Kristófer Kólumbus,(Ingjaldshóll) yfir Atlantshafið á vegum Spánverja til að finna siglingaleiðina til Austurlanda fjær. Þessi fyrirætlun mistókst og aðrir sæfarar, John Cabot, Ferdinand Magellan og Giovanni da Verrazzano, komust að því, hve siglingar yfir Atlantshafið voru flóknar og erfiðar og kynntust náttúru Nýja heimsins. Árið 1502 hófust fiskveiðar Englendinga, Frakka og Portúgala á Grand Banks-svæðinu fyrir ströndum Nýfundnalands. Þá þegar var hafin könnun strandlengjunnar frá núverandi Virginíufylki í BNA norður að Davíðssundi. Samtímis voru portúgalskir sæfarar undir forystu Bartolomeu Dias á leið suður að Góðrarvonarhöfða og kortlögðu alla vesturströnd Afríku. Þeir fundu siglingaleiðina milli Evrópu og Indlands. Árið 1520 fann Magellan sundið, sem ber nafn hans nú og tengir heimshöfin tvö, Kyrrahaf og Atlantshaf. Enski sæfarinn Francis Drake fann Hornhöfða syðst í Suður-Ameríku 1578 og góða skipaleið inn í Kyrrahaf. Könnun þessara svæða hraðaði landnámi og nýting náttúruauðlinda til lands og sjávar jókst.

Upphaf haffræðinnar. Grundvöllur fjölda könnunarferða og haffræðinnar eins og við þekkjum hana nú, var lagður í haffræðiskóla prinsins og sæfarans Henry í Sagre í Portúgal á 15. öld. Hann menntaði hundruð sjómanna og leiddi til þróunar í skipasmíði, líkana og siglingartækja. Skipulegar nútímarannsóknir Atlantshafsins hófust fyrir alvöru á 19. öld. Þær leiddu til þeirrar þekkingar, sem nútímamenn hafa á úthöfunum. Margar grófar rannsóknaraðferðir leiddu að vísu til rangra niðurstaðna og misskilnings á þessum tíma en voru þó í framfaraátt. Í kringum 1770 gerði Bandaríkjamaðurinn Benjamin Franklín fyrsta góða kortið af Golfstraumnum eftir upplýsingum, sem Timothy Folger safnaði frá póstskipum. Sjóliðsforinginn Matthew Fontaine Maury vann sleitulaust að útreikningum á vindum og straumum og kortlagningu sjávarbotnsins eftir 1840 og lagði grunninn að nútíma haffræði í BNA.

Upphaf símskeytasendinga og draumurinn um slíkt samband yfir hafið krafðist aukinnar þekkingar á bergmálsmælingum, straumum, landafræði og botnseti. Bresk og bandarísk flotaskip voru notuð til rannsókna til að gera þennan draum að veruleika. Fyrsti kapallinn var lagður með árangri 1866. ( Seyðisfjörður) Á árunum 1872-76 voru rannsóknir stundaðar frá HMS Challenger og niðurstöðurnar voru gefnar út í 50 bindum um strauma, dýpi, hitastig, setlög og tegundir plantna og dýra. Aðrir, sem lögðu sitt lóð á vogarskálarnar á þessum tíma voru Albert I af Mónakó og fjöldi Norðurlandabúa, s.s. Björn Helland-Hansen og V. Walfrid Ekman. Albert prins fjármagnaði flota hafrannsóknarskipa, sem leiddu til betri skilnings á straumakerfum Norður-Atlantshafsins og uppgötvunar margra tegunda fiska í djúpum hafsins.

Títanikslysið 1912 olli straumhvörfum í rannsóknum á ísreki og straumamunstri í Norður-Atlantshafi og hraðaði þróun fjarskipta og bergmálsmælinga og varð til þess, að alþjóðlegt íseftirlit var stofnað. Ítalinn Guglielmo Marconi kynnti uppfinningu sína, þráðlaust talsamband, í Evrópu og BNA á þessum árum. Hann notaði það árið 1899 til að útvarpa upplýsingum um Bandarísku bikarsiglingakeppnina utan af hafi. Árin 1925-27 fór þýzka rannsóknarskipið Meteor í fjölda ferða og kom Þýzkalandi í fremstu röð í hafrannsóknum. Skipið var á ferðinni um Suður-Atlantshafið og fór 14 ferðir yfir hafið og áhöfnin kortlagði sjávarbotninn með bergmálsmælingum og mæli seltu og hitadreifingu á mismunandi dýpi.

Nútímarannsóknir. Síðari heimsstyrjöldin jók áhuga á hafdjúpunum og leiddi til þess, að margar ríkisstjórnir eyddu meira fé til rannsókna. Eftir 1950 leiddu þær til uppgötvunar hryggjakerfanna, sem skutu stoðum undir landrekskenninguna og breytinga á segulsviði jarðar. Á áttunda áratugnum aflaði djúpsjávarborskipið Glomar Challenger upplýsinga, sem vörpuðu ljósi á myndun Atlantshafslægðarinnar. Notkun fjarstýrðra og mannaðra smákafbáta jók skilning á lífríki hafsins, þ.á.m. djúpsjávarlífinu, sem byggist á efnahvarfafæði.

Nútímafjarskipti milli heimsálfa byggjast á ljósleiðaraköplum á hafsbotni. Þessi tækni gefur byltingarkennda möguleika á rannsóknum á hljóðburði í hafinu og jarðfræði undirlaga sjávarbotnsins. Gervitungl gefa nú upplýsingar um hitastig og framleiðnimunstur hvar sem er í höfunum og finna hlýsjó, sem skilur sig frá Golfstraumnum og streymir inn á kaldari svæði. Rannsóknir beinast nú m.a. að eðli hringrásarinnar í hafinu, samspili sjávar og lofts og lífríkinu.

TSUNAMI
RISAFLÓÐBYLGJA:

Tsunami er japanskt heiti á risaflóðbylgju, sem jarðskjálftar á hafsbotni valda. Talið er, að þær myndist þegar misgengi myndast snögglega á botninum. Önnur tilgáta er tengd skyndilegum skriðuföllum á hafsbotni eða neðansjávargosum. Flestar risaflóðbylgjur myndast á svonefndum eldhring, sem er eldfjallabelti umhverfis Kyrrahafið. Alls hafa u.þ.b. 40 risaflóðbylgjur brotnað á Hawaii-eyjum síðan 1819 (2002). Þessar bylgjur geta farið yfir hundruð kílómetra hafsvæði og náð allt að 725 km hraða á klst. Á leiðinni geta þær verið í kringum 30-40 sm háar, en þegar þær koma upp á grunnsævi hækkað þær skyndilega upp í u.þ.b. 15 m og þurrka stundum út heilu byggðirnar á ströndinni og kosta fjölda mannslífa, komi þær fólkinu að óvörum. Oft eru þessar risaflóðbylgjur ranglega nefndar sjávarfallabylgjur, þótt þær séu á engan hátt tengdar flóði eða fjöru. Sjávarfallabylgjur geta engu að síður verið stórhættulegar við ákveðin skilyrði.

Heimshöfin

Ferðast og fræðast um Ísland

Myndasafn

Í grennd

Evrópa ferðast og fræðast
Íslendingar búa á mörkum hinnar landfræðilegu Norður-Ameríku og Evrópu sé hryggur Mið-Atlantshafsins notaður til viðmiðunar, enda er landið útvörður á…
Jarðfræði Íslands
Eyjar í Atlantshafi, sem orðið hafa til á rekás Atlantshafshryggjarins: Asoreyjar, Bermuda, Madeira, Kanaríeyjar, Ascension, St. Helena, Tristan da Cu…
Surtsey
Gosið, sem skapaði Surtsey og fleiri eyjar, er meðal lengstu sögulegu gosa hérlendis. Þess varð fyrst vart snemma morguns 14. nóvember 1963 u.þ.b. 18 …
Vestmannaeyjar, Ferðast og Fræðast
Vestmannaeyjar - perlan í hafinu - eru eyjaklasi suður af landinu. Eyjarnar eru 15 eða 16. Surtsey er syðst en Elliðaey nyrzt. Surtsey varð til i mik…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )