Jökuldalsheiði er víðast í nánd við 500 m yfir sjó og er u.þ.b. 60 km löng á milli Þríhyrningsfjallgarðar, Þjóðfells og Súlendna að vestan og hábrúna Jökuldals með ýmsum hnúkum að austan. Þar eru berar melöldur, fjöldi vatna, flóar og votlendi, vaxin broki, ljósastör og loð- og grávíði. Um og eftir miðja 19. öld var mikil byggð á Jökuldalsheiði, alls sextán bæir.
Þar bjó fólk, sem vildi vera sjálfbjarga en hafði ekki efni á að stofna til búskapar annars staðar. Öskjugosið 1875 lagði byggðina á heiðinni að mestu í eyði og margt fólk, sem flosnaði upp fluttist til Vesturheims. Halldór Laxness mun hafa fengið margar hugmyndir að skáldsögu sinni „Sjálfstætt fólk” af kynnum sínum við síðustu ábúendur þar. Gunnar Gunnarsson skrifaði skáldsöguna „Heiðarharmur”, sem lýsir lífi fólksins á Jökuldalsheiði vel.
Tunguheiði heitir nyrzti hluti heiðarinnar. Þar stóðu nokkur býli, Háreksstaðir hið stærsta. Þessi heiðarhluti er velgróinn og víða mjög mýrlendur og vötn eru þar mörg, einkum í Vatnaflóa. Helztu vötnin þar eru Hólmavatn, Stórhólmavatn, Langhólmavatn og Geldingavatn, öll góð veiðivötn. Tunguá fellur til Vopnafjarðar úr Grunnavatnsdal, austan Fellahlíðar.
Ármótasel.
Vötn á Jökuldalsheiði.:
Þríhyrningsvatn
Matbrunnavötn
Gripdeild
Þverárvatn
Hnúksvatn
Sænautavatn
Ánavatn