Vonarskarð er á milli Bárðarbungu (2000m) í Vatnajökli og Tungnafellsjökuls (900-940 m.y.s.). Nafn þess er talið vera frá landnámsöld, þegar Bárður Heyjangurs-Bjarnason, landnámsmaður í Bárðardal fór suður Bárðargötu með allt sitt hafurtask að vetri til. Hann fann að sunnanvindar voru hlýir í Bárðardalnum og ákvað að flytja suður í þeirri von að þar væru búsetuskilyrði hagstæðari. Hann nam þar Fljótshverfi og bjó að Gnúpum (Gnúpa-Bárður). Í Vonarskarði eru vatnaskil Skjálfandafljóts og Köldukvíslar á flötum söndum. Þar er líka athyglisvert háhitasvæði. Margir, sem gista í Nýjadal, gefa sér tíma til að ganga upp eftir öllum Nýjadal / Jökuldal inn í Vonarskarð. Einnig er gaman að ganga upp á Tungnafellsjökul frá Nýjadal.
Ekki er hægt að minnast á Vonarskarð án þess að rifja upp frægasta erindið úr kvæðinu Áfangar eftir Jón Helgason:
Séð hef ég skrautleg suðræn blóm
sólvermd í hlýjum garði
áburð og ljós og aðra virkt
enginn til þeirra sparði
mér er þó löngum meira í hug
melgrasskúfurinn harði
runninn upp þar sem Kaldakvísl
kemur úr Vonarskarði.
Eftir stofnun þjóðgarðsins Vatnajökuls hinn 7. júní 2008 varð Vonarskarð eitt aðsetra þjóðgarðsvarða.
Er ekki bara best að ferðast og fræðast um Ísland !!!
Eins og sjá hér að neðan, tengdar færslur er nat.is að reyna að halda jafnframt um gamlar og nýjar heimildir: