Víðigerði og Víðihlíð eru við þjóðveginn í Víðidal vestanverðum. Dalurinn er á milli Línakradals og Vesturhóps að vestan og Vatnsdals að austan. Víðigerði veitir ferðamönnum margs konar þjónustu og í félagsheimilinu Víðihlíð er hægt að kaupa ullarvöru beint frá framleiðendum.
Um Víðidal rennur ein af þekktustu laxveiðiám landsins og ein mesta stórlaxaá Íslands. Upptök árinnar er á heiðum frammi. Þar tínast til lækir og lindir og síðan bætist Fitjá í aðalána. Sjóbleikjusvæðið í Víðidalsá er eitt hið bezta á Norðurlandi.