Veiðileysufjörður er u.þ.b. 8 km langur til norðurs og allt að 2 km breiður og þarmeð lengstur . Hann er girtur bröttum og hömróttum fjöllum og láglendi er af skornum skammti. Kvíanúpur og Kvíarfjall eru fremst austan hans og Lásafjall að vestan. Gjálpardalur gengur inn í hálendið yzt að vestanverðu og þaðan liggur gönguleið upp á Lásafjall. Mardareyrarfjall er innan hans og undir því er Marðareyri. Í hlíðinni ofan eyrarinnar er sagt vera bezta berjaland landsins. Innst sveigir fjörðurinn til austurs. Meleyri er undir Lónahorni. Þar voru hvalstöðvar í nokkur ár en engin vegsummerki eru eftir þær. Fjallið Tafla er fyrir botni fjarðarins og sunnan þess er Karlsstaðadalur og í honum örnefnið Karlsstaðir, sem þykir benda til búsetu fyrrum. Djúpuhliðarfjall er utan dalsins, ofan og vestan Karlsstaða. Undir því er Langeyri og rif út í fjörðinn. Þar sem undirlendið er stærst, eru nokkur eyðibýli, s.s. Hlaðseyri, Steig í Bæjardal, Marðareyri, og Steinólfsstaðir suðvestan Lónhorns.
Marðareyri var nefnd eftir bóndanum Merði, sem sagt er frá í þjóðsögu um Bölt nátttröll, sem rændi ungum manni, sem hann ætlaði dóttur sinni. Dóttirin var ástfangin af tröllinu í Kálfatindum á Hornbjargi og þýddist piltinn ekki. Með fjölkyngi Marðar og aðstoð Steinólfs á Steinólfsstöðum tókst að bjarga honum til mannheima á ný og tröllið varð að steini í hlíðinni utan Seleyrar í Hesteyrarfirði. Mörður var heygður með dýrgripum sínum í Marðarhóli nærri rústum bæjarins. Hólinn má ekki nytja. Manni nokkrum, sem var á ferð þarna, varð það á að tína ber á hólnum. Kona hans ávítaði hann fyrir og á fyrsta vinnudegi eftir fríið í Jökulfjörðum sagaði hann í hægri höndina og slasaði sig.
Gönguleiðir
Frá Steig liggur leið upp á Kvíarfjall og niður Kvíardal að eyðibýlinu Kvíum. Einnig er hægt að ganga upp í Hafnarskarð.
Upp úr fjarðarbotninum er líka leið upp um Hafnarskarð til Hornvíkur. Þetta er greiðfær leið og fjölfarnari (519m).
Greiðfær gönguleið liggur upp frá Steinólfsstöðum yfir í Hesteyrarfjörð. Einnig er hægt að ganga þaðan upp í Hlöðuvíkurskarð til Hlöðuvíkur.