Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Lónafjörður

Tófa Hornströndum

Lónafjörður á milli Hrafnsfjarðar og Veiðileysufjarðar og Lónanúps og Múla. Hann er þröngur og sólin bræðir vetrarsnjóinn ekki fyrr en komið er vel fram á sumar. Snjódældagróðurinn ljær firðinum litskrúðugan blæ meðan hans nýtur við. Borðeyri er langt rif út í fjarðarmynnið yzt og vestast við rætur Múla.
Á milli Hrafnsfjarðar og Lónafjarðar kúrir Lónanúpur eins og skip á hvolfi. Umhverfið í Lónafirði einkennist annars mjög af klettum sem standa efst í fjöllum eða ganga í sjó fram. Sauðungseyri er beint á móti handan fjarðar með stórri tjörn. Fyrrum hét hún Sauðhúseyri, þegar Sauðhús séra Halldórs á Stað í Grunnavík voru þar. Ein þjóðsagnanna frá þessu svæði segir frá viðureign Dýra-Steinþórs og þjófóttrar skessu á eyrinni og sigri Steinþórs.

Einbúi klýfur fjarðarbotninn í tvo voga. Hann er hömrum girtur og skriðurunninn og talinn bera órækan vitnisburð um stóra megineldstöð á svæðinu við austaverða Jökulfirði. Það er aðeins hægt að ganga fyrir Einbúa á fjöru vegna sjávarlóna, sem ná upp að fjallsrótum.
Sagnir herma, að þau séu botnlaus. Sópandi heitir vogurinn austan Einbúa en vestari vogurinn greinist í víkurnar Rangala og Miðkjós. Rangali státar af fallegum berggangi, sem gengur í sjó fram.

Eyðibýlið Kvíar er skammt utan fjarðarmynnisins að norðanverðu og munnmæli herma, að tvö önnur býli hafi verið við fjörðinn, Gautastaðir í Gautastaðahlíð við vestanverðan fjörðinn utan Rangala. Þar eru elztu merki um skóga á landinu, rúmlega 14 milljón ára. Holur eftir trjáboli mynduðust, þegar hraun rann yfir skóginn. Trjábolirnir brunnu ekki vegna skorts á súrefni en koluðust og veðruðust brott með tímanum.

Gönguleð liggur úr Miðkjós um Snókaskarð í Drífandisdal til Smiðjuvíkurbjargs. Þar er Snókur til vinstri. Önnur gönguleið liggur upp úr Rangala um Rangalaskarð í Hornvík. Þessar leiðir eru ómerktar en auðveldar í góðu skyggni. Upp úr Sópanda liggur fremur vanrötuð gönguleið um Þrengsli til Barðsvíkur.

Jökulfjörðum tilheyra: GrunnavíkLeirufjörðurHrafnfjörður, LónafjörðurVeiðileysufjörður og Hesteyrarfjörður.

Myndasafn

Í grennd

Hornstrandir
Hornstrandir Vestfjörðum Nyrsti hluti Vestfjarða er Hornstrandir, sem markast af Geirólfsgnúpi í austri og nú eru vesturmörkin oftast miðuð við Rit v…
Hrafnsfjörður
Hrafnsfjörður er í botni Jökulfjarða. Mörk Hornstrandafriðlands eru í botni hans og báðum megin fjarðar eru skriðurunnin fjöll með klettabeltum. Sunna…
Veiðileysufjörður
Veiðileysufjörður er u.þ.b. 8 km langur til norðurs og allt að 2 km breiður og þarmeð lengstur.  Hann er girtur bröttum og hömróttum fjöllum og láglen…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )