Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Lónafjörður

Tófa Hornströndum

Lónafjörður á milli Hrafnsfjarðar og Veiðileysufjarðar og Lónanúps og Múla. Hann er þröngur og sólin bræðir vetrarsnjóinn ekki fyrr en komið er vel fram á sumar. Snjódældagróðurinn ljær firðinum litskrúðugan blæ meðan hans nýtur við. Borðeyri er langt rif út í fjarðarmynnið yzt og vestast við rætur Múla.
Á milli Hrafnsfjarðar og Lónafjarðar kúrir Lónanúpur eins og skip á hvolfi. Umhverfið í Lónafirði einkennist annars mjög af klettum sem standa efst í fjöllum eða ganga í sjó fram. Sauðungseyri er beint á móti handan fjarðar með stórri tjörn. Fyrrum hét hún Sauðhúseyri, þegar Sauðhús séra Halldórs á Stað í Grunnavík voru þar. Ein þjóðsagnanna frá þessu svæði segir frá viðureign Dýra-Steinþórs og þjófóttrar skessu á eyrinni og sigri Steinþórs.

Einbúi klýfur fjarðarbotninn í tvo voga. Hann er hömrum girtur og skriðurunninn og talinn bera órækan vitnisburð um stóra megineldstöð á svæðinu við austaverða Jökulfirði. Það er aðeins hægt að ganga fyrir Einbúa á fjöru vegna sjávarlóna, sem ná upp að fjallsrótum.
Sagnir herma, að þau séu botnlaus. Sópandi heitir vogurinn austan Einbúa en vestari vogurinn greinist í víkurnar Rangala og Miðkjós. Rangali státar af fallegum berggangi, sem gengur í sjó fram.

Eyðibýlið Kvíar er skammt utan fjarðarmynnisins að norðanverðu og munnmæli herma, að tvö önnur býli hafi verið við fjörðinn, Gautastaðir í Gautastaðahlíð við vestanverðan fjörðinn utan Rangala. Þar eru elztu merki um skóga á landinu, rúmlega 14 milljón ára. Holur eftir trjáboli mynduðust, þegar hraun rann yfir skóginn. Trjábolirnir brunnu ekki vegna skorts á súrefni en koluðust og veðruðust brott með tímanum.

Gönguleð liggur úr Miðkjós um Snókaskarð í Drífandisdal til Smiðjuvíkurbjargs. Þar er Snókur til vinstri. Önnur gönguleið liggur upp úr Rangala um Rangalaskarð í Hornvík. Þessar leiðir eru ómerktar en auðveldar í góðu skyggni. Upp úr Sópanda liggur fremur vanrötuð gönguleið um Þrengsli til Barðsvíkur.

Myndasafn

Í grennd

Hornstrandir
Hornstrandir Vestfjörðum Nyrsti hluti Vestfjarða er Hornstrandir, sem markast af Geirólfsgnúpi í austri og nú eru vesturmörkin oftast miðuð við Rit v…
Hrafnsfjörður
Hrafnsfjörður er í botni Jökulfjarða. Mörk Hornstrandafriðlands eru í botni hans og báðum megin fjarðar eru skriðurunnin fjöll með klettabeltum. Sunna…
Veiðileysufjörður
Veiðileysufjörður er u.þ.b. 8 km langur til norðurs og allt að 2 km breiður og þarmeð lengstur  . Hann er girtur bröttum og hömróttum fjöllum og lágle…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )