Tungnafell (1392m) er ávalt og bratt fell norðan Tungnafellsjökuls og nafngjafi hans. Jökullinn sjálfur, vestan Vonarskarðs, er 10 km langur og 5-6 km breiður og heildarflatarmálið í kringum 48 km². Hlíðar fjalllendisins, sem hann hvílir á, eru víðast brattar og skörðóttar að sunnan og vestan. Uppi á vesturbrúninni er hæsti staðurinn, Háyrna (1520m). Norðnorðaustar er mjór hryggur, Fagrafell, í jökulröndinni.
Fyrstur til að kanna jökulinn var Hans Reck, sem var þar á ferð árið 1908 og Hermann Stoll gekk á jökulinn þremur árum síðar.
Sunnan jökulsins er Nýidalur eða Jökuldalur og fyrir mynni hans eru skálar Ferðafélags Íslands, sem eru líka kenndir við Tungnafell.