Skálinn við Sveinstind er suðaustan við fjallið. Aðkoma bifreiða er frá slóða að Langasjó en að skálanum er fylgt stikuðum slóða vatnamælingamanna til austurs. Fyrri hluta sumars geta verið sandbleytur í slóðanum. Gönguleið hefur verið stikuð frá akslóða að Langasjó að skálanum og einnig hefur verið stikuð gönguleið á tindinn frá suðvestri. Frá skálanum er þriggja tíma ganga á tindinn og til baka. Útsýni af Sveinstindi lætur engan ósnortinn, þar blasir Langisjór við í allri sinn dýrð í fjalla- og jökulramma. Einstök sýn er til austurs að Lakagígaröðinni. Af áhugaverðum dagleiðum má nefna göngu inn með Fögrufjöllum. Skaftártungumenn gista í Sveinstindi er þeir smala Fögrufjöll. Húsið var endurreist af Útvistarmönnum haustið 1999 og var það einkar vel heppnuð framkvæmd, því húsið er bjart og hlýtt og sómir sér mjög vel í umhverfinu. Kynt er með litlum olíuofni og þar er jafnframt gashella og allra nauðsynlegustu eldunaráhöld. Á sumrin er drykkjarvatn leitt að húsinu. Svefnpláss er fyrir 18.
Sími: 562-1000
Bóka núna beint
GPS hnit: 64°05.176´N 18°24.946´W.
Efni af vef Útivistar.
Sveinstindur (1090m) er áberandi, keilulagaður tindur í Fögrufjöllum við suðurenda Langasjávar á Skaftártunguafrétti. Hann er hæstur fjalla á þessu svæði, sést víða að og útýni af honum er mikið. Fjallið er auðgengt. Þorvaldur Thoroddsen gaf því nafn Sveins Pálssonar læknis og náttúrufræðings.