Heinabergsjökull skríður niður úr Vatnajökli á mörkum Suðursveitar og Mýra. Hann klofnar um Hafrafell (1008m) í Skálafellsjökul og Heinabergsjökul. Snjófjall er norðan Hafrafells. Heinabergsfjöll eru austan Heinabergajökuls. Undan honum koma Heinabergsvötn og Kolgríma. Jökulhlaup úr Vatnsdalsvatni, sem er jökulstíflað, eru tíð. Talið er, að leiðir Norðlendinga yfir Vatnajökul til fiskveiða sunnan jökuls, hafi legið upp Brúarjökul og niður Heinabergsjökul við Hálsatind um Staðardal í Suðursveit.
Jöklaferðir voru stofnaðar árið 1985. Jöklasel var byggt 1991. Það er í 830 m, Pallurinn í 320 m og útsýnisstaður við Skálafellsjökul í 540 m. Boðið er upp á jeppa- og snjósleðaferðir á jökulinn og gistingu og þjónustu í Jöklaseli. Vegurinn þangað upp er aðeins 16 km langur en það tekur tæplega 1 klst. að aka hann hvora leið. Enginn gleymir fyrstu reynslunni af honum og enginn ætti að reyna að komast upp á eins drifs bíl. Það fer eftir veðri, hvar er bezt að stanza á leiðinni, en oft er rétt úr sér í 320 og 540 m hæð, þegar skyggni er gott. Reglubundin áætlun er frá Hornarfirði þangað á sumrin.
Fyrirtækið Jöklajeppar – Ís og ævintýri býður ógleymanlegar ferðir í jeppum eða á snjósleðum inn á jökul. Ferðin hefst gjarnan niðri á jafnsléttu við vegamótin að Smyrlabjargavirkjun, þar sem fólk skilur bíla sína eftir.
Eftir stofnun þjóðgarðsins Vatnajökuls hinn 7. júní 2008 varð Heinabergssvæðið eitt aðsetra þjóðgarðsvarða.
Kolgríma er mikil jökulsá í Suðursveit. Hún var hættuleg og erfið yfirferðar áður en fyrsta brúin í Austur-Skaftafellssýslu var byggð yfir hana 1948. Ár hvert hleypur áin og síðasta brúin, sem á að standa af sér álagið, var byggð 1977. Hlaupin koma úr Vatnsdalsvatni undan Heinabergsjökli og ollu oftast miklum skemmdum á veginum.
Árið 2020 var frumsýnd myndin „Midnight Sky“ sem var að hluta tekin á Skálafellsjökli. Leikstjórinn og aðalleikari myndarinnar Georg Clooney átti varla nógu sterk lýsingarorð um íslenska náttúru og sérstaklega íslenska veðrið, sem hann fékk að kynnast á þeim 15 tökudögum sem hann átti uppi á jöklinum. Hér má sjá meira um myndina Midnight Sky.