Reykjanes er yzti hluti Suðurnesja. Þar eru mikil ummerki eldvirkni og vart sést þar stingandi strá. Mest ber á dyngjum, s.s. Háleyjarbungu og Skálafelli, og gossprungum eða gígaröðum, sem eru mun yngri en dyngjurnar og hafa að öllum líkindum myndast á sögulegum tímum. Jarðhiti er mikill á skaganum, ekki færri en fimm háhitasvæði. Eitt þeirra er á Reykjanesi, þar sem sjá má leir- og vatnshveri. Stærsti leirhverinn heitir Gunna.
Guðrún var ódæll draugur, sem olli usla. Galdraprestur var fenginn til að koma henni fyrir í hvernum. Rétt þar hjá er saltvinnsla og fiskþurrkun og þar mun líklega rísa magnesíumverksmiðja í framtíðinni. Árið 2003 var hafin undirbúningur stórs varmaorkuvers á Reykjanesi í tengslum við stækkun Norðuráls á Grundartanga við Hvalfjörð. Það var opnað formlega árið 2007.
Fyrsti viti landsins var reistur uppi á Valahnjúki árið 1878. Árið 1887 ollu jarðskjálftar miklu hruni úr hnjúknum, þannig að nýr viti var reistur á árunum 1907-08, þar sem hann stendur enn þá 73 m yfir sjó. Skammt undan Reykjanestá er 52 m hár drangur í sjónum. Hann heitir Karl. Utar sést til Eldeyjar í góðu skyggni. Hún er 77 m há og á henni er mesta súlubyggð í heimi, u.þ.b. 70 þúsund fuglar. Eldey hefur oft verið klifin, en til þess þarf sérstakt leyfi, þar sem hún er á náttúruverndarskrá. Á Eldeyjarsvæðinu hefur líklega gosið a.m.k. 10 sinnum á sögulegum tíma og þrisvar hafa myndast eyjar, sem hurfu fljótt að gosum loknum.
Þann 19.mars 2021 hófst gos á Reykjanesi í Geldingardölum við Fagradalsfjalls nálægt Keili. Hér má sjá myndband sem Rúnar Geirmundsson gerði á þriðja degi eldsumbrotanna. Eldgos á Reykjanesi.