Sögustaðurinn Reykholt
Reykholt í Reykholtsdal er einhver merkasti sögustaður landsins, ekki sízt vegna búsetu Snorra Sturlusonar. Margir telja han merkasta skáld, rithöfund og fræðimann, sem Ísland hefur alið, en Snorri bjó í Reykholti á árunum 1206-1241. Reykholt hefur verið skólasetur áratugum saman, en einungis hótel síðan 1998, og þykir merkur kirkjustaður. Náttúrufegurð er þar mikil og jarðhiti þar eins og víðar í Reykholtsdal, sem er stærsta lághitasvæði landsins.
Margt er að skoða í Reykholti, þ.á.m. hina fornu Snorralaug, en frá henni liggja jarðgöng til bæjar, og Snorrastofa, sem ætlað er að kynna verk Snorra Sturlusonar. Fornleifarannsóknir hafa verið stundaðar á staðnum, síðast 1998 og 1999 (þar áður 1986 og 1987) og margt merkilegt komið í ljós.
Í nágrenni Reykholts er Deildartunguhver, sem talinn er vatnsmesti hver í heimi. Tiltölulega stutt er að aka frá Reykholti til Húsafells og í Húsafellsskóg. Á þeirri leið eru Hraunfossar / Barnafoss, sem þykja einstök náttúrsmíð. Vegalengdin frá Reykjavík er 84 km.
Í Reykholti er þjónusta og upplýsingar um sögu staðarins.