Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Hallmundarhraun

Hallmundarhraun er stærsta hraunbreiða Borgarfjarðar. Líklega rann það í upphafi 10. aldar, u.þ.b.  hálfri öld eftir fyrsta landnám. Gígarnir, sem mynduðust við gosið, eru við svokallaða Jökulstalla í og undir norðvesturjaðri Langjökuls. Hraunið rann milli jökulsins og Norðlingafljóts, niður dalinn meðfram Strúti að Hvítá.

Heildarlengd hraunsins er u.þ.b. 52 km og breiðast er það u.þ.b. 7 km. Þetta er að mestu lítt gróið helluhraun, þótt talsverðs gróðurs gæti við jaðarinn, s.s. hjá Hraunfossum, og í grennd við gígana, þar sem það er allsandorpið. Stóru hellarnir, Stefánshellir, Víðgelmir, og Surtshellir, er að finna í neðri hluta hraunsins, þar sem það er einna mjóst.

Hallmundarhellir er 20 mínútna gang frá Syðra-Sauðafjalli (528m) í stefnu frá Eiríksgnípu í Eiríksjökli á Sauðafjall mitt. Hellirinn er í 460 m.y.s. og liggur til austurs frá niðurfalli þar í hrauninu og í honum eru mannvistarleifar. Hann er u.þ.b. 40 m langur, víðastur yzt en þrengist inn. Hann fannst 1945 og Gísli Gestsson, safnvörður, kannaði hann tveimur árum síðar. Hann gaf honum nafn í samræmi við Grettissögu. Minjarnar í hellinum eru hleðslur og flet auk beina. Kalt er í hellinum og gróður enginn annar en skófir og mosi. Sandskafl í hellismunnanum er talinn vera a.m.k. 300 ára og mannvistarleifarnar taldar eldri.

Stefánshellir er allvíðáttumikill, 100-150 m austan Surtshellis. Hrun skilur þá að og líklega eru þeir í rauninni sama hellisrörið. Hann fannst í upphafi 20. aldar, þegar Stefán Ólafsson (1901-77), bóndi í Kalmanstungu, var þarna á ferð. Stefánshellir er botnsléttastur og auðveldastur hellanna í Hallmundarhrauni, en í honum eru miklir ranghalar og hvelfingar. Aðalopið er 350 m frá nyrzta opi Surtshellis. Það sést ekki fyrr en fólk er komið á brún þess. Þaðan liggja göng til austurs og vesturs. Þeir eru mislangir. Vesturgangurinn er talinn vera 294 m langur og liggur í átt að Surtshelli. Hann er allt að 5 m hár og 20 m breiður. Vörðubrot var við munnann, þegar Stefán kom að honum, þannig að hann var ekki fyrstur til að finna hann.

Hellaskoðun krefst alltaf varúðar og góðs útbúnaðar. Það er ekki lengur í tízku að ganga um hella með logandi kyndla. Nú á dögum eru notuð góð handrafljós og langbezt er að vera með hjálma með ljósbúnaði að auki.

Myndasafn

Í grennd

Húsafell
Húsafell er vinsæll sumarleyfisstaður meðal Íslendinga. Þar eru fjölmargir sumarbústaðir og hægt er að leigja sér bústað eða tjalda í skóginum. Þarna …
Sögustaðir Vesturlandi
Ýmsir staðir tengdir sögu landshlutans Borgarfjörður Snæfellsnes Dalir Landshlutar Ferðavísir…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )