Öræfajökull, hæsta fjall Íslands
Öræfajökull er hæsta fjall landsins, 2110 m, sem teygist suður úr Vatnajökli. Hæð landsins sunnan þess er u.þ.b. 100 m yfir sjó. Fjallið er topplaus eldkeila með stórar ísfyllta öskju. Jökulhetta Öræfajökuls nær niður í 1000 m hæð yfir sjó og venjulegast eru nokkrir klettaveggir í tindunum íslausir. Þessi eldkeila er álitin hin önnur virkasta í Evrópu á eftir Etnu á Sikiley. Þvermál fjallsins við rætur er u.þ.b. 20 km og grunnflöturinn í kringum 400 km². Rúmmál þess er u.þ.b. 370 km³. Fyrir gos árið 1362 hét Öræfajökull Knappafell.
Nafn byggðarlagsins milli Skeiðarársands og Breiðamerkursands, Öræfi, varð til eftir stórgosið í fjallinu árið 1362. Þá eyddist byggðin og landið leit út eins og stór eyðimörk. Ríólíttindurinn Hvannadalshnjúkur rís u.þ.b. 300 m yfir hjarnsléttu ísfylltrar öskjunnar. Fleiri tindar eru úr ríólíti en líklega er meira um móberg í fjöllunum undir ísnum. Askjan er u.þ.b. 5 km löng og 12 km². Ákoman á jöklinum er u.þ.b. 10 m á ári og meðalársúrkoman er nálægt 5000 mm og er hvergi meiri hérlendis. Fjöldi lítilla skriðjökla teygist niður skörðóttar hlíðar fjallsins úr u.þ.b. 1800 m hæð allt niður að rótum. Hinir stærstu þeirra eru Falljökull, Kvíárjökull, Fjallsjökull og Svínafellsjökull.
Eldkeilan hefur gosið tvisvar á sögulegum tímum, 1362 0g 1727. Jarðvísindamenn álíta fyrra gosið mesta vikurgos á sögulegum tíma hérlendis, en annað stærra varð fyrir u.þ.b. 2800 árum. Magn gjóskunnar var áætlað 10 km³, sem samsvarar 2½ km³ af föstu ríólíti. Vatnsflóðin, sem fylgdu gosinu voru gríðarstór og hrifu með sér marga bæi í Litlahéraði eins og byggðin hét þá. Sporrækt öskufall varð víða um Norðurland og hrannir af vikri sáust á floti fyrir Vestfjörðum. Þykkir vikurskaflar eru víða í Öræfum frá þessu gosi.
Síðara gosið hófst í byrjun ágúst 1727 og linnti ekki fyrr en að tæpu ári liðnu. Það var mest fyrstu þrjá dagana með svo miklu öskufalli að vart var hægt að greina mun dags og nætur. Færra fólk og búfé fórst og enga bæi tók af, því að þeir stóðu hærra en áður. Gjóska þessa goss var einnig mun minni en í hinu fyrra. Aðalhlaupið lagðist meðfram Sandfelli og Hofi sem enn þá sjást merki um.
Sagnir um ferðir yfir Vatnajökul frá norðri til suðurs og öfugt eru til frá fyrri öldum en engin um ferð á Öræfajökul fyrr en árið 1794, þegar Sveinn Pálsson gekk þangað upp frá Kvískerjum. Þar gerði hann sér grein fyrir myndun skriðjökla, líklega fyrstur manna í heiminum, og hreyfingu þeirra sem seigfljótandi efnis, sem sígur undan þyngdaraflinu. Þar sá hann líka öskulögin í jöklinum, þar sem hann brotnar á fjallsbrúnum á niðurleið, og dró réttar ályktanir af þeim.