Keta er gamalt höfuðból og kirkjustaður á austanverðum Skaga og er í Sveitarfélaginu Skagafirði.
Kirkjan í Ketu var útkirkja frá Hvammi í Laxárdal en er nú þjónað frá Sauðárkróki, eftir að Hvammsprestakall var lagt niður 1975. Ketusókn teygir sig yfir í Húnavatnssýslu því að nyrstu bæir á Skaga, Húnavatnssýslumegin, tilheyra sókninni.
Frá Ketu var útræði fyrr á tíð og jörðinni fylgja reka- og silungsveiðihlunnindi. Í landi Ketu eru Ketubjörg, tilkomumikil sjávarbjörg sem eru leifar af eldstöð frá ísöld. Þar er stuðlaberg, gatklettar og drangar og úti fyrir rís úr sjó stakur drangur sem heitir Kerling.