Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Kelduhverfi

Kelduhverfi liggur á milli Tjörness og Öxafjarðarhrepps. Hinn byggði hluti þess er á svæðinu milli hrauns  og hafs og þar eru mörg náttúruundur, sem eru skoðunarverð, s.s. Ásbyrgi og Þjóðgarðurinn í Jökulsárgljúfrum. Svæðið er líka jarðfræðilega áhugavert og sjá má glögg merki um jarðskorpuhreyfingar, misgengi og sprungur, sem breyttust síðast í Mývatnseldum hinum síðari 1975-84. Jarðskjálftar skóku Kelduhverfi veturinn 1975-76 og ollu breytingum á landslagi og sköðum á Kópaskeri.

Meðal landslagsbreytinganna er 9 km² stöðuvatn, Skjálftavatn, sem myndaðist í jarðhræringunum á nýuppgræddu svæði á söndum Kelduhverfis. Tvö sprungukerfi liggja um Kelduhverfi frá norðri til suðurs, annað frá Þeistareykjum og hitt gegnum Kröflueldstöðina um Gjástykki. Kerlingarhólahraun á því svæði, u.þ.b. 2000 ára, er eitthvert hellaauðugasta Hraun á landinu og þar er stærsti hellir, sem fundizt hefur á Norðurlandi.

Um Kelduhverfi liggur þjóðvegur 85 frá vestri til austurs. Imbuþúfa er austast á Tjörnesi, rétt áður en haldið er um Auðbjargarstaðabrekkuna niður í Kelduhverfi (vegaáætlun 2001 gerir ráð fyrir nýjum vegi norðar). Þar er gott útsýni yfir umhverfið á góðum degi. Um miðjan ágúst 2003 var opnaður nýr vegaspotti yfir útfall Lóns og upp sneiðing meðfram klettabelti austanverðs Tjörness, þannig að hin illræmda Auðbjargarstaðabrekka er ekki lengur hluti hringvegarins.

Bláskógar (kvæði Einars Benediktssonar) er gróið hraun með minjum tveggja býla og mikilla garða, sem engar sagnir hafa geymzt um. Beinahellir er stór hvelfing með litlum inngangi suðvestan Bláskóga. Þegar hann fannst í upphafi 20. aldar, voru beinaleifar í honum. Gömul leið milli Sæluhúsmúla á Reykjaheiði og Veggjabæja í Kelduhverfi heitir Bláskógavegur.

Reið- og gönguleiðir eru margar og áhugaverðar fyrir náttúruunnendur, fugla- og hellaskoðara.

Austan Jökulsár á Fjöllum er Öxarfjarðarhreppur og skammt austan ár liggur sumarfær vegur (864) suður að Dettifossi og Grímstöðum á Fjöllum. Jökulsárgljúfur byrja rétt sunnan brúarinnar (1957) og teygjast alla leið suður að Selfossi, einum kílómetra sunnan Dettifoss. Þjóðgarðurinn fylgir þeim að mestu og nær yfir Dettifoss líka. Hann var stofnaður 1973 og nær yfir u.þ.b. 120 km².

Bæklingar um gönguleiðir í Kelduhverfi, þjóðgarðinum og á Melrakkasléttu fást í aðalmiðstöð þjóðgarðsins í Ásbyrgi.

Lón er býli í vestanverðu Kelduhverfi sunnan tvískipts sjávarlóns, sem kallast Ytrilón og Innrilón. Útfallið er um Lónsós. Þarna er góð veiði, allt að 10 punda silungur, koli og áll. Þá var þarna talsverð selsveiði. Æðarfugl verpir í hólmum í lónunum. Talsvert laxeldi var stundað í Innrilóni. Árni Björnsson (1906-1969), tónskáld fæddist að Lóni. Þjóðvegurinn lá sunnan við Lón, niður Auðbjargarstaðabrekku og austur um Kelduhverfi. Hann var fluttur norður á malarrifið yfir Lónsós, norðan lónanna skömmu eftir aldamótin 2000.

Hólshellir er í landi Hóls. Hann var notaður sem fjárhús fyrrum. Þar fannst trélíkneski úr katólskum sið af Kristi á krossinum árið 1876.

Keldunes er bæjahverfi í Kelduhverfi, alls sex samtýnis bæir. Þar í nágrenninu eru Keldunesbrunnar, stór bullaugu við hraunbrúnina. Þarna var þingstaður sveitarinnar og fæðingarstaður Skúla Magnússonar (1711-94), fyrsta íslenzka landfógetans. Hann var frumkvöðull og stofnandi Innréttinganna í Reykjavík, fyrstu tilraunar til eflingar fullvinnslu ullar hérlendis, og baráttumaður fyrir verzlunarréttindum landsmanna og réttarkröfum á sviði verzlunar þeirra gegn dönsku einokuninni og dönskum stjórnvöldum. Hann átti í stöðugum deilum og málaferlum ævilangt, var traustur og raungóður vinur vina sinna. Hann var penni góður og skildi eftir sig fjölbreyttar ritsmíðar.

Bóndinn í Keldunesi skömmu eftir 1700 eignaðist barn með mágkonu sinni og þrátt fyrir að hann fengi annan mann til að gangast við barninu og loforð frá sýslumanni um uppgjöf saka, var hann dæmdur til lífláts á Alþingi 1705. Ekki vildi hann að lögð yrði náðunarbeiðni fyrir konung en setti fram þjár óskir, sem honum voru veittar. Hann fékk að ganga ójárnaður að höggstokknum, föt hans voru gefin fátækum í stað böðlinum og leg í vígðum reit. Barnsmóðurinni var drekkt á heimaslóðum í kjölfarið.

Krossdalur. Fæðingarstaður Kristjáns Jónssonar fjallaskálds (1842-1869). Mestur margra hella í grennd við bæinn er Dimmihellir. Sagan segir, að enginn viti, hve stór hann er og þar hafi maður nokkur verið að villast í þrjá daga áður en hann fann leið út um lítið op, langt suður í hrauni.

Sandur. Óshólmar Jökulsár á Fjöllum eru kallaðir Vestur- og Austur-Sandur. Þar eru hlutar byggða Kelduhverfis og Öxarfjarðar. Næst sjó eru lón og sandur, þá kemur gróið land, fitjar, víðigróður og starengjar. Syðst eru sandar, möl og grjót, framburður Jöklu. Vestan hennar og Bakkahlaups er stór sandgræðslugirðing. Talsverður reki er á söndunum og selveiði var mikið stunduð fyrrum. Stór spilda á Vestur-Sandi milli Kelduness og Veggjarenda seig í tveimur hrinum um tvo metra í jarðskjálftunum 1975-76. Þá myndaðist Skjálftavatn, sem er u.þ.b. 4 km2. Mesta dýpi þess er u.þ.b. 2,5 m.

Skúlagarður var skólasetur (grunnskóli 4.-7. bekkur nemenda Kelduness- og Öxarfjarðarhreppa) og félagsheimili, núna gisti- og samkomustaður. Nefndur eftir Skúla Magnússyni landfógeta (Keldunes) og minnisvarði hans á staðnum er örn á stuðlabergi. Sagt er, að stór örn hafi setzt á baðstofuburstina á Keldunesbænum, þegar hann fæddist.

Víkingavatn er í Kelduneshreppi í N.-Þingeyjarsýslu. Það er 2,4 km², fremur grunnt og í 4 m hæð yfir sjó. Frárennsli er ekki sjáanlegt á yfirborði. Þjóðvegurinn (85) liggur við suðurenda vatnsins. Í því er bæði bleikja og urriði, ágætur fiskur. Gisting og önnur þjónusta fæst í bænum Víkingavatni. Bændur nýta vatnið til netaveiði, þannig að fiskistofnarnir eru í góðu jafnvægi.

Víkingavatn er fornt stórbýli. Sagan segir, að þar hafi búið á landnámsöld bóndi sá, er Víkingur hét. Hann átti í illdeilum við Harald hárfagra, sem sendi menn út til íslands til að drepa hann. Bóndi var að veiðum úti á vatninu, þegar þeir komu. Þeir unnu á honum, þegar hann kom að landi. Þeir hjuggu af bónda hausinn og settu í salt til að færa konungi og sanna afrek sitt. Þeir fóru Reykjaheiði til baka. Er þeir áðu undir múla nokkrum, var þeim litið á höfuðið. Það geyspaði þá ógurlega og þeir urðu svo hræddir, að þeir grófu það á staðnum. Þar heitir síðan „Höfuðreiðar” og múlinn „Höfuðreiðarmúli”.

 

Myndasafn

Í grennd

Ásbyrgi
Ásbyrgi er stórkostleg náttúrusmíð með allt að 100 m háum hamraþiljum, sem hækka eftir því, sem innar kemur í gljúfrið. Innst er Botnstjörn með mikill…
Illdeilur og morð á miðöldum Norðurland
Illdeilur, aftökur og morð á Norðurlandi Arnarstapi Bjarg í Miðfirði Flugumýri Geldingaholt – Geldingaholtsbarda…
Kópasker
Kópasker er kauptún við austanverðan Axarfjörð (Öxarfjörð) og eini þéttbýliskjarninn í Öxarfjarðarhreppi. Þarna var löggildur verzlunarstaður um 1880.…
Öxarfjörður
Mynd Kópasker Öxarfjörður eða Axarfjörður er á milli Tjörness og Melrakkasléttu. Flóinn er u.þ.b. 30 km breiður milli  Knarrarbrekkutanga og Kópask…
Sögustaðir Norðurland
Ýmsir staðir tengdir sögu landshlutans Ábæjarkirkja Aðaldalur Akureyrarflugvöllur Akureyri Innbærinn Árbæjarkirkja Skaga…
Víkingavatn, Kelduneshreppi
Víkingavatn er í Kelduneshreppi í N.-Þingeyjarsýslu. Það er 2,4 km², fremur grunnt og í 4 m hæð yfir sjó.  Frárennsli er ekki sjáanlegt á yfirborði. Þ…
Þjóðgarðurinn í Jökulsárgljúfrum
Þjóðgarðurinn í Jökulsárgljúfrum var stofnaður árið 1973. Hann nær yfir u.þ.b. 150 km² og 35 km langt   svæði meðfram gljúfrasvæði Jökulsár á Fjöllum …

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )