Hvanndalabjarg er u.þ.b. 600 m hátt standberg milli Ólafsfjarðar og Hvanndala, víða skorið gjám og skörðum. Hrikalegust er Skötugjá, rétt utan Fossdals í Ólafsfirði. Sýrdalur gengur niður miðju bjargsins og neðan hans er þverhnípið 200 m hátt. Þjóðsagan um séra Hálfdán Narfason á Felli í Sléttuhlíð er vel kunn.
Eitt sinn, þegar hjón nokkur höfðu búið í Málmey á Skagafirði í rúmlega 20 ár, en þau álög voru á eyjunni, að engin hjón mættu búa þar lengur en í 20 ár, ella hyrfi húsfreyjan, hvarf konan sporlaust. Bóndinn gat ekki á helium sér tekið og nauðaði nógu lengi í séra Hálfdáni, sem vissi meira en nef hans náði, til að hjálpa sér við að finna konuna aftur. Séra Hálfdán taldi öll tormerki á því og reyndi að fullvissa bónda um, að hann vildi ekki fá hana aftur, ef hann sæi hana í þvi ástandi, sem hún væri komin í. Loksins tvímenntu þeir á hestinum Grána og riðu um láð og lög þar til þeir komu að Hvanndalabjörgum. Þar barði Hálfdán á bergið og þurs kom til dyra með konu bónda. Hún var orðin mjög tröllsleg ásýndum, þannig að bóndi vildi ekki fá hana heim aftur. Jón Trausti orti kvæðið Konan í Hvanndalabjörgum.