Hlöðufell (1188m) er formfagur móbergsstapi með jökulsorfnum grágrýtiskolli og sísnævi norðan Laugardals og sunnan Langjökuls. Það er hömrum girt en þó ekki illkleift og útsýnið af toppnum er frábært á góðum degi. Á Hlöðuvöllum, suðvestan Hlöðufells, er sæluhús FÍ frá 1971, sem rúmar 15 manns. Uppgangan á fjallið er greiðust meðfram vestanverðu hamragilinu ofan við sæluhúsið.
Brúará á upptök sín á Rótasandi sunnan Hlöðufells. Þrjár akleiðir liggja að Hlöðufelli, ein frá sæluhúsinu við Brunna á Kaldadalsleið, önnur skammt ofan Gullfoss á Kjalvegi og hin þriðja frá Laugardal, norðan Laugarvatns.